SVONA FÓR UM SJÓFERÐ ÞÁ

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1976 

 

SVONA FÓR UM SJÓFERÐ ÞÁ

 

 

            Það var nú í þá daga, þegar ég ætlaði að gerast sjómaður og réði mig á togara í fyrsta skipti, þá hafði ég aldrei komið á sjó fyrr, ég vissi ekki hvað togari var nema rétt af afspurn, tæplega að ég þekkti þá frá öðrum skipum.

            Mér var sagt að mæta klukkan nýju fyrir hádegi uppi á sýslumannsskrifstofu, því þar ætti ég að láta munstra mig áður en við legðum upp í túrinn.  Ég braut heilann mikið um það hvernig væri farið að því að munstra mann, því ég hafði aldrei heyrt þess getið að menn væru yfirleitt munstraðir,ég vissi að vísu hvernig munstruð skinn litu út og eins vissi ég það að peysur voru kallaðar munstraðar ef eitt hvert útflúr var á þeim, en hvernig væri hægt að munstra menn, það var mér ómögulegt að skilja.  Þetta olli mér miklum heilabrotum, því varla kunni ég við að koma uppá sýslumannsskrifstofu án þess að vita nokkurn hlut hvað ég ætti að segja eða gera og auglýsa mig þannig sem fávísan landkrabba og gera mig hlægilegan í augum annarra, það var það versta sem fyrir mig gæti komið.

            En mikill dauðans asni gat ég annars verið, ég hafði auðvitað oft séð munstraða menn, eða minnsta kosti nógu oft til þess að vita svona nokkurn veginn hvernig það væri gert.  Ég mundi svo vel eftir því að hafa séð sjómenn munstraða á handleggjunum, með alslags útflúri og jafnvel stöfum.  Þarna lá allt svo hundurinn grafinn.  Ég yrði víst ekki í vandræðum að láta munstra mig eins og hver annar heiðarlegur sjómaður.

            En þá var það aftur á móti annað sem kom til greina í þessu máli, hversu sárt var það, hvaða aðferð notuðu þeir við að klína þessum fjára á mann, það var töluvert  atriði.  Ef þeir brenndu mann með einhverjum déskotanum, gæti það orðið býsna óþægilegt, sér í lagi ef maður yrði ekki deyfður nokkurn skapaðan hlut, en ef þetta yrði nú bara stimplað á mann, eins og til dæmis gert er við egg þá ætti það ekki að þurfa að vera svo bölvað.  Ýmsar fleiri aðferðir fannst mér að gætu komið til greina til dæmis málning eða einhverslags litir, einnig var hugsanlegt að maður væri rispaður með einhvers lags tilfæringum, en slíkt og þvíumlíkt gæti orðið býsna óþægilegt.

            En hvað um það öllu varð að taka með kristilegri ró, hver svo sem aðferðin yrði, því sjómenn urðu að vera harðsoðnir ribbaldar hertir í skítviðri og gusu gangi.

            Ég var ákveðinn að bera mig karlmannlega og láta engan bilbug á mér finna, þess vegna hleypti ég í brýrnar, bölvaði hressilega og spýtti á gangstéttina áður en ég hélt upp á sýslumannsskrifstofuna.  Ég hafði nefnilega heyrt það sagt að sjómenn bölvuðu töluvert og þótti mér það bera vott um kjark og karlmennsku.

            Já ég ætlaði sem sé að bera mig karlmannlega og sýna þeim þarna upp á sýslumannsskrifstofunni að sjómönnum væri yfir leitt ekki fisjað saman, heldur gengju að hverju og einu með festu og karlmennsku, jafnvel þó það kynni að hafa einhver óþægindi í för með sér.  Ég bankaði léttilega á hurðina opnaði síðan snaraði mér inn fyrir og bauð góðan daginn.

            Ein hver náungi sem ég veit ekki hvað heitir kom að afgreiðsluborðinu og spurði hvað það væri fyrir mig.  Ég sagðist vera kominn til þess að láta munstra mig, því ég væri ráðinn á Flatbak.

            "U - hu - " sagði hann "svo þú ert ráðinn á Flatbak, og heitir?  "Heiti" hváði ég "hvurn fjandann ætli þig varði um hvað ég heiti".  Það er best að vera ekki með neina útúr dúra heldur byrja  á þessu strax.  Og til þess að sýna honum að mér væri bláköld alvara, því ég hafði heyrt það sagt að sjómenn létu ekki vaða ofan í sig, ekki fyrir neitt, snaraði ég mér úr jakkanum og bretti upp skyrtuerminni.

            Maðurinn starði á mig forgáttaður eins og hann hafði aldrei séð sjómann fyrr á ævi sinni, hann bærði til varirnar en sagði ekki neitt, svo mér datt í hug að orðin hefðu farið öfugar leið og stæðu öll föst í hálsinum á honum, eða þá að þau komu fram í annarlegri mynd á öðrum stað sem yfir leitt er ekki notaður til þess að tala með.

            En eftir langa mæðu komu þau samt réttu boðleiðina og hann spurði mig hvað ég eiginlega meinti.  Ég sagðist meina það að ég væri hingað kominn til þess að láta munstra mig, en ekki til þess að þylja upp neinar ættatölur.

            "Hvernig heldur þú eiginlega að þú sért munstraður" sagði hann, og ég gat ekki betur séð en fanturinn væri byrjaður að glotta.  "Nú klínið þið ekki einhverjum fjandanum á handleggina á manni" hreytti ég út úr mér, ekki sérlega vingjarnlega.

            "Ne - he - he - he - hey", sagði þrjóturinn skelli hlæjandi, "við skrifum bara hjá okkur nafnið og heimilisfang ásamt fæðingardegi, það látum við okkur duga enn sem komið er".  Ég hefði mikið heldur viljað taka á móti vel úti látnu kjaftshöggi, heldur en svona hrakleringum því sannast að segja óskaði ég þess að jörðin gleypti mig með húð og hári og skilaði mér aldrei aftur.

            Með miklum erfiðis munum tókst mér þó að stynja upp nafni mínu og heimilisfangi við þennan illgjarna þrjót sem hristist af hlátri framan við mig svo afskaplega að hann ætlaði varla að geta párað þessi fáu orð í doðrantinn sem hann hafði framan við sig.

            Skjálfandi af niðurlægingu stóð ég framan við borðið og svitnaði og kólnaði til skiptis.  Þekkingar skorturinn og fljótfærnin höfðu leikið mig svo grátt í þetta skiptið að mér fannst ég ekki eiga viðreisnar von framar á lífs leiðinni, mér fannst ég vera að kafna, ég fékk svima og mér fannst að það mundi líða yfir mig á hverri stundu.

            En loksins þegar þrjóturinn var búinn að pára niður hjá sér það sem honum þótti við eiga rétti hann mér doðrantinn og sagði mér að skrifa nafnið mitt aftan við .  Með skjálfandi hendi tók ég sjálfblekunginn og hripaði einhverja óskiljanlega stafi sem ég gat ekki einu sinni lesið sjálfur, síðan tók ég til fótanna og forðaði mér út á götuna.

            Ég æddi áfram eftir götunni eins og blindur kettlingur utan við mig og niður brotinn.  Mér fannst ég vera hrakinn út úr mannfélaginu, hlekkjaður niðurlægðinni, stimplaður hálfviti um aldur og ævi, mér fannst ég vera dauður, horfinn út í eilífðina einn og yfir gefinn, horfinn út í endalaust myrkur hinna fordæmdu.

            Það sem kom mér í skilning um að ég væri ennþá ofan jarðar og í fullri snertingu við hina mannlegu tækni nútímans var falleg nýtísku fólksbifreið sem brunaði á mig og henti mér flötum í götuna.  Ég fann sáran verk í handleggnum svo nærri lá að ég hljóðaði þegar bifreiðarstjórinn var að reyna að hjálpa mér á fætur.

            "Heldurðu að þú sért slasaður" sagði hann "já" sagði ég "svei mér ef ég er ekki eitthvað brákaður vinstra megin".

Hann hjálpaði mér upp í bílinn og ók mér upp á spítala, þar var tekin mynd af handleggnum á mér og hann settur í gips, síðan var mér sagt að koma aftur eftir fjórar til fimm vikur.

            Það var ekki harðsoðinn sjómaður hertur í skítviðri og gusugangi sem hélt eftir veginum frá spítalanum niður í bæinn, heldur niður brotinn landkrabbi með höndina í fatla og brostnar framtíðar drauma, hlustandi eftir hinum hverfula nið horfinna hyllinga frá ári hafgolunnar sem aldrei var sunginn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Þræl skemmtileg saga. Spurning hvað hefði orðið um mig ef ég hefði lent í því sama. Ég hef séð mörg furðuleg andlitin í gegnum tíðina þegar talað er um að munstra helvítis kvikindin. Oft hefur maður notað tungumálið óheflað með öllu þegar um óvana hefur verið að ræða og haft af því hina mestu skemmtun.

Hallgrímur Guðmundsson, 24.2.2008 kl. 20:08

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband