Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Hátíð

Ég ætla að óska öllum gleðilegrar hátíðar og vona að menn komi vel undan jólamatnum.Tounge

Rjúpan (svona í tilefni jólanna)

  Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976

RJÚPAN

 

 

     Þeir félagar, Gunnlaugur og Beinteinn voru snemma á fótum þennan morgun.  Gunnlaugur hafði frétt það hjá nágranna sínum, Birni á Gili, að það væri mikið af rjúpum um þessar mundir upp í Herjólfsdal, svo mikið að annað eins hefði ekki sést í manna minnum.

     Þeir réðu því ráðum sínum, kvöldið áður og ákváðu þá að leggja af stað snemma um morguninn og veiða mikið.

     Þeir hömuðust við það kófsveittir, fram á nótt að fægja fram hlaðningana sína, sem þeir höfðu ekki snert í mörg ár.  Smíða nýja hlaðstokka, fylla púðurhornin og búa til högl sem nægðu til að stoppa upp heila herdeild.

     Ekki mátti skotfærin vanta þegar á hólminn kæmi og allt varð að vera í stakasta lagi, það var ekki víst að þeir hefðu mikinn tíma til snúninga því eftir útlitinu að dæma þá mundu þeir róa mest á sama blettinum og gera ekki annað en að skjóta og skjóta allan daginn fram í myrkur.

     Ef nokkuð væri að reiða sig á það sem Björn hafði sagt, yrði veiðin alveg gífurleg, svo mikil að þeir gætu aldrei borið hana heim, þess vegna ákváðu þeir að taka með sér sleða þó að færið væri slæmt, því tveir menn gátu dregið töluvert mikið á einum sleða.

     Björn hafði sagt Gunnlaugi það að hann hefði rölt þarna upp eftir fyrir forvitnis sakir, seinni partinn daginn áður og haft aðeins tíu skot með sér.  Á þessi tíu skot hafði hann fengið fimmtíu og átta rjúpur og rotað svo tvær með hlað­stokknum, því þær hefðu verið svo gæfar að nærri hefði legið við að væri hægt að taka þær með berum höndunum.  Ef myrkrið hefði ekki skollið svona skyndilega á hefði hann haldið áfram og rotað fleiri.

            Þetta var nú reyndar dálítið ótrúlegt en veiðihugurinn og gróðamöguleikarnir ýttu undir Gunnlaug og gáfu honum trúna.  Það væri ekki aldeilis amalegt, svona rétt fyrir jólin, að skjóta nokkur hundruð rjúpur og fá kannski allt upp í átta aura fyrir stykkið Björn hafði líka látið það fylgja sögunni, að danskurinn væri gráðugur í rjúpu og gæfi vel fyrir hana í jólasteikina.

            Þegar þeir voru búnir að fá sér matarbita, stakk Gunnlaugur upp á því að þeir skyldu hlaða byssurnar áður en þeir héldu af stað.  Það fannst Beinteini heillaráð.  Það gat svo sem vel verið, á svona langri leið eins og upp í Herjólfsdal, að þeir hittu eitthvert slangur á leiðinni og þá væri betra að geta hleypt af fyrirvaralaust.

            Þeir héldu af stað með hlaðnar byssurnar og uppspenntar, Gunnlaugur gekk á undan með sína reidda um öxl og snéri hlaupinu aftur, svo það stemmdi beint á hausinn á Beinteini, sem gekk álútur á eftir og dró sleðann.  Hann hafði sína byssu einnig reidda um öxl, en nokkuð á annan veg, því hjá honum sneri hlaupið fram og stemmdi beint á miðjan bakhluta Gunnlaugs.

            "Skyldum við fá margar rjúpur í dag Gunnlaugur" sagði Beinteinn, þegar þeir voru komnir skammt upp fyrir bæinn.

            "Ó ég veit ekki lagsmaður" sagði Gunnlaugur "það er ekki gott að segja svona áður en maður sér nokkra rjúpu.  En ég held að við ættum að geta fengið einar hundrað og sextíu til tvö hundruð hver, eftir því sem Björn fékk í gær, hann hefur aldrei farið til rjúpna fyrr, frekar en við og ég held fyrir mína parta að hann sé alls ekki betri skytta".   "Þar er ég nú á sama máli" sagði Beinteinn.  "Ekki virtist hann að minnsta kosti rista djúpt í skotfiminni, þegar hann ætlaði að skjóta hundinn fyrir prestinn í fyrra, því eftir því sem ég hef heyrt meðtók söðull maddömunnar innihaldið úr byssunni og varð víst ekki sérlega gott af, því maddaman hefur ekki sést á hestbaki síðan, að minnsta kosti.  En nokkuð er það að hundurinn lifir enn, við bestu heilsu, að séð verður, þó gamall sé".

            Ert þú viss um Gunnlaugur að rjúpurnar hafi verið sextíu, en ekki sex?

            Hann sagði sextíu, hvort sem hann hefur logið því eða ekki, annars sagðist hann geta svarið það að þetta væri alveg satt.

            Það vildi ég að þú hefðir sótt Biblíuna og látið helv.... sverja "sagði Beinteinn" það væri ekki óþokkalegt eða hitt þó heldur, ef hann væri að ljúga að okkur og narra okkur alla þessa leið ekki til nokkurs hlutar.

            "Hvað ætti honum að koma til að vera að ljúga að okkur" sagði Gunnlaugur.

            "Ó" sagði Beinteinn "það gat nú svo sem verið að hann hefði asnast þarna upp eftir og komið  svo gott sem með höglin í rassinum til baka aftur.  Honum mundi þá kannski þykja nokkur sárabót að því að geta gabbað okkur líka.

            Ég trúi öllu upp á hann síðan hann hengdi fyrir mér köttinn um árið, mér finnst það svo lúalegt ekki síst af því hann vissi að ég átti engan annan kött og engan annan kött að fá um þær mundir og mýsnar óðu uppi einmitt þennan vetur eins og engilsprettufaraldur, lögðust á sauðfé auk heldur annað.  Nei honum þótti betra að láta mig berjast við þær einan, heldur en að una mér þess að eiga köttinn, svona geta nú sumir menn verið einkennilega innrættir".

            Ójá "sagði Gunnlaugur" en ég er nú hálf hræddur um að Birni hafi fundist hann eiga eitthvað inni hjá þér, ja svona eins og fyrir kettinum að minnsta kosti.  "Hjá mér" öskraði Beinteinn. "Nei hann á ekkert hjá mér og hefur aldrei átt, að mér heilum og lifandi".  "Ert þú nú alveg viss um það" "ha" sagði Gunnlaugur og glotti út í annað munnvikið "ég er nú samt hræddur um að honum finnist annað".  "Já það er ég alveg viss um" sagði Beinteinn fast mæltur "hvað ætti það svo sem að vera".

            Gunnlaugur ók sér lítið eitt til í herðunum, leit aftur fyrir sig á Beintein sem var farinn að hallast óþarflega mikið fram á við og sagði, "ja hérna hem.  Nefnilega sko, hann álítur að þú hafir verið eitthvað að kúvendera til kerlinguna fyrir sér".

            "Kúvendera - ég -kerlinguna" Beinteinn tókst á loft af vonsku.  "Því lík andsk..... lygi.  Hver sagði þetta?  Ég heimta sögumann: Ég kæri".

            "Það hefur enginn haldið þessu fram nema Björn, Beinteinn minn, við sem þekkjum þig vitum að þetta er lygi.  En Birni dettur nú margt vitlaust í hug sem engin leggur trúnað á". "Já hann má vara sig sá þrjótur" sagði Beinteinn" ef hann ætlar að leggja það í vana sinn að ljúga upp á mig allslags óhroðasögum, þá skal ég einhvern tímann jafna svo um gúlan á honum að hann opni hann ekki í nokkra daga, að minnsta kosti ekki til þess að bera út óhroðasögur um mig.

            Þeir gengu þegjandi það sem eftir var upp í dalsminnið, án þess að verða varir við eina einustu rjúpu.  Þar tylltu þeir sér niður og réðu ráðum sínum, hvernig haga skildi veiðiferðinni.  Gunnlaugur lagði það til málanna að þeir skildi sleðann þarna eftir og skiptu sér.  Hann færi að austan en Beinteinn að vestan og svo mættust þeir fyrir miðjum botni, ef á annað borð þeir kæmust svo langt fyrir rjúpum.  En ef það yrði nú ekki, þá skildu þeir reyna að rogast með sem mest af herfanginu til sleðans aftur.  Hitt yrðu þeir svo að grafa í fönn og merkja vel staðinn, sækja það svo daginn eftir og hafa þá hest meðferðis.

            Þeir voru báðir prýðilega ánægðir með þessa skipulagningu, héldu af stað glaðir og reifir með óyggjandi sigurvissu í kollinum.

            Færið var erfitt og ferðin gekk seint.  Þeir skimuðu í allar áttir og hlustuðu, renndu haukfránum augunum yfir endalausa fannbreiðuna og urðu einskis varir.  Laust fyrir myrkur mættust þeir í botni dalsins, bæði slæptir og reiðir.

            "Þarna sér maður hvað mikið er að marka hann Björn" sagði Beinteinn og skimaði í allar áttir.  "Ég hef ekki svo mikið sem heyrt í einni einustu rjúpu auk heldur séð, ég er hræddur um að þér hefði verið nær Gunnlaugur karlinn að taka ekki allt trúanlegt sem hann laug í þig í gær".

            Það var farið að þykkna í Gunnlaugi, honum fannst satt að segja að hann væri búinn að fá nóg þennan daginn þó Beinteinn færi ekki að brýxla honum einum um það sem var þeim báðum að kenna.  "Hvers vegna varst þú að fara í þetta ferðalag fyrst þú vissir að þetta var allt saman lygi".  "Af því að þú" Beinteinn hætti skyndilega við setninguna, hann heyrði greinilega vængja þyt.  "Heyrirðu" sagði hann með öndina í hálsinum af spenningi og greip í handlegginn á Gunnlaugi.  Tvær rjúpur komu fljúgandi og tylltu sér framan í hólbarðið, skammt fyrir framan þá.

            "Ja svei mér þá" hvíslaði Gunnlaugur.  Þeir köstuðu sér báðir flötum og miðuðu byssunum.

            "Þú skýtur þessa en ég hina" hvíslaði Beinteinn.  "Já " Sagði Gunnlaugur "ertu til". "Já, einn tveir og þrír.  Þeir hleyptu báðir af í einu, önnur rjúpan flaug en hin lá eftir öll sundur tætt.

            "Mikill bölvaður klaufi ertu að hitta ekki maður" sagði Gunnlaugur.

            "Ég" sagði Beinteinn "þetta er rjúpa sem ég skaut, það ert þú sem ert bölvaður klaufi og hittir ekki".  "Ég held nú ekki" sagði Gunnlaugur "þú sagðir mér að skjóta þessa rjúpu".

            "Nei ég sagði þér að skjóta hina" sagði Beinteinn.

            "Ó nei" sagði Gunnlaugur "þú sagðir skjóttu þessa ég skal skjóta hina, það voru þín óbreyttu orð, nú og svo veit ég náttúrlega sjálfur best hvað ég skýt".  "Já ég sagði það" sagði Beinteinn "en þessi var hin og ég skaut á hana.

     "Hvernig heldurðu að þessi geti verið hin, þegar hin er flogin" sagði Gunnlaugur.  "Nei góði maður, þú þarft ekki að ímynda þér að þú fáir mig til þess að trúa svona bölvaðri vitleysu, því auðvita er þessi, þessi og hin, hin".

            "Heldur þú kannski að þú vitir betur en ég hvað ég meina" Hvæsti Beinteinn út úr sér.  "Ég meinti að þessi væri hin og hin væri þessi, þess vegna skaut ég á þessa en ekki á hina.  Þér hefði verið nær að reyna að skilja það betur sem ég sagði, þá hefðum við haft báðar rjúpurnar".

            Það var farið að síga í Gunnlaug, hann langaði mest af öllu til þess að hella yfir Beintein óbóta skömmum, en hann reyndi þó að stilla sig eftir megni og sagði:"Ég held að þér hefði verið nær að tala skírar, ef þú hefðir sagt mér að skjóta þá efri þá hefði ég gert það, en ekki þessa".

            "Það var ég sem skaut þessa" sagði Beinteinn og gekk að rjúpunni og tók hana upp.  Að því búnu hlóð hann byssuna aftur, lagði af stað niður dalinn og gekk rösklega.  Hann hélt á rjúpunni í annarri hendinni, hafði byssuna reidda um öxl og snéri hlaupinu aftur.

            Gunnlaugur hlóð líka sína byssu og gekk stutt á eftir honum, þegar þeir komu niður í miðjan dalinn var tekið að bregða birtu, þó en skotljós.  Beinteinn hélt enn sama hraða og æddi áfram án þess að líta til hægri eða vinstri.

            Allt í einu flugu nokkrar rjúpur upp rétt framan við tærnar á honum.  Honum varð svo mikið um þetta, að hann hrökk aftur á bak og datt á rassinn, en um leið hljóp skot úr byssunni rétt framhjá hausnum á Gunnlaugi.  Stóreflis rjúpu hópur flaug upp stutt fyrir framan þá og leið burtu eins og stórt ský fram dalinn.  Gunnlaugur stóð ringlaður og utan við sig og horfði löngunar augum á eftir rjúpunum, hann hafði ekki einu sinni haft sinnu á því að reyna að skjóta, þegar þær flugu framhjá.  Svo áttaði hann sig allt í einu, hann sá það í hendi sinni að ef hann hefði skotið á hópinn hefði hann hæft að minnsta kosti fjórar eða fimm, kannski fleiri.

            Þetta var allt saman Beinteini að kenna ef hann hefði ekki hleypt skotinu úr byssunni svo gott sem í hausinn á honum, þá hefði hann aldrei komist úr jafnvægi.  Hann hafði aldrei vitað aðra eins framkomu hjá nokkrum manni fyrr, fyrst að rífa af sér rjúpuna, sem hann skaut svo að sýna sér morðtilræði og svipta sig um leið því eina tækifæri sem hann hafði, til þess að ná sér í fleiri rjúpur.

            Gunnlaugi fannst í sannleika sagt varla vera hægt að ganga lengra í mannlegri ódyggð, hann æddi til Beinteins sem var að klöngrast á fætur.

            Þú dettur sjálfsagt ekki á þennan veginn þegar þú hittir kerlinguna hans Björns næst, skyldi maður ætla, þú ætlar náttúrlega að gefa henni rjúpuna þá arna í ómakslaun, þess vegna hefur þér verið svona mikið kappsmál að ná henni þó að þú ættir hana ekki, því það skaltu vita karlinn minn að það var ég sem skaut hana en ekki þú, og þetta er mín rjúpa en ekki þín.  Annars fyndist mér það eðlilegra að þú létir Björn hafa annan kött til að hengja, en værir ekki að stela rjúpum frá mér, því nú átt þú þó nóg af köttunum.

            Beinteinn varð svartur í framan af reiði, hann æddi að Gunnlaugi og reiddi upp rjúpuna.

            "Ég kæri þig fyrir meiðyrði og tilraun til að stela frá mér rjúpunni, því það var ég sem skaut hana".

            "Nei því lýgur þú eins og þú ert langur til" öskraði Gunnlaugur "þú hefur aldrei skotið neitt nema þessa einu kerlingu, eins og hún er þó líka geðsleg eða hitt þó heldur.  Að minnsta kosti hefur þú aldrei skotið á neitt sem hefur legið nema hana, það er eitt sem er ábyggilegt".

            "Þú skalt verða að standa við þetta fyrir sýslumanni" hvæsti Beinteinn út úr sér "og tukthúslimur skaltu verða áður en vorið gengur í garð því skal ég lofa þér.  Saman við þessa kerlingu, hef ég aldrei haft neitt að sælda, slíkt er bara lygi og uppspuni úr þér og þínum líkum, sem eruð svo óráðvandir að reyna að spilla mannorði annarra og gera það eins svart eins og ykkar eigið".  Beinteinn snéri sér við og bjóst til að halda heimleiðis.

            Gunnlaugur leit glottandi á hann og sagði. "Hvað voru þið að gera í hlöðunni á Gili fyrsta daginn í jólaföstu, þegar Björn var í kaupstaðnum? segðu mér það".

            "Ég var alls ekki í neinni hlöðu fyrsta daginn í jólaföstu lygalaupurinn þinn" svaraði Beinteinn.  "Ég var heima þá og alla daga um það leiti".  "Jæja einmitt það" sagði Gunnlaugur "ég er nú hræddur um að Grímsi í Gerði sé ekki alveg á sama máli, eftir því sem hann sagði mér að minnsta kosti".

            "Nú hvað sagði hann þér svo sem" hreytti Beinteinn út úr sér.  "O-o" sagði Gunnlaugur "það var nú lítið meira en ég vissi fyrr, ja- hann sagði að Siggi og hann hefðu læðst inn í húsið og skriðið inn í tóttardyrnar, því þar hefðu þeir bæði getað séð og heyrt það sem fram fór, en svo hefði Sigga orðið á að reka annan fótinn í garðstokkinn, svo í hefði hvinið all hátt, þá fór sú gamla að ókyrrast, því að þeir heyrðu þá að þú sagðir, Beinteinn karlinn.  "Vertu róleg Jóhanna, það er bara kötturinn að klóra".  Beinteinn hóf upp rjúpuna og henti henni beint framan í andlitið á Gunnlaugi, svo tók hann á rás áleiðis til byggða.

 


Rúsnesk

kosning er ekki svo Rússnesk lengur eða bara 62,8 %.Cool

Ég man ekki betur en Davíð hefði verið að fá yfir 90% í sjálfstæðisflokknum hér um árið eða í lok síðustu aldar.Devil


mbl.is Flokkur Pútíns fékk 62,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagrenning draumalandsins

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1976

 

Dagrenning draumalandsins

 

   Það er leiðinlegt að leggja samann tvo og tvo og fá alltaf út fimm, þegar allir vita að útkoman á að vera fjórir, en svona reiknum við oftast út flest dæmi lífsins. 

     Ég var staddur í kvennaskóla langt upp í Borgarfirði, mér til heilsubótar, jafnframt ætlaði ég að gerast rithöfundur og skrifa fallegar sögur.  Sögur sem eitthvað væri varið í, en ekki andlaust rugl með þreytandi persónum og misheppnuðu orðavali, eins og oft vill verða hjá ungum og upprenndi rithöfundum og jafnframt hjá þeim gömlu líka.

     Ég tók skrifblokkina mína út úr púltinu og blýantinn, fékk mér vatn í glas og setti á borðið, ég var ákveðinn í því að skrifa í rúminu eftir að ég væri háttaður.  Mér fannst endilega að andinn hlyti að koma yfir mig þegar ég væri kominn upp í rúmið.  Ekki síst vegna þess að á undan mér höfðu í þessu sama rúmi sofið ungar og myndalegar stúlkur, vetur eftir vetur.  Það hefði verið gaman að vita hvernig þessar stúlkur litu út, hvort þær hefðu verið mjög fallegar er bara kannski lítið fallegar, um það er ekki gott að segja fyrir mann sem aðeins hefur sofið í sama rúmi, en aldrei augum litið.

     Að hafa sofið í sama rúmi og stúlka sem maður hefur aldrei séð, hljómar dálítið aftur á bak undir flestum eðlilegum kringumstæðum, það yrði gaman að sjá framan í þá stúlku sem yrði fyrir því að ókunnur maður kæmi til hennar og segði, hvernig hefur þú það góða mín, það er ekki langt síðan ég svaf í sama rúmi og þú, en þó væri enn þá meira gaman að hafa einhverja af þessum yndislegu stúlkum núna uppi í rúminu hjá sér, sjá þessi fagur sköpuðu brjóst lyftast og falla eins og öldur hafsins með töfrandi yndisleika, hvílíkur unaður hlyti það að verða.

     Já, jæja um það þýðir ekki að vera að brjóta heilan um það sem aldrei skeður, best að snúa sér að efninu og fara að skrifa, ég settist upp í rúmið tók blokkina mína og blýantinn og byrjaði að hugsa,um hvað ætti ég að skrifa, það var spurningin.  Ég fékk mér vatn að drekka og kveikti í pípunni minni, andinn vildi ekki koma yfir mig, þó merkilegt væri, ég þreytti hugann og reyndi allar hugsanlegar leiðir til þess að hefja söguna en ekkert dugði, ég fékk mér aftur vatn að drekka og kveikti í pípunni, alveg sama, jafn andlaus fyrir því.  Ég sló blýantinum í hausinn á mér fyrst hægra megin og svo vinstra megin, það engan árangur, þá sló ég hnakkanum í vegginn svo fast að mig sárkenndi til, það hafði þau áhrif að ég hætti alveg að geta hugsað.  Ég var að verða fjúkandi reiður, það snörlaði í mönnum sem sváfu í sama herbergi og ég.  Þeir sváfu svefni hinna réttlátu, rólegir og ánægðir haldnir öryggis kennd til hins frjálsa manns.  Þeir byltu sér og umluðu upp úr svefninum, einn þeirra tautaði í sífellu, elskan - elskan komdu til mín elskan.  Já ég er alveg að koma elskan, sagði ég.  Ó ó umlaði hinn, svo opnaði hann og horfði á mig hálf bjánalega, var þig að dreyma , sagði ég.  Já mig var að dreyma, sagði hann.  Ég heyrði þetta, þú varst í fjörugum samræðum við einhverja unga og mjög laglega stúlku.  Já hún var ansi lagleg, eiginlega stórfalleg, er það ekki fyrir illu að dreyma kvenfólk? Jú það á vist að vera það, en það fer náttúrlega eftir því hvernig stúlkan er og  hvað gerist í draumnum.  Já sennilega, ertu sleipur að ráða drauma?  Já ég er búinn að ráða marga drauma og þeir hafa allir komið fram.  Einmitt já, kannski þú ráðir þennan draum fyrir mig hann er dálítið merkilegur skal ég segja þér.  Já láttu hann koma ég verð ekki í vandræðum með að ráða hann, ég hef ráðið marga erfiða, en auðvitað hafði ég aldrei ráðið drauma, ég er ekki trúaður á að þeir boði nein stórtíðindi, heldur væru sprottnir frá hugsunum mannsins.  En það er alltaf gaman að heyra draum og sjálfsagt að ráða þá á einhvern hátt, ekki síst ef maður veit um eitthvað sem stendur til að komi fyrir dreymandann, en hann hefur ekki hugmund um sjálfur.

     Félagi minn reis upp í rúminu og horfði svefndrukknum augum út yfir herbergið, það komu annað slagið smá grettur á andlitið á honum, sem hefur sjálfsagt átt að vera bros, en maðurinn of syfjaður til að geta framkallað það í réttu formi.  Hann var að rifja upp drauminn með sjálfum sér, endurlífga hin gullnu ævintýri næturinnar áður en hann kastaði þeim fyrir eina af hinum dauðlegu verum hins hverfula heims.

     Það var eins og hann væri búinn að gleyma öllu, bæði mér og herberginu, gretturnar á andlitni smá skírðust í ljómandi bros og síðan í hlakkandi hlátur, hann iðaði allur í rúminu af spenningi, þetta hlaut að vera dýrðlegur draumur. Loksins var hann búinn að hugsa nóg, hann leit til mín með hálfkulnað bros á vör og hóf frásögnina.

     Mér fannst ég vera staddur uppá háum fjallstindi, þar sem mættust fjórir fjallgarðar, frá suðri, vestri, norðri og austri, mér fannst þetta vera nokkru eftir miðnætti, strjálir og smáir skýjahnoðrar sveimuðu um himinhvolfið og fyrstu sendiboðar morgunsólarinnar lituðu austur loftið daufum roða.

     Mér fannst ég hafa komið eftir fjallgarðinum sem lá til suðurs og stoppa þarna á tindinum til þess að athuga í hvaða átt ég ætti að halda, ég byrjaði á því að líta í vestur, í fjarska sá ég bláa súlu stíga upp af fjallgarðinum og líða í áttina til mín, en þegar hún var komin um það bil miðjaleið breyttist hún í óljósa konumynd sem leystist upp og hvarf.  Næst horfði ég í norður þar sá ég einnig súlu stíga upp nyrst á fjallgarðinum, grá reykjarsúla hátt upp í loftið og stefna til mín með leiftur hraða, hún stoppaði rétt fyrir framan mig og breyttist í konumynd, konu sem ég kannaðist við, hún horfði á mig ástleitnu og ásakandi augnaráði, síðan breyttist hún aftur í fráa reykjasúlu sem leið í norðurátt og lestist upp.  Þá snéri ég mér næst til austurs, þar sá ég þriðju súluna með rauðleitum blæ stíga upp af enda fjallgarðsins hátt upp í loftið, hún leið einnig í áttina til mín hægt og hikandi og stoppaði alveg þrisvar eða fjórum sinnum, en loksins kom hún þó alla leið, hún breyttist líka í konu með slæðu fyrir hálfu andlitinu, undursamlegum geislabaugur umvafði höfuð hennar, svo að hún líktist fremur engli en mennskri konu, hana vantaði bara vængina.  Mér fannst ég kannast við þessa konu, en mér var ómögulegt að koma því fyrir mig hver hún var, vegna þess að slæðan varnaði mér að sjá annað en augun muninn og hökuna.  Hún gekk alveg fast upp að mér og horfði með angurblíðu augnaráði á mig, mér fannst ég geta lesið út úr þess augnaráði óstöðvandi ástar þrá, ég lagði annan handlegginn utan um axlir hennar og ætlaði að lyfta blæjunni og sagði um leið, komdu til mín elskan, en þá vatt hún sér til þreif í handlegginn á mér og sagði. Æ láttu ekki svona.  En um leið vaknaði ég, því er nú ver og miður ég hefði haft gaman af því að sjá hvaða stúlka þetta væri.

     Getur þú ráðið þennan draum.  Já ég hélt það væri fljót gert að ráða drauminn þann arna.

     Fyrsta súlan eða öllu heldur súlan í vestri merkir þátíð, súlan í norðri virðist vera núþáleg en súlan í austri er vafalaust framtíðin og kannski hálft í hvoru nútíð líka.  En hver stúlkan var mun tíminn leiða í ljós líklega, fyrr en seinna.  Því hún mun vafalaust einhvertímann lyfta blæunni og líta framan í þig.

 

 

 

 


Konan í dalnum

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1876

 

KONAN Í DALNUM

 

 

     Langt inn í afdölum Íslands, þar sem stormarnir næða á dimmum skammdegis kvöldum, kaldi og miskunnarlausir lemja lágreista kofana utan, svo þeir skjálfa og hristast eins og strandað skip við sæbarða strönd.  Þar háðu baráttu mann fram af manni hraustlegt og þrautseigt fólk, við hungur og kulda og allslags óáran.  Móðir náttúra gaf þessu fólki lítið í aðra hönd, vorið kom seint en veturinn snemma.  Sumarið var svo stutt að fólkið hafði ekki tíma til að búa sig undir veturinn, harðan og langan.  Stundum kom ís sem fyllti alla firði fyrir norðan og austan land fyrri part vetrar, en kvaddi svo ekki að fullu og öllu fyrr en um Jónsmessu leitið, þá var oft búpeningur hinna fátæku bænda fallin að mestu eða öllu, eina lífsbjörgin sem þeir gátu byggt framtíð sína og fjölskyldu sinnar á, börnin grétu af hungri og mæðurnar gengu eirðarlausar fram og aftur um lágreistan moldarbæ leitandi að gömlum mygluðum brauðmolum til þess að seðja hungur barna sinna því hungur dauður búpeningur hrekkur skammt til viður­væris aðeins sinar og bein, stundum var skinnið bakað yfir eldi uns það var orðið stökkt og síðan borðað af svöngum munnum, stundum var engin eldiviður til, bognir og þreytulegir feður og sinaberar mæður reyndu að rífa hrísinn upp úr fönn­inni til þess að gefa börnunum il.

     Saga þessa fólks var ekki skrifuð með bleki á hvítan pappír, ekki krotað með blóði á skinn eða skorinn út í tré, þeirra spor eru tínd því gleymt er hvert gengið spor.  Aðeins ómar hins liðna birtist í hillingum, þegar óljósar sagnir sem geymst hafa árum saman, kannski tugum kannski öldum, á vörum eru rifjaðar upp í háreistum nýtísku húsum, sem bjóða komu mann velkominn og vefja hann il og ljósi.

    Á norðurlandi fremst fram í afdal bjuggu miðaldra hjón þau áttu lítið bú lélega jörð en hóp af börnum.  Bóndinn var hár og þrekinn, karlmenni af burðum og talinn einhver vaskasti maður sveitarinnar, en af konunni fór frekar lítið orð.  Bóndinn var vanur ferðamaður og þekktur að því að leggja af stað í illfæru veðri í kaupstaðarferðir, þegar engin annar treysti sér.  Til kaupstaðarins var langur vegur og yfir slæman fjall veg að fara sem var átta klukkustundar gangur í góðu færi til næsta bæjar og þaðan fjögra tíma gangur til kaupstaðarins.

    Þegar þessi saga gerðist hafði verið vonsku veður svo vikum skipti svo varla var hundi út sigandi.  Bóndinn þurfti nauðsynlega í kaupstaðinn fyrir jólin, en hafði ekki komist vegna veðurs.

     Það var ekki fyrr en á Þorláksmessumorgunn að rofaði til, en var þó engan vegin gott veður.  Bóndinn ákvað samt að freista gæfunnar og leggja yfir fjöllin til kaupstaðarins þó tvísýnt væri, því lítið var til að borða í kotinu.  Hann lagði á stað snemma um morguninn, kvaddi konu sína og sagðist koma heim á aðfangadagskvöld ef Guð lofaði, hún bað hann þess síðust orða að láta það ekki bregðast, því annars yrði lítið til í hátíðarmat.  Bóndanum gekk vel yfir fjöllin þó færið væri erfitt, eftir tólf tíma göngu kom hann að bænum hinu­megin, fékk þar mat og hvíldi sig lítið eitt og hélt svo til kaupstaðarins um kvöldið.

     Morguninn eftir lagði bóndinn á stað aftur frá kaup­staðnum hlaðinn bögglum á bak og fyrir, honum sóttist ferðin heldur seint, byrðin var þung og veðrið alltaf að versna þegar líða tók á morguninn skall á norðvestan iðulaus stór­hríð.  Bóndinn komst með illum leik að bænum undir fjallinu þreyttur og hrakinn, þó var það versta eftir, stormurinn hafði þó verið á hlið fram að þessu, en yfir fjallið var hann beint í fangið og leiðin vandrötuð og hættuleg, klettar og gljúfur víða á leiðinni og jökulsprungur á tveimur stöðum, sá sem villtist á þessari leið þurfti ekki á því að halda að spyrja til vegar í framtíðinni.

     Hann kvaddi dyra á bænum, bóndinn kom út og bauð hann velkominn og sagðist ekki hafa átt von á því að hann legði upp í þessu veðri frá kaupstaðnum, því líkt teldi hann óðsmanns æði.  En hinn sagðist þurfa að komast heim í kvöld ef nokkur leið væri, því konan sín væri ein heima með börnin.  Bóndinn af bænum starði út í hríðina og hristi dauflega höfuðið, það er svo fjarri lagi að láta sér detta slíkt í hug, því fyrir nokkru var orðið ófært veður og enn þá er hann að herða storminn, og svo er náttmyrkrið að skella á, þú mundir aldrei komast hálfa leið hvað þá alla, þér er best að vera hér í nótt og sjá til hvort morgundagurinn gefur betra veður.  Komumaður lagði þreytulega frá sér byrðina í bæjardyrunum, hann var þreytulegur á svipinn og vonleysið skein út úr augunum, honum varð hugsað heim til konunnar og barnanna, hvernig mundi þeim líða yfir jólin ef hann kæmist ekki heim, þau höfðu ekkert til að borða nema mjólkina úr kúnni og einn bóg af hangikjöti, því kornið var búið þegar hann fór að heiman.  Hvað mundi einn bógur segja handa tólf börnum, ekkert, rétt hæfilegur til að gera þau ennþá svengri.  Nei hann varð að komast heim hvað sem það kostaði.

     Hann gekk í bæinn á eftir húsbóndanum og þáði heita mjólk og brauð, hann hresstist nokkuð við það og hafði orð á því að sér væri best að halda á stað svo hann yrði komin heim fyrir morguninn.  En fólkið á bænum aftók með öllu að hann færi því veðrið var heldur að versna ef nokkuð var. 

     Bóndinn sagðist skyldi láta fylgja honum eitthvað áleiðis þegar veðrið batnaði en það kæmi ekki til mála að hann léti nokkurn mann fara úr sínum húsum út í annað eins veður og þetta, því það væri aðeins til þess að bjóða dauðanum heim.  Hann bauð komumanni rúm, svo hann gæti hvílt sig þangað til heilagar yrði og tekið þá þátt í jólagleðinni.  Komumaður lagði sig fyrir, þreytan verkaði á hann ein og áfengur drykkur og vaggaði honum inn í lönd draumanna.  En þeim sem reyndist gangan erfið í vöku, reyndist hún einnig erfið í svefni.  Komumaður bylti sér og lét illa hann dreymdi illa og sá allslags ofsjónir, honum fannst hann vera komin heim til sín hann gekk inn í borðstofuna þar sem börnin sátu í hnipri út í dimmustu hornunum, föl og gugginn og horfðu hungruðum augunum á hann, hann leysti af sér pokann og opnaði hann en þá brá honum heldur en ekki í brún, það var eintómt hey í pokanum.  Hann fór fram í eldhúsið til þess að leita að konunni sinni en hún var þar hvergi sjáanleg, þá greip hann einhver ein­kennilegur kvíði og hann spurði börnin hvar móðir þeirra væri, þau sögðu að hún hefði farið upp á jökulinn til þess að tína sóleyjar sem þar væru ný útsprungnar, þá gekk hann út á hlaðið og horfði til fjallanna, aldrei þessu vant sá hann jökulinn greinilega, upp á há bungu sá hann konuna sína sitja í miðri stórri sóleyjarbreiðu og börnin allt í kringum hann ljómandi af fögnuði rjóð og sælleg, hann hrökk upp við þessa draumsýn.

     Bóndinn stóð við rúmið hjá honum og sagði að jólamaturinn væri til búinn, það var sest undir borð og bóndinn hóf lestur jólaguðspjallsins.  Hann var ekki nema hálfnaður þegar guða var á gluggann, hann lagði frá sér biblíuna og gekk til dyra, hann opnaði dyrnar og hleypti komumanni inn sem leit út eins og illalagaður snjóstrangi.  Bóndinn hrökk ósjálfrátt aftur á bak þegar komumaður heilsaði og hann heyrði að það var kven­maður.  Hvaðan í ósköpunum kemur þú frá í þessu veðri sagði bóndinn við stúlkuna, ég kem frá bænum hinu megin við fjöllin og er að leita að bónda mínum ég vona að hann sé hér staddur svaraði stúlkan, já bóndinn hvað svo vera, en taldi ráðlegast að þau gistu og færu um morguninn ef veður skánaði.  En stúlkan var á öðru máli hún sagðist fara strax aftur því börnin biðu ein heima og leiðin væri löng.  Hún vildi ekki fara úr og koma í baðstofu en þáði þó nokkrar góðgerðir fram í bæjardyr, maður hennar bjó sig í skyndi, þau skiptu á milli sín byrðinni og héldu svo á stað móti öskrandi hríðinni.

 

            Ferðin gekk seint snjórinn var djúpur og stormurinn þeytti stærðar snjóflygsum framan í þau án nokkurrar miskun­nar.  Þegar þau komu upp á fjallið harðnaði veðrið að miklum mun.  Stormurinn fleygði þeim flötum hvað eftir annað, þau máttu skríða langtímum saman til þess að geta haldið ferðinni áfram, þannig gekk það alla nóttina og langt fram á dag þau gengu á milli hörðustu bilana en skriðu á meðan þeir gengu yfir.

     Laust eftir hádegi á jóladaginn fór veðrið að lægja nokkuð, en þó gengu bilir á öðru hvoru, en ekki svo hvassir að þau gátu haldið ferðinni áfram án þess að skríða en færið var þungt snjórinn oftast í hné og klof.  Það var ekki fyrr en um átta um kvöldið að þau náðu loksins heim til sín, eftir tæplega tuttugu og átta klukkustunda ferðalag illa til reika.  Þegar þau komu til baðstofunnar sátu börnin í hrifningu kringum lítið tólgarkerti sem logaði þar á einum baðstofu­glugganum, þau hlupu öll á fætur og föðmuðu foreldra sína himinlifandi af gleði yfir því að sjá þau aftur heil á húfi.  Þið eruð sjálfsagt orðin sársoltinn blessuð börn sagði faðir­inn þreytulega þetta hafa sjálfsagt verið erfið jól fyrir ykkur eins og okkur.

     Elsta stúlkan leit á pabba sinn alvarleg og sagði: Nei við erum ekki svöng við eigum ennþá töluvert eftir af jóla­grautnum, en þið hljótið að vera orðin svöng eftir þetta erfiða ferðalag.  Jú við erum bæði þreytt og svöng, þú ættir að taka til handa okkur jólagrautinn á meðan við höfum fata­skipti.  Þau klæddu sig úr förunum sem voru bæði blaut og frosin og fóru í önnur þurr og hlý, þau voru dálítið kalin bæði á höndum og andliti en ekki samt hættulega.

     Dóttirin færði þeim jólagrautinn og þau borðuðu hann með bestu list, bóndinn hafði orð á því að sér þætti hann góður þessi grautur, hann sneri sér að konu sinni og spurði hana hvar hún hefði fengið kornið í grautinn og hvaða korn þetta væri, því hann sagðist ekki hafa vitað til þess að neitt hefði verið til þegar hann fór af stað og svona korn sagðist hann aldrei hafa smakkað.  Það er ekki von sagði konan að þú hafir smakkað þetta fyrr því það er alls ekki korn heldur söltuð taða af túninu, ég greip þetta örþrifaráð til þess að börnin þyrftu ekki að svelta á meðan ég færi á móti þér yfir fjöllin.  En ég sé það nú að það er óþarfi að svelta á meðan við höfum mjólk og töðu.


Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband