GAMBRAVÍKUR JÓN

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1976

 

GAMBRAVÍKUR JÓN

 

            Gambravíkur Jón gekk niður eftir aðalgötunni í Gambravík með byssu reidda um öxl, hann var að fara á sjóinn.  Það var ekki hægt að segja að Jóni miðaði vel áfram, sem varla var von, því hann var haltur á hægri fæti og átti heldur erfitt um gang.  Hann var oft búinn að sjá eftir því að hann skyldi stökkva fram af húsinu forðum daga þegar hann var ungur.  Já það var nú ljóta óhappið.

            Svoleiðis var mál með vexti að þegar Jón var ungur var hann á gangi einn dag með félögum sínum niður í fjörunni, þeir gengu fram hjá fiskhjalli sem var um fjórir metrar á hæð, öðrumegin við hjallinn var dálítill skafl, einn strákurinn hafði orð á því að það mundi engin þeirra félaga þor að fara upp á skúrinn og stökkva niður í skaflinn.  Jón hélt að það væri ekki mikill vandi að stökkva niður af hjallinum þeim arna ef eitthvað væri í boði, en hann sagðist ekki sjá ástæðu til þess að gera það ekki fyrri neitt.

            Það varð að samkomulagi að Jón stykki niður af hjallinum morguninn eftir klukkan níu, félagar hans ætluðu að auglýsa skemmtun þessa vel um allt þorpið og aðgangur átti að vera einn þorskhaus eða eitthvað annað sem hefði álíka mikið verðgildi.  Morguninn eftir klukkan níu var kominn mikill fjöldi niður að hjallinum og allir greiddu aðgangseyri möglunarlaust, það var komin álitlegur stafli af þorskhausum og ýmsu öðru fleiru, allt upp í laglegustu vettlinga.  Gambravíkur Jóni leist vel á þennan fjársjóð sem beið hans þarna á götunni.  Hann snaraðist upp á hjallinn og gekk eftir mæninum virðulegur og ákveðinn og stökk fram af.

            Honum fannst innyflin lyftast upp í munn, hann kenndi mikils sársauka í hægra lærinu þegar hann kom niður, svo mikils sársauka að hann valt útaf, hann hljóðaði og nuddaði lærið, það var brotið, í örvæntingu sinni leit hann á fólkið, einn kunningi hans gekk til hans, þú hefðir átt að gera þetta í gær sagði hann ósköp rólegur.  Jón leit í kringum sig.  Nú skildi hann hvernig í öllu lá, það hafði hlánað um nóttina og skaflinn var farinn.

            Gambravíkur Jón ýtti frá landi og reri út á miðin.  Hann kastaði færinu út og byrjaði að skaka í djöfli, eins og það var kallað á sjómanna máli.  En það var sama hvernig Jón skók hann varð ekki var, hann færði sig til en allt kom fyrir ekki.

            Það var farið að líða á kvöldið þegar Jón dró færið inn fyrir full og allt og réri til lands, á leiðinni í land sá hann æðarkollu sem vaggaði sér á öldnum í mestu rólegheitum örugg og lífsglöð, rétt eins og hún væri búinn að mæla sér mót með einhverjum myndarlegum blika sem myndi koma á hverri stundu.  Gambravíkur Jón damlaði hægt og rólega í áttina til kollunnar þangað til honum fannst færið orðið hæfilegt, þá lyfti hann byssunni, miðaði vandlega og skaut ----- kollunni skelk í bringu.

 

 

               

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband