Konan í dalnum

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1876

 

KONAN Í DALNUM

 

 

     Langt inn í afdölum Íslands, þar sem stormarnir næða á dimmum skammdegis kvöldum, kaldi og miskunnarlausir lemja lágreista kofana utan, svo þeir skjálfa og hristast eins og strandað skip við sæbarða strönd.  Þar háðu baráttu mann fram af manni hraustlegt og þrautseigt fólk, við hungur og kulda og allslags óáran.  Móðir náttúra gaf þessu fólki lítið í aðra hönd, vorið kom seint en veturinn snemma.  Sumarið var svo stutt að fólkið hafði ekki tíma til að búa sig undir veturinn, harðan og langan.  Stundum kom ís sem fyllti alla firði fyrir norðan og austan land fyrri part vetrar, en kvaddi svo ekki að fullu og öllu fyrr en um Jónsmessu leitið, þá var oft búpeningur hinna fátæku bænda fallin að mestu eða öllu, eina lífsbjörgin sem þeir gátu byggt framtíð sína og fjölskyldu sinnar á, börnin grétu af hungri og mæðurnar gengu eirðarlausar fram og aftur um lágreistan moldarbæ leitandi að gömlum mygluðum brauðmolum til þess að seðja hungur barna sinna því hungur dauður búpeningur hrekkur skammt til viður­væris aðeins sinar og bein, stundum var skinnið bakað yfir eldi uns það var orðið stökkt og síðan borðað af svöngum munnum, stundum var engin eldiviður til, bognir og þreytulegir feður og sinaberar mæður reyndu að rífa hrísinn upp úr fönn­inni til þess að gefa börnunum il.

     Saga þessa fólks var ekki skrifuð með bleki á hvítan pappír, ekki krotað með blóði á skinn eða skorinn út í tré, þeirra spor eru tínd því gleymt er hvert gengið spor.  Aðeins ómar hins liðna birtist í hillingum, þegar óljósar sagnir sem geymst hafa árum saman, kannski tugum kannski öldum, á vörum eru rifjaðar upp í háreistum nýtísku húsum, sem bjóða komu mann velkominn og vefja hann il og ljósi.

    Á norðurlandi fremst fram í afdal bjuggu miðaldra hjón þau áttu lítið bú lélega jörð en hóp af börnum.  Bóndinn var hár og þrekinn, karlmenni af burðum og talinn einhver vaskasti maður sveitarinnar, en af konunni fór frekar lítið orð.  Bóndinn var vanur ferðamaður og þekktur að því að leggja af stað í illfæru veðri í kaupstaðarferðir, þegar engin annar treysti sér.  Til kaupstaðarins var langur vegur og yfir slæman fjall veg að fara sem var átta klukkustundar gangur í góðu færi til næsta bæjar og þaðan fjögra tíma gangur til kaupstaðarins.

    Þegar þessi saga gerðist hafði verið vonsku veður svo vikum skipti svo varla var hundi út sigandi.  Bóndinn þurfti nauðsynlega í kaupstaðinn fyrir jólin, en hafði ekki komist vegna veðurs.

     Það var ekki fyrr en á Þorláksmessumorgunn að rofaði til, en var þó engan vegin gott veður.  Bóndinn ákvað samt að freista gæfunnar og leggja yfir fjöllin til kaupstaðarins þó tvísýnt væri, því lítið var til að borða í kotinu.  Hann lagði á stað snemma um morguninn, kvaddi konu sína og sagðist koma heim á aðfangadagskvöld ef Guð lofaði, hún bað hann þess síðust orða að láta það ekki bregðast, því annars yrði lítið til í hátíðarmat.  Bóndanum gekk vel yfir fjöllin þó færið væri erfitt, eftir tólf tíma göngu kom hann að bænum hinu­megin, fékk þar mat og hvíldi sig lítið eitt og hélt svo til kaupstaðarins um kvöldið.

     Morguninn eftir lagði bóndinn á stað aftur frá kaup­staðnum hlaðinn bögglum á bak og fyrir, honum sóttist ferðin heldur seint, byrðin var þung og veðrið alltaf að versna þegar líða tók á morguninn skall á norðvestan iðulaus stór­hríð.  Bóndinn komst með illum leik að bænum undir fjallinu þreyttur og hrakinn, þó var það versta eftir, stormurinn hafði þó verið á hlið fram að þessu, en yfir fjallið var hann beint í fangið og leiðin vandrötuð og hættuleg, klettar og gljúfur víða á leiðinni og jökulsprungur á tveimur stöðum, sá sem villtist á þessari leið þurfti ekki á því að halda að spyrja til vegar í framtíðinni.

     Hann kvaddi dyra á bænum, bóndinn kom út og bauð hann velkominn og sagðist ekki hafa átt von á því að hann legði upp í þessu veðri frá kaupstaðnum, því líkt teldi hann óðsmanns æði.  En hinn sagðist þurfa að komast heim í kvöld ef nokkur leið væri, því konan sín væri ein heima með börnin.  Bóndinn af bænum starði út í hríðina og hristi dauflega höfuðið, það er svo fjarri lagi að láta sér detta slíkt í hug, því fyrir nokkru var orðið ófært veður og enn þá er hann að herða storminn, og svo er náttmyrkrið að skella á, þú mundir aldrei komast hálfa leið hvað þá alla, þér er best að vera hér í nótt og sjá til hvort morgundagurinn gefur betra veður.  Komumaður lagði þreytulega frá sér byrðina í bæjardyrunum, hann var þreytulegur á svipinn og vonleysið skein út úr augunum, honum varð hugsað heim til konunnar og barnanna, hvernig mundi þeim líða yfir jólin ef hann kæmist ekki heim, þau höfðu ekkert til að borða nema mjólkina úr kúnni og einn bóg af hangikjöti, því kornið var búið þegar hann fór að heiman.  Hvað mundi einn bógur segja handa tólf börnum, ekkert, rétt hæfilegur til að gera þau ennþá svengri.  Nei hann varð að komast heim hvað sem það kostaði.

     Hann gekk í bæinn á eftir húsbóndanum og þáði heita mjólk og brauð, hann hresstist nokkuð við það og hafði orð á því að sér væri best að halda á stað svo hann yrði komin heim fyrir morguninn.  En fólkið á bænum aftók með öllu að hann færi því veðrið var heldur að versna ef nokkuð var. 

     Bóndinn sagðist skyldi láta fylgja honum eitthvað áleiðis þegar veðrið batnaði en það kæmi ekki til mála að hann léti nokkurn mann fara úr sínum húsum út í annað eins veður og þetta, því það væri aðeins til þess að bjóða dauðanum heim.  Hann bauð komumanni rúm, svo hann gæti hvílt sig þangað til heilagar yrði og tekið þá þátt í jólagleðinni.  Komumaður lagði sig fyrir, þreytan verkaði á hann ein og áfengur drykkur og vaggaði honum inn í lönd draumanna.  En þeim sem reyndist gangan erfið í vöku, reyndist hún einnig erfið í svefni.  Komumaður bylti sér og lét illa hann dreymdi illa og sá allslags ofsjónir, honum fannst hann vera komin heim til sín hann gekk inn í borðstofuna þar sem börnin sátu í hnipri út í dimmustu hornunum, föl og gugginn og horfðu hungruðum augunum á hann, hann leysti af sér pokann og opnaði hann en þá brá honum heldur en ekki í brún, það var eintómt hey í pokanum.  Hann fór fram í eldhúsið til þess að leita að konunni sinni en hún var þar hvergi sjáanleg, þá greip hann einhver ein­kennilegur kvíði og hann spurði börnin hvar móðir þeirra væri, þau sögðu að hún hefði farið upp á jökulinn til þess að tína sóleyjar sem þar væru ný útsprungnar, þá gekk hann út á hlaðið og horfði til fjallanna, aldrei þessu vant sá hann jökulinn greinilega, upp á há bungu sá hann konuna sína sitja í miðri stórri sóleyjarbreiðu og börnin allt í kringum hann ljómandi af fögnuði rjóð og sælleg, hann hrökk upp við þessa draumsýn.

     Bóndinn stóð við rúmið hjá honum og sagði að jólamaturinn væri til búinn, það var sest undir borð og bóndinn hóf lestur jólaguðspjallsins.  Hann var ekki nema hálfnaður þegar guða var á gluggann, hann lagði frá sér biblíuna og gekk til dyra, hann opnaði dyrnar og hleypti komumanni inn sem leit út eins og illalagaður snjóstrangi.  Bóndinn hrökk ósjálfrátt aftur á bak þegar komumaður heilsaði og hann heyrði að það var kven­maður.  Hvaðan í ósköpunum kemur þú frá í þessu veðri sagði bóndinn við stúlkuna, ég kem frá bænum hinu megin við fjöllin og er að leita að bónda mínum ég vona að hann sé hér staddur svaraði stúlkan, já bóndinn hvað svo vera, en taldi ráðlegast að þau gistu og færu um morguninn ef veður skánaði.  En stúlkan var á öðru máli hún sagðist fara strax aftur því börnin biðu ein heima og leiðin væri löng.  Hún vildi ekki fara úr og koma í baðstofu en þáði þó nokkrar góðgerðir fram í bæjardyr, maður hennar bjó sig í skyndi, þau skiptu á milli sín byrðinni og héldu svo á stað móti öskrandi hríðinni.

 

            Ferðin gekk seint snjórinn var djúpur og stormurinn þeytti stærðar snjóflygsum framan í þau án nokkurrar miskun­nar.  Þegar þau komu upp á fjallið harðnaði veðrið að miklum mun.  Stormurinn fleygði þeim flötum hvað eftir annað, þau máttu skríða langtímum saman til þess að geta haldið ferðinni áfram, þannig gekk það alla nóttina og langt fram á dag þau gengu á milli hörðustu bilana en skriðu á meðan þeir gengu yfir.

     Laust eftir hádegi á jóladaginn fór veðrið að lægja nokkuð, en þó gengu bilir á öðru hvoru, en ekki svo hvassir að þau gátu haldið ferðinni áfram án þess að skríða en færið var þungt snjórinn oftast í hné og klof.  Það var ekki fyrr en um átta um kvöldið að þau náðu loksins heim til sín, eftir tæplega tuttugu og átta klukkustunda ferðalag illa til reika.  Þegar þau komu til baðstofunnar sátu börnin í hrifningu kringum lítið tólgarkerti sem logaði þar á einum baðstofu­glugganum, þau hlupu öll á fætur og föðmuðu foreldra sína himinlifandi af gleði yfir því að sjá þau aftur heil á húfi.  Þið eruð sjálfsagt orðin sársoltinn blessuð börn sagði faðir­inn þreytulega þetta hafa sjálfsagt verið erfið jól fyrir ykkur eins og okkur.

     Elsta stúlkan leit á pabba sinn alvarleg og sagði: Nei við erum ekki svöng við eigum ennþá töluvert eftir af jóla­grautnum, en þið hljótið að vera orðin svöng eftir þetta erfiða ferðalag.  Jú við erum bæði þreytt og svöng, þú ættir að taka til handa okkur jólagrautinn á meðan við höfum fata­skipti.  Þau klæddu sig úr förunum sem voru bæði blaut og frosin og fóru í önnur þurr og hlý, þau voru dálítið kalin bæði á höndum og andliti en ekki samt hættulega.

     Dóttirin færði þeim jólagrautinn og þau borðuðu hann með bestu list, bóndinn hafði orð á því að sér þætti hann góður þessi grautur, hann sneri sér að konu sinni og spurði hana hvar hún hefði fengið kornið í grautinn og hvaða korn þetta væri, því hann sagðist ekki hafa vitað til þess að neitt hefði verið til þegar hann fór af stað og svona korn sagðist hann aldrei hafa smakkað.  Það er ekki von sagði konan að þú hafir smakkað þetta fyrr því það er alls ekki korn heldur söltuð taða af túninu, ég greip þetta örþrifaráð til þess að börnin þyrftu ekki að svelta á meðan ég færi á móti þér yfir fjöllin.  En ég sé það nú að það er óþarfi að svelta á meðan við höfum mjólk og töðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband