Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

37. Ljóð Minning

 Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1976

MINNING

 

Um vorloftið tónarnir titra

og túlka mín fegurstu ljóð,

um allt sem ég elska og þrái,

um ungmey sem var mér svo góð.

Þeir líða svo léttir og mjúkir

með ljósvakans hrynjandi brag,

og minna mig ávallt á atvik,

sem alls ekki skeði í dag.

 

Eitt sinn ég yndismey hitti,

sem oft hafði hjarta mitt seitt.

Hún vafði mig ástríkum örmum

svo indælt og kyssti mig heitt.

Draumanna dýrustu veigar

við drukkum á þessari stund,

loftið var vorangan vafið

og vonin um endurfund.

 


36, Ljóð Lóu Ljóð

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1976 

LÓU  LJÓÐ

 

Við kveðum um lóunnar ljóðin

en látum þær syngja óðinn

þó mishátt sé gengið og gróðinn

er gatan í sömu átt.

Kvöldhúmið stígur hljóðan dans

hörpuna blærinn slær

þær ferðast í líki freistarans

þó feti nær vaknar þú litli lóuþræll

og leitar í hverjum mó

en tilvera þín er tjörn í lágum skó

þær gefa þér allt sem þær eiga

oftast nær fleira en þær mega.

Já lóan er fim þessi fleyga

þó flugið sé stundum lágt.


5. Mánuðir

Jæja nú er ég búinn að vera reyklaus í 5 mánuði og feginn að hafa loksins látið verða af því að hætta.W00t

Að hætta eftir fjörtíu ár er kannski ekki svo mikið afrek, en mér finnst það nú samt.Whistling

Ég er ánægðari með lífi, finn meira bragð af matnum, finn lykt sem ég hélt að væri bara ekki til.Happy

Það eru ýmsir kostir við þetta reykleysi, ekki bara sparnaður á peningum eða betri heilsa, heldur allt hitt, lyktin, bragðið og annað sem maður tók ekki eftir vegna reyks.Halo


35. Ljóð Litla ljóðið

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1976 

LITLA LJÓÐIÐ

 

Hver er það sem kyndir lífsins bál?

Hver er það sem skilur fugla mál?

Hver er það sem kreppir þreytta hönd?

Hver var það sem bjó til okkar lönd?

 

Hver var það sem hafði tíu tær

og til hvers átti hún að nota þær?

Hver var það sem geymdi grautinn sinn

uns gamli Jökull kom í bæinn inn?

 

Hver var það sem kom oft blautur inn?

Hver var það sem bjó til himininn?

Hver var það sem hvíldi lúin bein

og kodda fyrri hafði lítinn stein?

 

Hver var það sem kom inn stundum þyrst?

Hver hafði alltaf góða matarlist?

Hver var það sem brúðurúm um bjó

og bjó til margar kerlingar úr snjó?

 

Hver var það sem kveikti nýja glóð?

Hver var það sem forarpolla óð?

Hver var það sem orti ævintýr

um ótal hross og mikið fleiri kýr?

 

Hver var það sem kom svo oft til mín?

Hver var það sem beit í gullin sín?

Hver var það sem kunni á hestum tak

en komst þó aldrei hjálparlaust á bak?

 

Hver var það sem valt af vondum klár

og var þá stundum bæði reið og sár?

Kom þá inn og kvartaði við mig

og karlinn bað að hugga og passa sig.

 

Hver var það sem kom í háttinn seint?

Hver er það sem engu getur leynt?

Hver var það sem lék við lömbin sín

og litlum höndum strauk um augu mín?

 

Hver var það sem út um engi og tún

alltaf hljóp svo létt og hýr á brún?

Hver var það sem fuglahreiður fann

og flýtti sér að hitta næsta mann?

 

Hver var það sem kom með falleg blóm?

Hver var það er söng með þýðum róm?

Hver var það sem kyssti þreyttan mann?

Hver hefur stundum raulað fyrir hann?

 

Hver er það sem kyssir aldrei meir?

Hver mun ver til sem ekki deyr?

Hver á valdið - veginn - okkar land?

Hver velur okkur lífsins talnaband?

 

Hver var það sem kvaddi allof fljótt

en kemur oft og býður góða nótt?

Hver er nú hjá læk við litla tjörn

að leika sér við falleg engla börn?

 


34. Ljóð Laugarvatn

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

LAUGARVATN

 

Er Laugarvatn ég leit í fyrsta sinni,

ég las í svip þess horfna æfi braut.

Sá dagur aldrei líður mér úr minni,

hin mikla fegurð - tign, sem augað naut.

Þar leit ég starf og styrkleik djarfra manna

sem stefna hátt og seinna marki ná,

og þar mátti lesa helgi hugsjónanna

sem hærri sköpum eru runni frá.

 

Birkitré sig breiða um dalsins hlíðar,

blómin fögur anga í hverjum lund.

Mót sólu heitar laugar brosa blíðar

og bjóða hennar geislum á sinn fund.

Í töfra litum vatnsins bárur blika

og bylta sér í leik við hlýjan þey,

stundum upp á land sig lipurt fikra

létta eins og fjörug yngismey.

 

Laugarvatn við lofum alla daga

sem lífsins undir búning fengum þar,

þess mun lengi geymast gömul saga,

það göfga merki sem þar letrað var,

og seinna er við stillum hörpu strenginn

að stefna á ný í ljúfan fjalla sal

á lífsins dögum eflaust gleymir enginn,

sem andans þroska fékk í Laugardal.

 


kl: 18.44

í kvöld birtist frétt um að búið væri að ákæra Lindsey Lohan og kl: 2.58 birtist frétt um að hún sé búinn að semja um dóminn.

Kl: 16.46 birtist frétt um vinnuslys á Akureyri en núna rétti fyrir kl: 1 að nóttu hefur ekki en komið fram hvort maðurinn (konan) væri illa slösuð.

Það er ekki sama hve frægur maður er.Frown


mbl.is Linsey Lohan semur um einn dag í fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

33. Ljóð Kvöld

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

KVÖLD

 

Nú sötra ég vatn með sykri í,

sitjandi einn í leti heima.

Læt mig ekki um lífið dreyma,

löngu búinn að gleyma því.

En stjörnurnar himni stara frá

og storka mér til að koma og sjá.

 

Inni mér ekki er lengur líft,

ég labba út og horfi á þetta undur,

það er eins og geimurinn greiðist í sundur

og gefi auganu meiri dýpt.

Því - lík fegurð að finna til

og faðma brosandi stjörnu hyl.

 

Drauma nú aftur dreymir mig,

drunginn er horfinn, og frostrósir glansa,

því norðurljós eru nú að dansa

á nöktum himni og beygja sig

í litbrigðum mörgum, og lýsa upp jörð,

svo ljóma steinar og mela börð.

 

Það er eins og gígur guðdómsins

glaðlega tóna um heiminn sendi,

stígandi og fallandi valsinum vendi,

vegmóðum lyfti til æðra skyns.

Líkt og dásamleg drauma stund

dulheims spekinnar leiði fund.

 

Mikil undur er alheims gerð

og örlaga þræðir, sem veröldin spinnir.

Allt sem hrærist, ákveðið vinnur

endalaust starf á sömu ferð.

Samstöðu skapar sér hver eind

og saman tengdist af djúpri leynd.

 


32. Ljóð Kveðja

 

 Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976

KVEÐJA

 

Þjóðin grætur þungu höggi slegin

í þrotlausri leit að tveimur hraustum mönnum,

sem brutust móti dimmum hríðar hrönnum,

hræddust ekkert, sóttu áfram veginn.

Sjúkum vilja sumir reyna að bjarga

og setja eigið líf og heilsu að veði,

þótt frá heljarstormsins sterka beði

stálhönd dauðans slegið hafi marga.

 

Skarðið er stórt, þá strengurinn er brostinn,

því stærra sem meiri hetjur falla í valinn.

Þeir flugu áður yfir fjallasalinn

sem frelsandi englar.  Við sitjum harmi lostin

og biðjum um vægð þann æðsta mátt af öllum,

svo endurheimt við fáum okkar bræður.

Við biðjum hann, sem aleinn öllu ræður,

auðmjúk í heitri bæn á kné við föllum.

 

Bænir okkar berast hratt um geiminn,

en brostnar vonir hjúpa naktar sálir,

því víða eru vegir nokkuð hálir

og vegleysur á leið okkar um heiminn.

Við vitum ekki hverjum á að kenna,

né hver það er, sem sporin okkur marka,

en finnst það vera furðu mikil harka

að finna lífið út í sandinn renna.

 

Máttlaus hönd á móti æðri völdum

megnar ekki að hrinda skapadómi.

Þessir menn, sem voru þjóðar sómi

og þeystu himins vegi á loftsins öldum,

voru burtu dæmdir til að deyja,

þá dagurinn reis hæst í þeirra lífi.

Þótt sá sterki ekki okkur hlífi,

við áfram skulum saman stríðið heyja.

 

Einhvern tíma kemur þýður þerrir

og þurrkar burtu tárin, sem við grétum.

Við hetju starfið alltaf mikils metum

og minnumst ykkar, Höskuldur og Sverrir.

Karlmennsku og kjark fær ekkert bundið,

kannski fer að rofa af nýjum degi.

Nú fljúgið þið um fagra ljóssins vegi,

við flytjum ykkur kveðju yfir sundið.

 


Næsta síða »

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband