Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Lífsreynslusaga stúlku

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1976

 

LÍFSREYNSLUSAGA STÚLKU

 

 

 

            Ég er alin upp í litlu þorpi úti á landi, þar sem allir þekkja alla og engin gerir neitt, án þess að aðrir þorpsbúar viti það, nærri að segja um leið og það hefur gerst.

            Foreldrar mínir, voru starfsöm og heiðarleg hjón sem máttu ekki vamm sitt vita í neinu og gerðu ekki neitt, nema að vel athuguðu og yfirveguðu máli.

            Heiðarleiki og sannsögli voru þær tvær höfuð dyggðir, sem mér var kennt að virða framar öllu öðru.

            Þegar ég var fimmtán ára, fluttust í þorpið til okkar hjón og með þeim sonur þeirra, sem var á líku reki og ég, aðeins eldri í árinu.  Þessi unglings piltur var mjög laglegur og viðfeldinn og vel gefinn, hann fékk strax gott orð á sig og var talinn einhver efnilegasti pilturinn þar um slóðir.

            Í fyrsta skipti sem ég sá hann varð ég mjög hrifinn af honum, hann virtist einnig taka eftir mér og veita mér meiri athygli heldur en öðrum ungum stúlkum, þó vorum við svo feimin hvort við annað, að þegar við hittumst þorðum við ekki að tala saman, heldur roðnuðum og fórum hjá okkur.  Þannig gekk þetta nokkuð lengi, ég kvaldist af þrá og eftirvæntingu, en ekkert skeði sem færði okkur nær hvort öðru.  Svo var það eitt laugardagskvöld, seinni part sumarsins að ég fór á ungmennafélags fund, þar sem allt ungt fólk í þorpinu var saman komið, einnig hann.

            Fyrst voru rædd málefni félagsins, síðan drukkið kaffi og dansað fram yfir miðnætti.  Hann dansaði við mig nokkrum sinnum þetta kvöld, en þó lítið meira er aðrar stúlkur, því það var siður hjá okkur þá að herrarnir dönsuðu við allar dömurnar sem á samkomunni voru, en ekki nema einn dans hverja í einu, þá þótti ókurteisi það sem nú er talin sjálfsagður hlutur, að herrarnir dansi við sömu dömuna mest alla eða alla nóttina.

            Þegar dansinn hætti var kominn úrhellis rigning og töluvert hvassvirði, göturnar urðu blautar og forugar því ofaníburður var takmarkaður.  Aurinn af götunni barst fljótt upp á tröppur samkomuhússins, sem voru úr timbri, svo þær urðu blautar og sleipar, þegar ég var komin út tók ég eftir því að ég hafði gleymt að taka slæðuna mína, svo ég mátti snúa við og fara inn aftur, en þegar ég var að fara upp tröppurnar varð mér fótaskortur, missti jafnvægið og datt aftur yfir mig, en áður en ég kom niður var ég gripin af sterkum höndum sem stöðvuðu mig og héldu mér á lofti.  Ég fann það frekar en sá að það var hann sem hélt utan um mig, heitir sælu straumar liðu um mig alla og fylltu mig feimni og fögnuði.

            Ég lá í örmum hans nokkur augnablik, því þessi hræðslu kennd unaðar sem um mig fór gerði mig lamaða og varnaði mér að aðhafast nokkuð.

            Ég kom aftur til sjálfrar mín þegar hann spurði mig að því hvort ég hefði meitt mig, ég skammaðist mín dálítið og sagðist aðeins hafa orðið hrædd.  Þá spurði hann mig að því hvort hann ætti ekki að fylgja mér heim, því það væri bæði dimmt og sleipar göturnar, svo það væri alveg eins víst að ég tæki upp á því að detta aftur, en þá væri betra að hafa einhvern til þess að styðja sig við, því næst tók hann undir höndina á mér og við héldum af stað, en slæðan varð eftir.

            Þegar við vorum komin frá samkomuhúsinu og fólkinu, brast kjarkurinn eins og venjulega og við þorðum ekki að segja eitt einasta orð alla leiðina heim.  En þegar við komum inn í forstofuna rétti hann mér höndina, þakkaði mér fyrir kvöldið og sagðist vona að við ættum eftir að skemmta okkur saman fljótlega aftur.

            Við stóðum þarna eins og fábjánar svolitla stund og héldumst í hendur eins og við vildum ekki sleppa hvort öðru, hann færði sig aðeins nær mér svo ég fann heitan andadrátt hans á vanga mínum, næst veit ég ekki vel hvað gerðist, því ég áttaði mig ekki fullkomlega fyrr en við vorum farin að faðmast og kyssast, en hvort okkar hefur stigið fyrsta skrefið veit ég ekki enn í dag.  Ekki veit ég heldur hvað við vorum þarna lengi, því allt rann saman í sælukenndaviðkvæmni augnabliksins, tíminn hvarf og við skynjuðum aðeins hvort annað.

            Áður en við skildum þessa nótt hétum við hvort öðru ævilangri tryggð og að við skyldum standa við hlið hvors annars í blíðu og stríðu, því okkur fannst ekkert geta aðskilið okkur framar, ekki einu sinni dauðinn.

            Sumarið leið, eins og ljúfur draumur.  Við vorum saman öllum stundum þegar við gátum komið því við, en aðhöfðumst ekkert sem braut í bága við það siðferðislögmál sem mér var kennt að virða og fara eftir, tvisvar lá þó við að við gengum of langt, en ég var þó nógu viljasterk til þess að láta ekki undan, jafnvel þó ég hefði varla vald yfir mínum eigin tilfinningum.

            Um haustið fór unnusti minn til Akureyrar og hóf nám við menntaskólann þar, en ég var eftir heima.  Hann skrifaði mér í hverri viku ástríðu þrungin ástarbréf, sem ég undi mér við að lesa aftur og aftur þangað til það næsta kom, það var líka það eina sem stytti mér stundir þennan langa kalda vetur.

            Um vorið þegar unnusti minn kom heim aftur var hann ennþá myndarlegri heldur en áður, mikið fullorðinslegri og frjálsmannlegri í allri framkomu, hamingju dagarnir hófust aftur og við nutum ástarinnar glöð og áhyggjulaus eins og áður.  En þetta vor fóru breyttir tímar í hönd, ógæfan mikla skall yfir landið eins og reiðarslag, plágan sem hvílir á þjóðinni eins og mara en þann dag í dag.

            Ísland var hernumið af Bretum, eftirspurn eftir vinnukrafti margfaldaðist, menn hurfu frá framleiðslustörfum þjóðarinnar í vinnu til setuliðsins, því þar fegnu þeir mest kaup fyrir minnst vinnu.

            Aldarandinn gjörbreyttist á örskömmum tíma, siðferðið riðlaðist og alt virtist hallast á ógæfuhlið í andlegum menningar málum.

            Unnust minn vann um sumarið hjá setuliðinu en fór um haustið aftur í skólann.

            Mér var boðin vist í Reykjavík, hjá háttsettum stjórnmálamanni fyrir gott kaup, því það var erfitt að fá stúlkur til innanhúsverka, þær vildu heldur vera frýjar og frjálsar og þéna pening á annan hátt, því eftirspurnin eftir vinnu krafti þeirra var síst minni en karlmanna.  Ekki voru foreldrar mínir hrifnir af þessum ráðahag, en þó varð endirinn sá að ég fór suður með því skilyrði að ég fengi að stund kvöldskóla þrjú kvöld í viku.

            Þegar suður kom blasti við mér ný veröld, hið framandi stórborgarlíf verkaði á mig eins og hitabylgja á gróður mold, einhver ný öfl vöknuðu innra með mér sem gerðu mig spennta og órólega.  Þó gekk allt slysalaust fram að jólum, því mér líkaði vel í vistinni og kynntist mörgu ungu fólki í skólanum, sérstaklega stúlkum.  Stundum kom það líka fyrir að ég fór með skólasystrum mínum á dansleik um helgar og skemmti mér þá ævinlega mjög vel.

            Svo var það á þriðja í jólum, að tvær skólasystur mínar hringdu til mín og báðu mig að kom með sér á dansleik um kvöldið.  Þær sögðust vera búnar að uppgvöta mjög skemmtilegan stað, sem við skyldum fara á, en ekki vildu þær segja mér hvað hann héti eða hvar hann væri, þær sögðu að ég myndi sjá það þegar þar að kæmi.  Ég féllst á að koma með þeim, með því móti að þær kæmu í bíl og tækju mig með, um nýju leitið.

            Þær komu eins og um var talað, klukkan nýju.  Ég steig upp í bílinn og hann ók okkur suður fyrir bæinn, eitthvað sem ég hafði aldrei komið áður, þar stoppaði hann og sagði að við værum komnar á leiðarenda.  Við borguðum bílinn og fórum út, en hann ók strax í burtu því miður, því annars hefði ég farið með honum til baka aftur þegar ég sá hvar við vorum staddar.

            Þegar ég litaðist um sá ég að við vorum staddar í hermanna hverfi, út úr einum bragganum, sem var stærstur af þeim öllum barst til okkar dynjandi dansmúsík.  Ég varð fjúkandi reið þegar ég sá hverskyns var og heimtaði að við færum strax til baka aftur.

            Stelpurnar sögðu að við gætum að minnsta kosti ekki staði hér, við yrðum að ná í síma og hans væri helst að leita þarna inni í bragganum sem dansmúsíkin kom frá.  Eftir nokkurt þras fór ég með þeim inn í braggann, við stönsuðum við dyrnar og virtum fyrir okkur samkomuna.  Þarna var margt af íslenskum stúlkum og breskum hermönnum, einnig sá ég nokkra íslenska stráka og virtust þeir vera nokkuð við skál, að minnsta kosti sumir af þeim.  Annars virtist allt fara vel fram þarna inni í fljótu bragði séð.

            Við stóðum þarna í hálfgerðum vandræðum því við vissum ekki hvert við ættum að snúa okkur, til þess að biðja um fyrirgreiðslu, þangað til ungur íslendingur kom til okkar og spurði mjög kurteislega hvað hann gæti fyrir okkur gert.  Ég varð fyrir svörum og sagði að við hefðum villst og okkur vantaði bíl til þess að geta komist heim.

            Hann sagðist skyldi athuga það, hvort ekki væri hægt að ná í bíl fyrir okkur, við skyldum tylla okkur við auða borðið í horninu á meðan við biðum.  Hann hjálpaði okkur að borðinu og fór svo burt, en eftir skamma stund kom hann aftur með glös og könnu með einhverjum dökkum vökva í, sem hann setti á borðið hjá okkur.

            Hann sagði að það væri ágætis kóladrykkur í könnunni, sem við skyldum dreypa á meðan við biðum, því það væri gott að hafa eitthvað sér til afþreyingar svo hellti hann í glösin hjá okkur, setti könnuna á borðið og sagði að við gætum fengið okkur meira ef okkur leiddist, því verið gæti að sér gengi illa að ná sambandi því það væri stöðugt verið að nota símann á þessum tíma.  Við spurðum hann að því hvað þetta kostaði, hann sagði að þetta kostaði ekki neitt, við skyldum bara reyna að nota okkur þetta eftir bestu föngum, svo fór hann frá borðinu og hvarf í mannfjöldann.

            Drykkurinn reyndist nokkuð beiskur en hreint ekki vondur, hann var kaldur og svalandi og mér fannst reglulega hressandi að drekka hann því loftið inni var heitt og mollulegt.  Við fengum okkur aftur í glösin og kláruðum úr þeim á stuttum tíma.  Eftir það fór mér að líða reglulega vel, ég gleymdi bílnum og fékk mér í þriðja glasið í viðbót.

            Þegar ég var búinn úr þriðja glasinu var ég orðinn eitthvað undarleg, ég sá allt í móðu og mér fannst gólfið vera farið að hallast.

            Svo komu hermenn til okkar og buðu okkur í dans, ég vildi ekki dansa, en hinar stelpurnar svifu út á gólfið.  Þá fór ég allt í einu að hlæja og hló þangað til tárin runnu niður kinnarnar á mér.  Ég hló ekki að neinu sérstöku mér bara fannst að ég þyrfti endilega að hlæja.

            Þegar ég var búin úr könnunni veifaði ég tómu glasinu og söng undir með hljómsveitinni, þá kom til mín hermaður með flösku í hendinni og fyllti hjá mér glasið, ég tók út úr því í einum teig og henti því svo í vegginn.  Mig logsveið í kverkarnar og ég fór að gráta.  Ég grét viðstöðulaust, það er það síðasta sem ég man.

            Þegar ég vaknaði morguninn eftir leið mér hroðalega, höfuðið var blý þungt, mig verkjaði í allan líkamann, kverkarnar þurrar og ég mundi ekkert, hvar ég hafði verið og vissi ekkert hvar ég var.  Ég var í skónum og sokkunum, kjóllinn var uppundir höndum að öðru leiti var ég nakin.

            Ég settist upp og leit í kringum mig, þeirri sjón sem við mér blasti gleymi ég aldrei á meðan ég lifi, eða þeim óhugnaði sem fór um mig, þegar ég áttaði mig á því hvar ég var og hvað hafði gerst.

            Í fyrstunni fékk ég svo mikið taugaáfall, að það leið yfir mig, þó rankaði ég við aftur, sennilega eftir stutta stund og brölti fram úr fletinu sem ég lá í.

            Ég var stödd í hermannabragga innan um fullt af hermönnum, þeir lágu í beddum og hjá sumum þeirra íslenskar stúlkur, þar á meðal sá ég eina skólasystur mína hún lá í fleti á gólfinu á milli tveggja hermanna, alsnakin og í miður huggulegum stellingum.

            Kápan mín veskið og lífstykkið ásamt fleiru lá á gólfinu hjá beddanum, ég tók kápuna og veskið en lét hitt eiga sig og forðaði mér út úr þessu andstyggilega spillingar bæli.  Eftir smávegis villur, komst ég á aðalveginn sem liggur inn í bæinn, þá var ég svo heppin að ná í leigubíl og hann ók mér heim, þegar þangað kom var klukkan á fyrripartinum í sex, ég sá það á klukku sem var í mælaborði bílsins.

            Þegar ég kom upp í herbergið mitt fór ég úr kápunni og kjólnum og setti þau á herðatré og hengdi þau inní skáp, svo er það síðasta sem ég man eftir er það að ég fór inn í baðherbergið og þvoði mér allri, því einhvern veginn fannst mér ég ekki getað háttað öðruvísi, svo man ég óljóst eftir því að ég var að klæða mig í náttfötin, en ekki þegar ég fór upp í rúmið.

            Næsta fjóra sólahringa var ég að mestu rænulaus og fór ekki á fætur fyrr en eftir hálfan mánuð.  Það er tilgangslaust að reyna að lýsa þeim þjáningum sem ég leið þennan tíma, bæði á sál og líkama.  Þær voru svo hræðilegar að yfir það ná engin orð.

            Fólkið sem ég var hjá spurði mig hvað hefði komið fyrir þessa nótt, því læknirinn sagði að ég hefði fengið alvarleg taugaáfall, þeirri spurningu neitaði ég að svara því ég var ákveðin í að segja engum frá þeirri svívirðingu sem ég hafði orðið fyrir, þó mér fyndist lífið lítils virði, þá fannst mér þó að ég mundi ekki geta litið framan í nokkurn mann ef fleiri fengju að vita þetta.

            Eftir þennan atburð, kom ég aldrei í skólann og reyndi yfir leitt að komast hjá því að umgangast fólk eftir því sem hægt var, því mér fannst allir stara svo undarlega á mig og veita mér óvenju mikla eftirtekt, jafnvel ókunnugt fólk alveg eins og það vissi hvað hefði komið fyrir mig, ég var einnig komin með þá sjúklegu hugmynd að allir væru að tala um mig ef ég sá fólk vera að tala saman þar sem ég fór.

            Ég fékk bréf frá unnustanum mínum á meðan ég lá í rúminu eldheitt, ástarbréf eins og venjulega, ég fékk sting í hjartað þegar ég las það og var örringluð í fleiri daga á eftir, þó svaraði ég því aldrei og heldur ekki neinu bréfi sem hann skrifaði mér eftir það.

            Eftir að ég kom á fætur þjáðist ég alltaf af ógleði og slappleika og það kom oft fyrir að ég kastaði öllu upp sem ég borðaði, sem var þó oftast lítið því ég hafði mesta ógeð á mat.

            Þannig gekk það næstu tvo mánuði þá fyrst áttaði ég mig á því hvernig á þessari ógleði stóð, ég var barnshafandi.  Mér lá við sturlun við þessa hræðilegu uppgötun, mér fannst lífið minna en einskisvirði og ég skil ekki en hvernig ég fór að lifa þetta hörmungar tímabil af því þremur vikum eða mánuð eftir að ég komst að þessu fékk ég bréf frá foreldrum mínum og þau ægilegu tíðindi að kærasti minn hafði veikst skyndilega af garnaflækju og dáið, álitið væri að eitthvað hefði slitnað innan í honum.  Það hefur verið eitthvað um nýju leitið að kvöldi til sem húsbóndinn fékk mér bréfið, ég man það að ég var að fara inn til mín og ætlaði að fara að hátta, sem betur fór opnaði ég það ekki fyrr en ég var komin inn í herbergið mitt.

            Þegar ég var búin að lesa bréfið fékk ég aðsvif, þó held ég að það hafi ekki beinlínis liðið yfir mig, en þó missti ég alla dómgreind og sjálfræði, ég fékk þá flugu í höfðið að það væri mér að kenna að kærasti minn dó, sem sagt að ég hefði drepið hann með því að bregðast honum svona illa.  Ég hrópaði nafnið hans hvað eftir annað svo þreif ég kápuna mína og þaut út ákveðin í að fyrir fara mér.  Ég hraðaði mér eftir götunni og leit hvorki til hægri eða vinstri, það eins sem ég vissi var það að ég ætlaði að flýta mér niður að höfninni og kasta mér í sjóinn.

            En þegar ég fór yfir ein gatnamótin heyrði ég flaut og ískur svo fékk ég þungt högg og kastaðist til, svo varð allt dimmt.

            Næst þegar ég kom til sjálfrar mín lá ég í hvítu rúmi á sjúkrahúsi, mig verkjaði í bakið og leið yfir leitt hræðilega, læknir og tvær hjúkrunarkonur voru hjá mér og hjúkrunarkonan var að þvo mér.  Ég spurði hvort ég væri mikið meidd.  Læknirinn sagði að það væri undarlega lítið, að öðru leiti en því að ég hefði misst fóstrið sem ég gekk með, en það mundi ekki saka mig uppá það til að gera að ég myndi geta átt börn aftur sjálf fyrir því.  Ég veit ekki hvort ég hryggðist eða gladdist yfir þessum fréttum, ég held helst að ég hafi verið of sljó til þess að átta mig á því hvað þetta í raun og veru breytti miklu fyrir mig í framtíðinni.

            Þegar ég kom af spítalanum ákvað ég að fara heim til foreldra minna og gerði það.  Þar var ég svo í næstu fjögur ár, fór aldrei á skemmtun og umgengst eins lítið eins og ég gat allt óviðkomandi fólk.

            En þá varð aftur breyting á lífi mínu, ég kynntist ungum manni sem ég var afar hrifin af, strax og ég sá hann, eftir stutta viðkynningu komumst við að þeirri niðurstöðu að við gætum ekki lifað án hvers annars og þess vegna ákváðum við að gifta okkur.

            Nú er ég búin að öðlast sjálfstraustið aftur og eignast yndislegt heimili, tvö börn og dásamlegan eiginmann.

 

 


Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband