61. Ljóð Við Menn

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1976

 

VIÐ-MENN

 

I

 

Enginn þekkir upphaf jarðar

innsta kjarna, þrótt né svið

þar sem alltaf eldar loga

í undir djúpum hlið við hlið,

brjótast upp með boðaföllum

svo brestur allt og skelfur þjóð,

upp úr sjó og efstu fjöllum

ösku þeyta og vítis glóð.

 

 

Í einu slíku ösku hlaupi

Atlandið í hafið sökk,

en eylönd mörg úr æi risu,

út úr þykkum reykja mökk.

Dimmri en nokkur dökkvi sandsins

dauðari en örsnautt grjót,

en fuglar báru fræ til landsins

sem festust þar og skutu rót.

 

 

Mosi og skófir merkja veginn,

meta og vega landið fyrst,

byggja upp og byrgja grjótið

og bera sigur hæst og nyrst,

síðan klæðist landið lyngi

og lækur hlær við grænni tó,

svo er eins andinn syngi

eilíft líf í nýjan skóg.

 

 

II

 

 

Í hellum og sprungum holum og gjótum

höfðust við fyrstu menn,

líkari skepnum en mennskum mönnum

sem mannlegt er talið enn.

Þeir berfættir fóru eftir börðum og mýrum

og brutust um klungur og ís.

Þeir sugu blóðið úr blóðheitum dýrum

og borðuðu snigla og mýs.

 

 

Þannig gekk lífið um þúsundir ára,

þróunin stöðug en hæg.

Menn notuðu klærnar og kjaftinn til veiða

og kænskan var mikilvæg.

Þeir læddust af stað þegar leið á kveldin

og létu ekki braka í grein,

af tilviljun lærðu að tendra eldinn

af tinnu sem hent var í stein.

 

 

Áður en tíminn var talinn í dögum

tóku menn vopn sér í hönd,

bjuggu til kylfur og brýndu grjótið

og börðust við önnur lönd,

byggðu sér kofa úr leir hjá lækjum

litla með opnum skjá,

með sínum fábrotnu og fornu tækjum

og fest svo lauf yfir þá.

 

 

Með sínum fábrotnu og fornu tækjum

þeir feldu og bútuðu tré

holuðu innan og bjuggu til báta

og börðust, því aldrei var hlé.

Nú gátu þeir siglt yfir elfur og ósa,

út bæði um víkur og sund

veitt sér fiskana fallega og ljósa

og ferskleikans notið um stund.

 

 

Svo liðu aldir og alda tugir

að örlítil breyting varð,

vopnin stækkuðu og stóðu sig betur

svo stærra var höggvið skarð

í óvina hópinn á láði og legi,

því lengst af var karlmennskan dáð,

þó loks fór að bjarma af fögrum degi

fyrst þegar korni var sáð.

 

 

Enn liðu aldir og alda raðir

að uppskorið var og sáð,

menn brutu akur með brotnum greinum,

því betra fannst ekki ráð.

Steiktu sér kjöt við glóð í gryfjum

með grjóti hlaðið um kring.

En merkilegast - eitt sinn á meyrum rifjum

mátti sjá gulan bing.

 

 

Þá upp hófst tími tækni og lista,

þeir tóku að steypa sér málm,

bjuggu til ýmisleg áhöld og tæki,

einnig branda og skálm.

Þá var barist af betri tækni,

því bilið stækkaði enn,

og sá þótti drýgstur af dirfsku og frækni

sem drepið gat flesta menn.

 

 

Skip voru smíðuð af list og leikni

léttskreiða með árar á borð,

knúin af afli mannlega máttar,

svo margur hlaut frægðar orð

sem galeiður átti og geystist um löginn

og gekk upp á ókunn lönd,

barðist og vann og braut hauginn

og bar svo gullið að strönd.

 

 

Blóðþyrstir fantar fóru með löndum

í fylkingum dag og nótt,

þeir læddust sem úlfar að litlum kofum

um lágnættið, hægt og hljótt,

skjótari en elding í áhlaupi runnu

svo enginn gat flúið af stað,

þeir nauðguðu konum en bæirnir brunnu

og börnin þeir hjuggu í spað.

 

 

Þeir hlekkjuðu fanga og færðu til strandar,

sem fénað þá ráku í hóp.

Þeir heyrðu ekki bænir kjökrandi kvenna,

kvala né hræðslu óp.

Mjög sína karlmennsku og dirfsku þeir dáðu

og dugnað að afla sem mest,

en vesalings fólkið hungruðu og hrjáðu,

hentu þeir niður í lest.

 

 

Á galeiður settu þeir góða þræla,

en gátu ekki kalla það morð,

þó hinum sem voru hálf dauðir orðnir

hent væri fyrir borð

í hákarla kjafta sem börðust í bræði

og bútuðu limi í tvennt.

Það hafa svo margir á heimsins svæði

í hákarla kjöftum lent.

 

 

Oft hvein svipa á sveittum bökum

og sársauka stuna um leið,

nöktum búkum af blóði rökum

í benjar og örin sveið.

Þær hörmungar verða ekki taldar né tárin

eða teknar á dúllarans mál,

því hrópandi í gegnum aldir og árin

er útlagans fjötraða sál.

 

 

Seinna menn lærðu að sigla skipum

með seglum við léttan byr,

þeir notuðu skinnin af skógar dýrum

og skæni í glugga og dyr.

Það léttir mikið á lúnum höndum

að leggja árar í skut,

uppgefna þræla bundu böndum

sem báru sinn skarða hlut.

 

 

Menn fóru að vefa voðir úr hárum

og voðir úr líni og hör,

þeir bjuggu til segl mikið betri en áður

og byggðu sér stærri knörr.

Þeir sigldu um höfin heimsálfa milli

og höfðu ekki viðmiðun lands.

Skipið leið áfram af list og snilli

hin lagna og gáfaða manns.

 

 

Þeir lærðu að sigla eftir sól og stjörnum

með seglin þanin og strengd,

þeir urðu að reikna út rétt eins og núna

rangt stöðu og vegalengd.

Því oft gat þá bálveður borið og hrakið

burtu af réttri leið,

og oft var það hrörlegt og hálfsokki flakið

sem hægt upp að ströndinni skreið.

 

 

Sum komu aldrei siglandi að landi,

né sáust á reki um höf,

þau freyðandi holskeflur keyrðu af krafti

á kaf í þá votu gröf,

er syngjandi hefur seitt marga drengi

að setja fram bát úr vör.

Sumar þær hetjur lifa ekki lengi

en leggja upp í hinstu för.

 

 

Allt sem lifir er dæmt til að deyja

þá dagsverki lokið er,

það er lögmál sem lífið setur,

líka sem betur fer.

Því eilífur maður á okkar jörðu,

yrði ekki neinum til gagns,

að husla hræið og hlaða ´onum vörðu

held ég sé minna gagns.

 

 

III

 

 

Fólki alltaf fellir tárin,

fjöldin grætur þúsund  árin

yfir kúgun vopna valdsins,

vonbrigðanna og aftur haldsins.

Þó sumir nýja vinni vegi,

veltur allt þá næsta degi.

Því enginn veit hvert böndin berast,

hvar brimöldurnar sundur skerast.

 

 

Það í fornum sagt er sögum,

sem og rætist nú á dögum,

að drekar æddu eld spúandi

yfir hverju byggðu landi,

sviðu jörð og sundur tættu,

sugu blóð og ekki hættu

fyrr en allt var aska og rústir

og elstu hallir litlar þústir.

 

 

Þeir áttu gull í gömlum hellum

og gljúfrum upp í stórum fellum,

þar lágu þeir og gullsins gættu

svo gjörvallt landi var í hættu.

Ef  einhver reyndi að eignast auðinn,

ekkert beið hans nema dauðinn.

Samt fóru menn að finna drekann

en fæstir settu undir lekann.

 

 

Sumir komu aldrei aftur

enda þrotin dirfska og kraftur,

féllu fyrir drekans dróma

drukknir hilling vafurljóma.

Enginn þeirra afdrif þekkti,

því alla mennska drekinn blekkti.

Margur drekinn drekkur blóðið,

því drekinn elskar synda flóðið.

 

 

En svo var einn sem brölti á brattann

búinn til að fást við skrattann,

með sterklegt sverð úr styrtlings haugi

og stálbrynju frá öðrum draugi,

sem bitu hvorki egg né eldur

og ekki klærnar drekans heldur.

En sverðið var með seiði og slegið

sem gat alla djöfla vegið.

 

 

Hann safnaði liði sveina hraustra,

saman valdi kappa trausta.

Berserki af buðlunga kyni

bandóða, og víkings syni

sem höfðu víða borið branda,

beint til sigurs margra landa.

Allir voru brynjum búnir,

með bitur vopn og hörku snúnir.

 

 

Þeir héldu upp til hamra belta

og heyrðu drekann urra og gelta,

hann sveif að þeim í svörtum boga,

svo fór jörðin öll að loga,

hann spúði bæði eitri og eldi

og ótal marga kappa feldi.

En þeir sem höfðu brynjur bestar,

börðust eins og óðir hestar.

 

 

Þeir upp í gljúfrið sóttu svarta

og sáu gullið ljóma bjarta.

ágirndin þá áfram knúði,

ekki nokkur maður flúði,

þó hvini í klettum öllum

og kastaðist grjót úr hæstu fjöllum,

sem klessti þá og keyrði niður.

Svo komu ótal fleiri skriður-

 

og grófu þá undir aur og leðju, -

 

með ástar þökk og bestu kveðju.

 

 

En sá sem Styrtlings brandi beitti

í brynju draugsins, engu skeytti,

hann ruddist upp í bælið bjarta

með brandinum í marga parta

drekann hjó í ofsa æði,

enda trylltur heift og bræði.

Þegar svolinn sundur ristist,

svitnaði jörðin, skalf og hristist.

 

 

Svo til bæjar bar hann gullið

búinn til að drekka fullið,

fyrir sínum sigrum öllum

sem hann vann í þessum fjöllum.

Aðlaður ef til kónga kæmi

af karlmennsku og ríkidæmi,

ofjarl þeirra allra hinna,

ekki skyldi duga minna.

 

 

Hann leggur frá sér brynju og brandinn

og býst til hvíldar, en það er vandinn

að halda sínu gulli og geyma

og gleyma ekki að það er - heima.

Hann sveif um allt í sætum blundi,

í svefninum hann blés og stundi

og barðist grimmt við gamla drekann,

en gleymdi að setja undir lekann.

 

 

Inn í skálann lúmskur læðist

lítill karl sem flest hræðist,

hann grípur brandinn báðum höndum

sem berserkur frá suður löndum,

heggur svo af heljar afli,

hausinn þeytist út á gafli.

 

Blóðið rennur - bjart er gullið,

byrji þið nú að drekka fullið.

 

 

Svona virðist gullsins gáta,

menn gæfu sína og höfuð láta

fyrir málminn roða rauða,

sem reyndar öllum spáir dauða.

Þá margir sínu höfði haldi

af herrans náð og ríkis valdi,

þá er andans auðlegð búin

og öllu góðu sálin rúin.

 

 

Margir sínum guði gleyma,

gleyma - og eiga hvergi heima.

Þeir máttinn dýrka í Mammons líki,

mannlegt svað og forardíki,

elta loks sinn eignin skugga,

engum tekst þá ræfla að hugga.

Þeim, sem öllu góðu glata

gengur illa heim að rata.

 

 

IV

 

 

Enn þá drekar yfir gulli gapa

og gleyma ekki sínum nætur stað,

þeir vilja eiga all en engu tapa,

sitt eigið gull og mikið fleira en það.

Þeir kúga aðra og kreista úr þeim blóðið

og kveikja bál sem logar stundum glatt.

Þeir vilja alltaf sama synda flóðið

og sigra þann sem forðum Loka batt.

 

 

Til bardaga þeir æsa upp aðrar þjóðir

og ættarflokk sem lengi í friði sat,

þeir segjast vera sínum grönnum góðir

geta selt þeim vopn og kannski mat.

Þeir ættu núna strax að byrja að berjast,

því betur enginn kynni á því skil,

það sé líka mikið verra að verjast

því verið gætu hinir fyrri til.

 

 

Kvörnin malar malt og salt að vanda

og menningin dafnar fyrir snöggum byr,

sumir þó í sömu sporum standa,

svipað eins og tíminn stæði kyrr.

Af miklum hraða margur verður lúinn

sem minna ferðast um en Gaggarin,

og nú er ekki neinum hætta búinn,

sem negra drepur - það er talið grín.

 

 

Frá Hirósima heyrast enn þá hrópin,

hálf blindar verur reika hér og hvar.

Frá brunnu holdi berast neyðar opin,

bergmál glæpsins sem þar framin var.

Fyrir þessu mesta morði í heimi

menningin þó stendur ábyrg nú í dag,

og jafnvel þó að sumir garpar gleymi

geymist um eilífð þetta reiðar slag.

 

 

Miskunn er víst mönnum ekki gefin,

miskunn, það er tákn en ekki raun,

af miskunn fléttar margur lyga vefinn,

af miskunn heggur djúpt í annars kaun.

Af miskunnsemi morðingjarnir vinna,

af miskunnsemi kvelja og drepa menn,

af miskunnsemi og mannkærleika hinna

margur er á krossinn festur enn.

 

 

Hver er vor menning, hvað er andans þróun?

Hvaða tilgang hefur lífið hér?

Er það aðeins tál og tíma sóun

og tilviljun sem okkur hingað ber?

Eða kannski einhver ærði máttur,

sem okkur hingað sendi í reynslu bað?

Er það kannski fjas og fyrir sláttur

að finna megi líf á nýjum stað?

 

 

Einhvern tilgang allir hlutir hafa,

þá enginn skilji heimsins tign né mál.

Við megum okkur djúpt í duftið kafa

drekann til að vinna í okkar sál.

Ef okkur tekst að hnýta bræðra böndin,

burtu Júdas reka og lyga Mörð,

þá mun sólin ljóma yfir löndin

og lífið verða paradís á Jörð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband