13. Ljóð

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

Guðjóns drápa Grímseyings

Mannsöngur

Sléttubönd

 

Sumar blíðan vekur völd

völlur skrýðist fagur,

gumar bíða kyrrlát kvöld,

kemur blíður dagur.

 

Degi hallar okkur á,

alltaf kalla fljóðin.

Vegi alla fegra þá

finna snjalla óðinn.

 

Tveggja áttaþungur þeyr

þreytir sláttu takið.

Beggja nátta greypur geir

geta háttinn vakið.

II

 

Norður í hafi eyja er

sem enginn maður þekkir hér

þar býr fólk sem betur fer

borðar fugla egg og smér.

 

Herrans fyrir hálfri öld

hráslagalegt vetrar kvöld

þegar báran byltist köld

og barði nakinn eyjar skjöld.

 

Fæddist stór og feitur sveinn

fagur mjög og vaxta beinn

aldrei hafði áður neinn

annar sést jafn brúna hreinn.

 

Strax í æsku efldur var

öðrum fljótt af sveinum bar.

Sigldi út um saltan mar

sinni fleytu hér og þar.

 

Fiskaði vel og fjörugt dró

fyllti bátinn söng og hló

jafnvel allir aðrir þó

ekki fengu bein úr sjó.

 

Stundum fékk hann storm og byl

strák það ekkert gerði til

því eftir á gekk alt í vil

yndis fljóð með ljós og il.

 

Björgin kleyf hann brött og há

bein sem veggur stóðu frá.

Hinum djúpa salta sjá

sótti lunda fýl og má.

 

Þegar landið lá hann við

lítið mat hann siðferðið

kelaði og söng við kvenfólkið

kvöldin löng í ró og frið.

 

Þegar húmið leið um lönd

flakkaði sýn um haf og strönd.

Oft í rúmi brustu bönd

sem bundu fastast meyjar hönd.

 

Æskan leið sem vor um völl

vakti gleði og meyjar köll.

Fimleg voru fangbrögð öll

fasið stillt en orðin snjöll.

III

 

Eitt sinn rauk á rokna hvell

riðlaðist eyjan fékk og skell

renndi af stað með römmum smell

ráku á eftir sjávar fell.

 

Velti og hjó svo virtist grand

válegt skráð á sjávar band

kenndi grunns og keyrði í strand

í kafaldals byl fyrir sunnan land.

 

Guðjón bjóst þá brátt af stað

brá úr vör og treysti vað.

Batt svo eyjar endum að

og aftan í bátinn festi það.

 

Rykkti og söng í reipunum

rumdi og sauð á keipunum

svignaði og skalf í sveipunum

sárnaði skinn í greipunum.

 

Eftir harðan langan leik

er ljómaði sól á himni bleik

áður en nokkur komst á kreik

knarrar brýndi Guðjón eik.

 

Kappinn sigldi á sömu mið

setti fast og sperrti við

svo að eyjan ekki á hlið

ylti strax og spillti frið.

 

Þá á landið létt hann steig

losnar andinn starfs við beyg

en frá sandi augað hneig

um ægis branda hranna teig.

 

Heim í bæinn beint hann gekk

burt frá æi fýsti rekk

vika laginn vafði hlekk

vordags braginn meyjar fékk.

 

Einn hann skundar alla stund

áls í lund og gleði fund

engri bundin auðar grund

oft þó hundi hleypti á sund.

 

Kringum lendur leikur mar

logum brenndur alstaðar

nú mun enda áður þar

út við strendur Grímseyjar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk kærlega fyrir þetta.  Sjaldan sem maður sér haglega gerð sléttubönd í dag.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.7.2007 kl. 02:03

2 Smámynd: Hilmar Guðmundsson

verði þér að góðu.

Hilmar Guðmundsson, 25.7.2007 kl. 10:19

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband