16.7.2007 | 11:58
6. Ljóð
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f:11.11.1923 d:17.04.1976
DÍSUR
Hvernig á kvæði að vera,
sem komið er ekki á blað.
Verður slíkt vandi að gera,
viljið þið segja mér það.
Er betra að yrkja vísu,
eina um Dísu og hann.
Því draumurinn hennar Dísu,
var draumur um ungan mann.
Dísa er enn þá Dísa,
og Dísa er ljúf og góð.
Þó verði það aldrei vísa
en verði á endanum ljóð,
sem Dísu við sendum í draumi
því Dísa er öllum kær,
veik fyrir veraldar glaumi,
en reikul og indæl mær.
Ef bágstaddan bar að garði,
hún bauð honum þegar inn,
því mat eða mælikvarði
á mann þennan og hinn,
var aldrei af Dísu dreginn,
datt bara slíkt ekki í hug,
hún var aðeins voða fegin
og vísaði engum á bug.
Enda höfum við allir,
átt okkar Dísu nótt.
Svifið um sólgylltar hallir,
sokkið í húmið hljótt.
bikarinn drukki í dögun,
hans dreggjar í löngum teyg,
gleymt bæði lit hans og lögun
en lotið hans guða veig.
Hugþekk er helgi stundin,
þá haldið er garði frá.
Geislarnir ljóma upp lundinn,
og lífið er dásamlegt þá,
minning um meyjar og arma,
mjúka og lítinn fót.
Freyðandi Venusar varma,
sem verma okkar stefnumót.
Við þurfum ei lengur að lýsa,
ljóðinu um Dísu og hann.
Á endanum eignaðist Dísa,
ungan og fallegan mann.
Og draumarnir Dísu rætast,
því Dísa var róleg og beið,
maður og kona mætast
og merkja sér nýja leið.
Samt eigum við allir Dísur,
sem alltaf taka okkur beint.
Skemmtilegustu skvísur,
skínandi alveg hreint.
Þó detti úr hópnum ein Dísa
og drífur í að gifta sig,
þá önnur mun leiðina lýsa
og ljóma umvefja þig.
Bloggvinir
Eldri færslur
2020
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar