17.7.2007 | 00:48
7. Ljóð
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d:17.04.1976
GÖMUL SAGA
Mildur ómur berst til bæja,
bítur gola, ekki hvasst.
Undir hófum hlíðar hlæja
hljóms við hamra endur kast.
Fölvi sést á fjalla brúnum,
fyrir ofan stjörnu glóð.
Liprir fætur rista rúnum
raka moldar götu slóð.
Selið langt að baki blundar,
bíður morguns lágt og hljótt.
Burt frá mjúkri hvílu kenndar,
halur ríður þessa nótt.
Dimmt er fyrir dökkum augum,
dapurt yfir ungum hug.
Eldur brennur ört í taugum
með örvæntingar neista flug.
Hann var saklaus, sekur dæmdur,
sagður hafa vegið mann.
Eignum sínum rúinn, rændur
af rekk sem lyga vefinn spann.
Sviptur öllum sóma og æru
sekur gengur skógar leið
til unnustunnar ungu og kæru
upp í selið strax hann reið.
II
Ljómar jörð á lygnu kveldi
lindir streyma hljótt við ból
himins hvelfing, unaðs eldi
aftan roða, merlar sól.
Endurskin frá ám og flóum,
eykur heimsins lita val.
Ilmur berst frá birki skógum,
allt bíður þess er koma skal.
Hún bíður hans á bæjar hólnum,
brosmild eins og fögur rós.
Engilhrein í hvítum kjólnum,
hvarma dökk en hörunds ljós.
Geislar fæðast glæstra vona,
gleðin heimtar styrk og vörn.
Varir mætast - maður - kona,
mestu lífsins óska börn.
Vafin mjúkum meyjar armi,
margur gleymir tímans raun.
ástar ljómans ljúfi varmi,
lífsins græðir dýpstu kaun.
Unaðsstundir allra nátta,
endur vekur blærinn hreinn,
þegar tónar tveggja átta,
tengjast sama - verða einn.
Djúpin fyllast dýrðar ljóma
dulins máttar - innstu lög
alheims gígjur undir óma,
ástar valsins töfra slög.
Óska drauma elfin rennur,
ósinn kembir ljúfur þeyr.
Vafurloginn varmi brennur
vermdar það sem aldrei deyr.
Helg er nóttin, helg er stundin,
heilagt sérhvert augna blik.
Eðlis hneigðin átta bundin,
aftur þræðir vonlaust strik.
Leitar uppi leið en eygir
lokuð hlið og brostna grein.
Allt er glatað, eigir vegir,
undan koma tæpast nein.
Myrkvast sál að morgni ungum,
merkjast sundur tveggja spor.
Steypist fyrir straumi þungum
strýs við arma, nýfætt vor.
böndin falla, böndin þrengjast,
blæðir hjartans djúpa und.
brotnar sálir, sundur engjast,
sorgin þjakar veika lund.
III
Feigðar boðans forni hljómur,
fyllir hjartans innstu laug.
Náklukkunnar neyðar ómur
næðir gegnum hverja taug.
Inni í dimmum litlum lundi
liggur sverð og rennur blóð.
Mærin unga bregður blundi,
bleik sem nár, við morgunglóð.
Hratt en stillt hún reis úr ranni,
rekja augun sundin græn.
Þessi fagri fjalla svanni,
fellir tár í hljóðri bæn.
Yfir sig kufli stuttum steypir
stöðug gengur beina leið.
Söðlar hest og síðan hleypir
sömu átt og knapinn reið.
Morgun sólar söngvar rymja,
sveimar fugl um skógar rein.
Í fjarska vopnin glampa, glymja,
gjalla raddir, stunur, vein.
Átta á móti einum berjast,
aðrir liggja í valnum fimm.
Hún sér hann móðan, sáran verjast,
svipur harður augun dimm.
Hægt sig einn úr hópnum dregur,
hefur sverði í slíður sökkt.
Spjót í hendi vel hann vegur,
varpar síðan leiftur snöggt,
það gegnum manninn miðjan smýgur,
marrar hold, sem kramið lauf.
Meðan hann til moldar hnígur
mann í herðar niður klauf.
Við hlið hans, stillt á kné hún krýpur,
kyssir mjúkt á augun hörð.
Úr bana sári blóðið drýpur,
breiðist út um gljúpan svörð.
Sem ástarjátning æðri hljómi,
með engla röddum kærleikans,
hún hvíslar lágt með ljúfum rómi
líknar söng í eyra hans.
Drjúp mildur höfði að móður barmi,
moldin þreyttum veitir fró.
Gleymdu öllu hatri - harmi,
haltu göfgi og sálarró.
Fyrir gef þú fölskum mönnum
fólskuverk, með bljúgri lund.
Gakk þú heill, með huga sönnum
hinstu leið á drottins fund.
Hann lyftir höfði hinsta sinni,
horfir djúpt í augun blíð,
þar sem brennur bálið inni,
en brostin von um ævi tíð.
Hann skynjar afl og styrk þess sterka,
stund þess mikla - æðsta mál.
Hann skynjar kærleik kraftaverka
konu ást af lífi og sál.
IV
Myrkvast jörð og moldin grætur,
máninn speglar haustsins rann.
ferðamenn við fjallsins rætur
fundu dána konu og mann.
Í faðmlögum þar líkin lágu,
ljómi í gegnum fölvann sást,
eins og börn er saman sváfu.
Sigur tákn um hreina ást.
Bloggvinir
Eldri færslur
2020
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar