11. Ljóð

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

FLÓTTINN

I

 

Loftsins gígjur ljóðin syngja

laugast jörð af sólar il.

Vorsins bjöllur kátar klingja

kveða niður stormsins byl,

vonir frjálsum vængjum blaka,

vaknar löngun hjartans prúð,

fuglar loftsins léttir kvaka,

ljómar hlíð í grænum skrúð.

 

Lömb sér eftir leika grundum,

lífið stígur töfra dans,

í skjóli inni í skógar - lundum

skrautleg blómin flétta krans.

Fiskar eftir sjónum synda,

sveimar þeyr um loftið dátt,

allir sama bandið binda,

búa starf í líka átt.

 

Allir leita að ljúfum vini

þá lífsins þeir hefja starfið fyrst,

sálir tengja í sama skyni

suðræn heimsins börn og nyrst.

Svo lengi sem hér líf skal haldast,

þarf lögmál slíkt að stjórna því.

Það á hver einstök vera að valdast

ef visnar ein svo komi ný.

 

II

Sveitirnar byggðust innst í Íslands dali

og ýmsir reistu bæi upp á heiðum,

þar sem næddi næðingurinn svali

og norðan stórhríð huldi merki á leiðum.

Þar dafnaði menning í moldarkofum lágum

og mótaðist fólk með skapgerð harða og trausta.

Það gafst sjaldan upp þó fyndist fátt af stráum

og fengurinn lítill er tekið var að hausta.

 

Með lélegt áhöld barist var í bökkum,

birtan var látin ráða vinnutíma,

heyið var flutt á hestum upp á stökkum

hengt á klakka, það var erfið glíma.

Það var saman reitt í rökum sundum,

reyndist víða baggi í stað og minna.

Flestir máttu eyða fleiri stundum,

að fara á milli bæja og slægna sinna.

 

En þetta var fólk sem trúði og treysti á landið

og talaði fagur mál með hrinum hljómi.

erfiðleika stríðið ótta blandið

var aðalsmerki þess og hetju sómi.

Kjörorð þess var að kvarta ekki og vola,

því kjarkurinn var stærsta óska barnið,

þó að stundum næddi nöpur gola

og nokkuð lengi stæði vetrar hjarnið.

 

Bændur urðu að búa vel að sínu

og búpening sinn ekki láta falla,

annars mundi allt úr hungri og pínu

enda sitt líf, þá vetri tók að halla.

Reynslan þeim kenndi að spara allt við alla,

alltaf á beit þeir ráku fé í haga,

margir fóru með sitt hátt til fjalla

og mokuðu af kappi snjónum alla daga.

 

Á vökunni oftast rímur karlar kváðu,

en konur gerðu skó og spunnu á rokka,

sumar kembdu ull en aðrar táðu,

sem átti að fara í peisur eða sokka.

vefur sleginn var og tíðum unnið

vaðmál er seinna notað átti í klæði,

svo var líka af sumum hrosshár spunnið

og sumir húðir rökuðu í skæði.

 

Lýsis kolan lengi var það eina

ljós sem notað var er dimmdi á kveldin,

hlýju fengu menn við hlóðasteina

og hlífðar fötin þurrkuðu við eldinn.

En þessir tímar löngu liðnir eru

og ljósin núna kveikt með einum rofa,

samt þreytast menn á sinni vistar veru

og virðast þurfa langtum meira að sofa.

III

 

Nú er hin gamla bænda menning brotin,

böðlarnir veifa Axlar - Bjarnar sveðju.

Launvígum fjölgar, andans auðlegð þrotin,

örkumla heilar mynda sóknar keðju.

Niðurrifs stefna öllu góðu grandar,

gróðabralls flokkar svíða lendur jarðar,

fólkið hrökklast sem flóð - bylgja til strandar

flýjandi niðjar Júdasar og Marðar.

 

Straumarnir öfugt streyma nú með hraða,

stormsveipir lífsins mörgum flötum kasta.

Stjórnlausir hópar áfram villu vaða,

vonglaðir halda til spillingar og lasta.

Átthaga fjötrar ekki geta bundið

andlausa menn né bjargað þeim frá grandi.

Börnin flytja í borgina við sundið,

en bæirnir standa tómir inni í landi.

IV

 

Stansaðu maður, hver er köllun þín

og hver hefur sagt þér að ganga þessa braut?

Þó hún virðist fær við fyrstu sýn,

finnur þú aðeins það sem annar hlaut.

Þessa götu halda margir menn,

í moldviðri lífsins, og þeir fá kaupið greitt,

kaupið sem er að koma og fara í senn,

kaupið sem er verra en ekki neitt.

 

Hvert á að fara hver hin rétta leið,

kanna og sigla vítt um ókunn höf?

Nei!  Þú hefur grafið undir grænum meið

gullið sem þú fékkst í vöggu gjöf.

Snúðu við heim og grafðu upp gullið allt

og gefðu þeim sem lítið hafa í skut,

þá munt þú fá það borgað þúsundfalt

en þrjátíu dali annars réttan hlut.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband