29.7.2007 | 14:35
18. Ljóð
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
BAKKASEL
Hér áður var bóndi í Bakkaseli
og búið víðar á norðurhveli,
alstaðar held ég þar sem þeli
þraukaði og af sér kuldann stóð.
En nú er það komið allt í eyði,
enda langt milli bæja á heiði
og því ekki lengur gerður greiði
gestum sem halda þessa slóð.
Margur gesturinn kom að Kotum,
kominn alveg að niður lotum,
kjarkurinn líka þá að þrotum
og þrautagangan á endum stóð.
En þegar blessuð bæjar þilin
birtust í gegnum hríðar skilin
og klakaður maður komst í ilin,
kviknaði aftur lífsins glóð.
En þó hafa margir orðið úti
og endað sitt líf í kvöl og súti,
sem lögðu af stað með lögg í kúti
léttir í spori snemma dags.
Í slóðir er líka fljótt að fenna
og fæstir mega að sköpum renna,
þó upp komi stundum einhver glenna
er oftast styttra til sólaslags.
Oft mátti Bakkasels bóndinn fara
og brjótast áfram í hríðar skara,
orkuna og kjarkinn ekki spara
ef úti varð maður á heiðum þar.
stundum fann hann þá grafna í gaddinn
og glytti þá aðeins rétt á Haddinn,
sem karlmennið heim á öxlum bar.
Nú þarf ekki bóndinn í bakkaseli
að brjótast áfram á næturþeli,
því norður á þessu nakta hveli
er nástrandar hljóð sem eyrum sker.
Þar flugvélar stundum farist hafa,
frostið og hríðin lífið grafa,
því nú sést þar enginn seggur kafa
með særða og þreytta á baki sér.
Leiðangrar oft er lengi að búa
til leitar, og stundum þeir aftur snúa,
því ófærðin skrokk og andann þrúga
áfram að brjótast við storm og él.
Þeir hefðu eflaust færri farist,
ef fengist maður sem gæti barist,
hríðum og stormum vaskur varist
og vildi flytja í Bakkasel.
Vel mættu þeir sem við völdin lafa
villu ráfandi snjóinn kafa,
þá mundu þeir kannski meiri hafa
mannlegan skilning á öllu hér.
bakkasel þarf að byggja að nýju
og búa þar mönnum skjól og hlýju,
þegar frá kuldans kólgu gígju
klakaða tóna að eyrum ber.
Bloggvinir
Eldri færslur
2020
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar