29. Ljóð JÚNÍDAGUR

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

JÚNÍDAGUR

 

Á himninum sést ekki svífa ský,

sólin er ljómandi og hrein,

það er eins og vakni upp veröld ný

um vormorgunn, ljúf og ein.

Jörðin eitt glampandi geisla bað,

með guðdómsins fegursta brag.

Víst má segja með sanni að

það er sautjándi júní í dag.

 

Því söðla ég enn minn sveitta hest

og sveifla mér glaður á bak.

Um sumarsins björtu sali berst

söngur og vængja blak.

Ég læt hann svífa um sólgyllta jörð

og sæki á vinar míns fund.

Stoppa hjá Eyri við Arnarfjörð

æ þar um langa stund.

 

Hann bíður mín þar við bæjardyr,

eins og bænda er jafnan títt,

að fornum hætti, í fréttum spyr

og frétta vill eitthvað nýtt.

Því öll hans hugsun og öll hans gerð,

var átak við storm og hjarn,

hann var skjöldur Íslands, svipa og sverð,

sómi og óska barn.

 

Hans bláu augu eru björt og hrein

blikandi en nokkuð hörð,

hann hallar sér fram á sinn hesta stein

og horfir um Arnarfjörð,

þá kæru byggð sem hann metur mest,

þar mund hann nú dvelja um sinn,

svo tekur hann beislið og bindur minn hest

og býður mér síðan inn.

 

Baðstofan finnst mér björt og hlý

að búnaði og fornum sið.

Svo tökum við aftur upp talið á ný

og tölumst þá lengi við.

Ég segi honum fréttir, en fáar þó

um framvindu mála hér,

í sannleika sagt, er mér um og ó

og oft setur hroll að mér.

 

Ef sæi hann nú þessa syfjuðu hjörð,

þennan sífelda skolla leik.

Þessa strokumenn andans sem standa hér vörð,

stiklandi í þoku og reyk.

Þetta siðferðis brenglaða súrdoða lið,

er situr og hefur hér völd,

þá mundi hann skelfast það menningar snið

sem mótast á þessari öld.

 

Mér finnst allt vera á ringulreið

rambandi heljar slóð,

af græðgi menn hlaupa gönuskeið

eins og grenjandi úlfa stóð.

Missum við nú okkar menningu enn,

er mátturinn þræla blóð?

Skilur þú Jón þessa skammsýnu menn,

þessa skjálfandi flökku - þjóð.

 

Ég skil þetta vinur, ég séð hef það svart

á seinni tímum og fyrr,

á Íslandi skeður svo misjafnt og margt

og maður er hugsansi og spyr:

Hve lengi mun þrælslundin þjaka menn

og þrífast á landi hér?

Að hundseðlið skuli haldast við enn,

hreinlega blöskrar mér.

 

Hvað heldur þú maður, þeir hugsa í dag,

Hilmar og Fjölnis menn,

ef þjóðin mun syngja hið síðasta lag,

með sáttmálann gamla enn.

Afsalar réttinn á íslenskri grund

til atvinnurekstrar - halds,

og kemur svo aftur á Kópavogs fund

í krafti hins erlenda valds.

 

Ég hét því ungur að efla mitt land

og auðga þess styrk og mátt,

hnýta varanlegt bræðra band

og berjast í rétta átt.

Vinna okkar frelsi á fastan grunn,

ég fann að mig skorti ekki þrótt,

og mynda allsherjar mennta brunn

svo menningin dafnaði fljótt.

 

Í fyrstunni var þetta bölvað baks,

ég barðist og dugði vel,

en þeir vildu reyna að þreyta mig strax

og þegja mig alveg í hel.

Ég vann samt og tendraði vonar glóð

og veit að hún lifir og skín,

þú skilur það sonur, að þessi þjóð, -

þið - eruð börnin mín.

 

Þjóðerni okkar varð þrætumál

og þroskandi tíma skil,

Ég vakti upp þjakaða þjóðar sál

sem var þrotin af birtu og il.

Íslenska tungan var okkar sverð

og álaga hamin skar,

hver minnsta hreyfing var mikilsverð,

sem að markinu okkur bar.

 

Hin forna menning lagði mér lið

og ljós, móti danskri slekt,

hinn liðni tími, hans sögusvið,

því sögueyjan var þekkt,

bakgrunnur hennar, bergmáls hljóð

og bókmennta listaverk.

Taflstaða mín var traust og góð

og trúin á frelsið sterk.

 

Eigi víkja, - það var mitt orð

og verður minn bautasteinn.

En þrællinn sem fremur þjóðar morð

mun þrauka í böndum einn.

Hans stuðlaberg verður storknað blóð

strönd hans visnuð og auð,

tign hans og veldi, tára flóð,

trú hans og viska, - dauð.

 

Íslendingar, - þið eruð þjóð

og eigið að skilja ykkar lund,

þið hafið afl og innri glóð

sem aðeins blundar um stund.

Vaknið þið börn til vonar dags

sem mun vaxandi fagur og hreinn,

ef sitjið þið hljóð til sólarlags

verður sigurinn aldrei neinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband