18.9.2007 | 12:26
58. Ljóð Útigangar
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.041976
ÚTIGANGAR
Kvöldroðinn síðustu geislana gaf
okkar göfugu jörð þennan daginn,
gullbylgjan faðmaði himin og haf,
heillaði og ljómaði upp bæinn.
Fuglarnir sungu hinn síðasta óð
til sólar og friðsællar nætur,
þá rumskaðist fyrst okkar ruglaða þjóð
og rónarnir skriðu á fætur.
Í skítnum og slorinu ólust þeir upp,
iðandi gráir af lúsum,
rauðir í andliti, rýrir á hupp,
í rauninni líkastir músum,
með flóttaleg augu, falski á brá
og fólskulegir um trýnin.
En svo mátti tæplega á milli sjá
hvort þeir mannlegri væru en svínin.
Þeir höfðu ekki unnið um ára langt bil
og oftast nær sváfu á daginn,
en drukku sig fulla ef færi gafst til
og fóru þá snuðrandi um bæinn.
Þeir rændu úr forstofum fötum og skóm
og falt gáfu öllum sem vildu,
er birta var lítil og buddan tóm
og bognir þá skugganum fylgdu.
Körunar voru ekki krásirnar þó
sem þeir kyngdu með slefandi munnum,
af rotnuðum leifum var reyndar nóg
í rusla og ösku tunnum.
Ef bak bið hótel og höfðingjans vegg
var hent, eða losaður pottur,
um matinn þeir börðust með oddi og egg
við útlaga ketti og rottur.
Í hálfhrundum skúrræflum héldu þeir til,
(eða hímdu undir gömlum bátum,)
á sumum var tæplega þak eða þil
en þarna var sumblað með látum.
Í einhverju horninu hægðu menn sér
og höfðu það ekkert að dylja.
Misjöfn í viðbrögðum menningin er
og mannlegt að vilja ekki skilja.
Þangað komu oft þjóðfrægir menn
og þjóruðu stundum um nætur,
sagt er að einstaka sjáist þar enn
sitja við Bakkusar fætur.
Kvensniftir hænast herrunum að
því herfangið vilja þær hreppa,
þeir ríku fá næði og nætur stað,
en naumlega hinir að skreppa.
Sagt er að eitt sinn um sumar kvöld
síðbúinn mætti þar gestur,
maður sem hafði mikil völd
og mér var sagt ágætur prestur.
Hann ætlaði að hefja þar andlegt starf
og uppræta glæpi og lesti.
Menn vita að til þess meira þarf
en munninn á einum presti.
Hann sagði þeim um þetta siðalögmál
er sett var í gamla daga,
um karlmanns eðli og konu sál
og hvernig þau mættu sér haga.
Um aldingarða og Evu synd
og engla á himins tröðum,
svo dró hann upp heilmikla helgimynd
af helvíti og fleiri stöðum.
En þegar loftið er þungt og slæmt
þarf oft á hressingu að halda,
þarna bauðst staup sem hann þáði, en dræmt
og þurfti ekkert fyrir að gjalda.
En þrotlausar umræður þreyta menn fljótt
og þurrka svo raddböndin hlaupa,
því alltaf jókst presti orðagnótt
og oft var skammt milli staupa.
Lagið þeir tóku að söngmanna sið
og svo gerði einnig prestur.
Hann signdi og krossaði kvenfólkið
eins og kappsfullur stríðalinn hestur.
Mjaðarins naut og meira hjá þeim,
því manneðlið enginn heftir.
Kom síðan blindfullur kjagandi heim
um kvöldið þar næsta á eftir.
Ég veit ekki hvort þessi saga er sönn,
en svona hún gengur um bæinn.
Mitt í dýrðinni og dagsins önn
er drengurinn talinn laginn.
Hann drottins sauði að sölum ber
að sælli og fegurri landa,
til himinsins, þangað sem eilífðin er,
um eilífð sem hlýtur að standa.
Bloggvinir
Eldri færslur
2020
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar