BÓNORÐIÐ

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1976 

BÓNORÐIÐ

 

 

Egill Danivaldason sat á dyraþrepinu heima á Brún og horfið dreymandi augum út dalinn.

Fyrstu frjóhnapparnir voru ný búnir að skjóta kollinum upp á yfirborðið og klæða jörðina fyrsta skrúða vorsins.  Ljúfan gróðurilminn lagði fyrir vit honum og fyllti sálina hressandi unaði, fjöri og vaxandi starfsþreki.  Löngu til að hefja nýja baráttu við náttúruöflin.  Krafti til að endurreisa fallnar hugsjónir og þrá til að njóta þess dýpsta sætleika sem lífið færir hverjum einstaklingi í vöggugjöf.  Hann var búinn að taka kot á leigu uppi á heiðinni.  Hann ætlaði að flytja þangað um fardagana og hefja þar búskap.  Kotið var reyndar ekki í góðri rækt og húsakostur fremur slæmur, en þessu máttir öllu kippa í lag með tímanum ef allt gengi vel að örðuleiti.  En þetta annað leiti var það að hann átti eftir að biðja sér konu, því konulaus getur enginn maður búið á afskekktri eyðijörð.

Honum fannst það reyndar dálítið einkennilegt að hann, Egill Danivaldason, þrjátíu og sex ára gamall maðurinn hefði aldrei langað til að gifta sig fyrr en í vetur, eftir að hann réðist til fjármennsku að Brún.

En þá var það kannski ekki svo einkennilegt þegar á allar aðstæður er litið, því atvik og umhverfi geta breitt manninum töluvert mikið, vakið athygli hans á ýmsu sem áður hefur verið lítt rannsakað og leitt hann yfir draumalönd hugsanna sinna, inn á brautir tilveru athafnanna í leit að áþreifanlegri hamingju.  Þannig var það með Egil, breyttar aðstæður höfðu vakið hann til umhugsunar um nýja tilveru, því í vetur var hann látinn sofa í sömu baðstofu og nýgift hjón í fyrsta skipti á ævi sinni.  En það fannst Agli, að mætti vera dauður maður sem ekki lifnaði við allt það skark sem í þeim heyrðist.  Það var eins og þeim væri ómlegt að halda kyrru fyrir nokkra einustu nótt.

Ja það var nú meiri endingin.  Marga andvökunóttina hafði hann átt fyrir þeirra tilstilli þennan langa kalda vetur.

En þetta skyldi nú taka enda, hann ætlaði ekki að hlusta og horfa upp á annað eins alla sína ævi án frekari aðgerða.

Nei og aftur nei, hann var búinn að taka ákvörðun og henni skildi ekki verða breitt að óreyndu.  Hann ætlaði að fara fram að Bröttuhlíð seinni partinn í dag og biðja Stínu að giftast sér.  Hún var nú reyndar komin af unglingsárunum en það skipti ekki svo miklu máli. Þess minni yrði ómegðin og það hafði líka sína kosti.  Og þó að hún væri ekki beinlínis nein sérstök glæsikona, svolítið rangeygð og helst til mikið hjólbeinótt, þá var það nú auka atriði, kona var hún og það skipti mestu máli þegar á allt var litið.

Varla færi hann að glápa oft á augun í henni svona yfir há bjargræðistímann og þetta með fæturna, ja - það var nú eiginlega ekki nein teljandi líti ef annað væri í lagi.  Duglegri og sparsamari konu gæti hann ekki fengið.  Það eru líka höfuðkostir hverrar dugandi sveitakonu, svo átti hún víst eitthvað í kistuhandraðanum að sagt var, nokkrar kringlóttar og ómöllegt var að segja um hvað margar gætu sprottið þar upp þegar til kæmi.  Ekki ætti það að rýra gjaforðið.  Ekki gat Egill séð neina frambærilega ástæðu til þess að hún hafnaði slíku bónorði sem þessu.  Hann var sæmilega vel efnaður, átti fjörtíu og tvær ær, tvo hrúta og einn gemling, hefði átt þrjá ef pestin hefði ekki drepið anna þeirra og bölvaður refurinn hinn.  Nú svo átti hann tvo hesta, já eða öllu heldur hest og meri, það var minnsta kosti hægt að segja - tvö hross.  Já, svo átti hann einn hund - ja hund?  Jú - víst var það hundur og meira segja helvítis hundur, sem aldrei gat verið þar sem hann átti að vera hvað sem á lá, en það var nú ekki svo nauðsynlegt að taka það fram, nóg að segja bara einn hundur.  Nú svo var hann búinn að fá loforð fyrir ágætis belju fyrir sæmilegt verð, svo þetta var orðið álitlegur bústofn til að byrja með, því alltaf mætti bæta við þegar fram í sækir.  Egill Danivaldason reis á fætur og gekk inn í bæinn.

Hann þvoði sér vel og vandlega, klippti skeggið með stökustu vandvirkni og reyndi að greiða þessi fáu hár sem eftir voru yfir hrjóstrugan bergangurinn á hæsta tindi líkama síns.  Hann fór í sín bestu föt og setti upp harðan pípuhatt, sem hann fékk í arf eftir föður sinn.  Þessi pípuhattur var kannski ekki upp á það allra fínasta en þetta var kjörgripur ættarinnar sem var búinn að ganga í arf í marga liði og ekki settur upp nema við hátíðlegustu tækifæri.  Nú var Agli Danivaldssyni ekkert að vanbúnaði, hann steig á bak á rauðblesótta hestinn sinn og reið léttan úr hlaði.  Leiðin að Bröttuhlíð var liðlega tveggja tíma reið, en hvortveggja var að Egill var ákafur og Blesi þrekmikill fjörhestur, svo að eftir tæpan klukkutíma voru þeir komnir í hlað á Bröttuhlíð.

Egill knúði dyra með písk sínum svo undir tók í öllum burstum bæjarins.  Hann var í sannkölluðum vígamóði, honum fannst hann veran glæsilegur riddari, hraustur og hugaður, klæddur dýrindis herklæðum, gyrtur sverði með gullhjöltum prýddum demants perlum í silfurslegnum skeiðum, sem væri að frelsa konungsdóttur úr trölla höndum og þyrfti að berjast við flögð og forynjur.  En eftir langan og harðann bardaga riði hann heim í höll sína með hina yndislegu konungsdóttir fyrir framan sig sveipaða dýrustu klæðum og teymandi á eftir sér sextán hesta klyfjaða gulli og gersemum.  Þegar konungur frétti um hið mikla afreksverk riddarans, mundi hann kalla saman alla sína ráðgjafa og aðra heldri menn í ríki sínu og halda mikið brúðkaup.  Seint um kvöldið mundu svo brúðhjónin fara að hátta, fyrst brúðurin og svo náttúrlega hann, auðvitað í sama rúmi.

Nú og svo þegar þau væru háttuð mundi hann snúa sér að henni og taka undur laust utan um hana og segja, "mikið skelfing er góð af þér lyktin elskan mín", þá mundi hún roðna og þrýsta sér fastar upp að honum.  En þá stryki hann hendinni mjúkt og blíðlega eftir vanga hennar, niður á brjóstin og niður: - Riddarinn var skyndilega hrifinn burt úr draumalöndum ástarinnar með þunglamalegu fótataki innan úr bænum.  Jón bóndi gekk fram á tröppur og heilsaði komumanni.  "Komdu sæll og blessaður Egill minn" sagði hann og rétti Agli hefndina.  "það er nýtt að þú heiðrir okkur með heimsókn þinni".  "Komdu blessaður, maður hefur nú farið heldur lítið í vetur, færið alltaf svo andstyggilegt og svo hefur maður haft annað að gera skal ég segja þér.  Það er oftast séð um það".  "Já það gengur svona" sagði Jón og strauk hendinni yfir ennið.  "Viltu ekki gera svo vel og ganga í bæinn".  "Ne - ei, þakka þér fyrir ekki núna, ég ætlaði bara að fá að tala við hana Kristínu nokkur orð".  "já þar ætti nú ekki að vera hængur á", sagði Jón og gekk inn Í bæinn.  "Það vildi ég að Guð gæfi" tautaði Egill við sjálfan sig, því nú var allur vígamóður horfinn og hinn glæsilegi riddari orðin að óstyrkum kvíðafullum manngarmi, sem langaði mest af öllu til að stíga á bak og hleypa burtu áður en konungsdóttirin birtist í dyragættinni, hrifin ú trölla höndum með útbreiddan faðminn móti honum.  Eftir stundarkorn birtist Kristín í dyragættinni.  Hún var vel klædd og Agli leist mikið betur á hana en hann hafði þorað að gera sér vonir um.

Þau heilsuðust með handabandi dálítið vandræðaleg og þögðu svo bæði litla stund.  Egill vafði písksólinni um höndina og leit niður á tærnar á sér.  "Hem", hann ræskti sig og reyndi að leita að viðunnandi orðum til þess að ávarpa með, sína örlagadís, sem stóð þarna keiprétt fyrir framan hann og beið átekta, sýnilega óþoli móð yfir þessu seinlæti.  "Kannski þú viljir ganga með mér hérna - hem - hérna út fyrir bæinn" sagði Egill og þurrkaði svitadropana af enni með handarbakinu.  "Ekki finnst mér veðrið svo leiðinlegt að það ætti að vera nein afsökun" sagði Kristín og strunsaði út fyrir bæjarvegginn, með Egill í eftirdragi.  "Það er nú sú blessuð blíðan þessa dagana".  "Já, það liggur við að vorgleðin sé farin að verka á mann" sagði Egill.  "Það liggur við að blessað vorið fylli mann nýrri lífsgleði þegar það kemur svona óvænt og indælt beint í flasið á manni" sagði Kristín.  Egill tók ofan pípuhattinn og velti honum vandræðalega fyrir sér, hann vissi ekkert hvernig hann ætti að hefja bónorðið.  Engin rökrétt hugsun gat stöðvast í hausnum á honum og hann fékk suð fyrir eyrun.  Í örvæntingu sinni hvarflaði hann augunum upp til fjallsins, eins og hann vænti stuðnings frá þessum bröttu og hrikalegu hamrabeltum, sem slúttu fram eins og þau væru tilbúinn að kasta sér niður í dalinn og merja allt sundur bæði dautt og lifandi, sem fyrir þeim yrði.  "Hem"  Egill ræskti sig, "mikið skelfing er fjallið bratt og hrikalegt hérna fyrir ofan".  "O já, það er stundum erfitt viðfangs" sagði Kristín.  "Verða ekki hundarni sárfættir á þessu bölvaða eggjagrjóti þegar verið er að smala á vorin" sagði Egill og ók sér öllum til.  "Ó jú, þeir verða stundum blóðrissa á fótunum aumingjarnir" sagði Kristín og strauk hendinni yfir augun.  "Það er síst að undra það" sagði Egill og færið sig nær Kristínu.

"Á ég að segja þér dálítið skrýtið Kristín".

"Já góði gerðu það".

"Ég ætla að fara að búa í vor".

"Búa?"

"Já - há, ég er búinn að taka Háls á leigu".

"Nú - ú".

"Já, ég á töluvert bú, ég á fjörtíu og tvær ær, tvo hrúta og einn gemling, hefði átt þrjá gemlinga ef pestin hefði ekki drepið annan og refurinn hinn.  Nú svo á ég tvo hesta, já eða öllu heldur tvö hross og hund.  Svo er ég búinn að fá loforð fyrir ágætis belju, alveg fyrirmyndar mjólkurkú, skal ég segja þér, þetta finnst mér vera töluvert bú til að byrja með".

"Ó já, margur hefur nú byrjað með minna og komist vel af" sagði Kristín og horfði dreymandi augum niður dalinn í áttina til heiðarinnar.  Nú vissi Egill ekkert hvað hann ætti að segja.  Hann var komin í hreinustu vandræði, ef hann hefði vitað þegar hann fór á stað að það væri slík eldraun að biðja sér konu, þá hefði hann aldrei hætt sér út í þetta ferðalag.  Í örvæntingu snéri hann sér að Kristínu og féll á kné fyrir henni, orðin hrutu út úr honum án þess að hann gerði sér ljósa grein fyrir hvað hann sagði.  "Ég veit að þú hatar mig Kristín".

"Er það - vil" sagði aumingja Kristín yfir sig hissa.

"Gætir þú þá hugsað þér að eiga mig" sagði Egill með grátstaf í kverkunum.

"Ja þó það nú væri" sagði Kristín og lagði handleggina um hálsinn á honum og ýtti honum niður á rassinn.

"Hva - að á ég að nú að - að gera" stundi Egill og baðaði út höndunum.

"Kyssa mig auðvitað maður" sagði Kristín sem brölti upp í fangið á honum og rak honum rembings koss.

Agli varð svo bilt við, við hin rösklegu blíðuatlot Kristínar að hann missti jafnvægið og valt aftur yfir sig með Kristínu í fanginu.  Því miður var töluvert bratt frá bæjarveggnum niður að götunum sem lágu frá bænum upp á aðalveginn, en sem betur fór var brekkan stutt svo Egill fór ekki nema fjórar veltur með Kristínu hljóðandi í fanginu, áður en hann stoppaði í karlmannlegum stellingum í fyrstu götunni.  Hann lá hreyfingarlaus, eins og hugurinn væri fjarri stað og stund og sýndi engin merki þess að hann ætlaði að stand á fætur.  Kristín ýtti óþoli móð á brjóstið á honum og sagði "Ætlarðu ekki að stand á fætur maður, hvað ertu eiginlega að hugsa?"

"Ég? - hem - um brúðkaups nóttina".

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband