Rjúpan (svona í tilefni jólanna)

  Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976

RJÚPAN

 

 

     Þeir félagar, Gunnlaugur og Beinteinn voru snemma á fótum þennan morgun.  Gunnlaugur hafði frétt það hjá nágranna sínum, Birni á Gili, að það væri mikið af rjúpum um þessar mundir upp í Herjólfsdal, svo mikið að annað eins hefði ekki sést í manna minnum.

     Þeir réðu því ráðum sínum, kvöldið áður og ákváðu þá að leggja af stað snemma um morguninn og veiða mikið.

     Þeir hömuðust við það kófsveittir, fram á nótt að fægja fram hlaðningana sína, sem þeir höfðu ekki snert í mörg ár.  Smíða nýja hlaðstokka, fylla púðurhornin og búa til högl sem nægðu til að stoppa upp heila herdeild.

     Ekki mátti skotfærin vanta þegar á hólminn kæmi og allt varð að vera í stakasta lagi, það var ekki víst að þeir hefðu mikinn tíma til snúninga því eftir útlitinu að dæma þá mundu þeir róa mest á sama blettinum og gera ekki annað en að skjóta og skjóta allan daginn fram í myrkur.

     Ef nokkuð væri að reiða sig á það sem Björn hafði sagt, yrði veiðin alveg gífurleg, svo mikil að þeir gætu aldrei borið hana heim, þess vegna ákváðu þeir að taka með sér sleða þó að færið væri slæmt, því tveir menn gátu dregið töluvert mikið á einum sleða.

     Björn hafði sagt Gunnlaugi það að hann hefði rölt þarna upp eftir fyrir forvitnis sakir, seinni partinn daginn áður og haft aðeins tíu skot með sér.  Á þessi tíu skot hafði hann fengið fimmtíu og átta rjúpur og rotað svo tvær með hlað­stokknum, því þær hefðu verið svo gæfar að nærri hefði legið við að væri hægt að taka þær með berum höndunum.  Ef myrkrið hefði ekki skollið svona skyndilega á hefði hann haldið áfram og rotað fleiri.

            Þetta var nú reyndar dálítið ótrúlegt en veiðihugurinn og gróðamöguleikarnir ýttu undir Gunnlaug og gáfu honum trúna.  Það væri ekki aldeilis amalegt, svona rétt fyrir jólin, að skjóta nokkur hundruð rjúpur og fá kannski allt upp í átta aura fyrir stykkið Björn hafði líka látið það fylgja sögunni, að danskurinn væri gráðugur í rjúpu og gæfi vel fyrir hana í jólasteikina.

            Þegar þeir voru búnir að fá sér matarbita, stakk Gunnlaugur upp á því að þeir skyldu hlaða byssurnar áður en þeir héldu af stað.  Það fannst Beinteini heillaráð.  Það gat svo sem vel verið, á svona langri leið eins og upp í Herjólfsdal, að þeir hittu eitthvert slangur á leiðinni og þá væri betra að geta hleypt af fyrirvaralaust.

            Þeir héldu af stað með hlaðnar byssurnar og uppspenntar, Gunnlaugur gekk á undan með sína reidda um öxl og snéri hlaupinu aftur, svo það stemmdi beint á hausinn á Beinteini, sem gekk álútur á eftir og dró sleðann.  Hann hafði sína byssu einnig reidda um öxl, en nokkuð á annan veg, því hjá honum sneri hlaupið fram og stemmdi beint á miðjan bakhluta Gunnlaugs.

            "Skyldum við fá margar rjúpur í dag Gunnlaugur" sagði Beinteinn, þegar þeir voru komnir skammt upp fyrir bæinn.

            "Ó ég veit ekki lagsmaður" sagði Gunnlaugur "það er ekki gott að segja svona áður en maður sér nokkra rjúpu.  En ég held að við ættum að geta fengið einar hundrað og sextíu til tvö hundruð hver, eftir því sem Björn fékk í gær, hann hefur aldrei farið til rjúpna fyrr, frekar en við og ég held fyrir mína parta að hann sé alls ekki betri skytta".   "Þar er ég nú á sama máli" sagði Beinteinn.  "Ekki virtist hann að minnsta kosti rista djúpt í skotfiminni, þegar hann ætlaði að skjóta hundinn fyrir prestinn í fyrra, því eftir því sem ég hef heyrt meðtók söðull maddömunnar innihaldið úr byssunni og varð víst ekki sérlega gott af, því maddaman hefur ekki sést á hestbaki síðan, að minnsta kosti.  En nokkuð er það að hundurinn lifir enn, við bestu heilsu, að séð verður, þó gamall sé".

            Ert þú viss um Gunnlaugur að rjúpurnar hafi verið sextíu, en ekki sex?

            Hann sagði sextíu, hvort sem hann hefur logið því eða ekki, annars sagðist hann geta svarið það að þetta væri alveg satt.

            Það vildi ég að þú hefðir sótt Biblíuna og látið helv.... sverja "sagði Beinteinn" það væri ekki óþokkalegt eða hitt þó heldur, ef hann væri að ljúga að okkur og narra okkur alla þessa leið ekki til nokkurs hlutar.

            "Hvað ætti honum að koma til að vera að ljúga að okkur" sagði Gunnlaugur.

            "Ó" sagði Beinteinn "það gat nú svo sem verið að hann hefði asnast þarna upp eftir og komið  svo gott sem með höglin í rassinum til baka aftur.  Honum mundi þá kannski þykja nokkur sárabót að því að geta gabbað okkur líka.

            Ég trúi öllu upp á hann síðan hann hengdi fyrir mér köttinn um árið, mér finnst það svo lúalegt ekki síst af því hann vissi að ég átti engan annan kött og engan annan kött að fá um þær mundir og mýsnar óðu uppi einmitt þennan vetur eins og engilsprettufaraldur, lögðust á sauðfé auk heldur annað.  Nei honum þótti betra að láta mig berjast við þær einan, heldur en að una mér þess að eiga köttinn, svona geta nú sumir menn verið einkennilega innrættir".

            Ójá "sagði Gunnlaugur" en ég er nú hálf hræddur um að Birni hafi fundist hann eiga eitthvað inni hjá þér, ja svona eins og fyrir kettinum að minnsta kosti.  "Hjá mér" öskraði Beinteinn. "Nei hann á ekkert hjá mér og hefur aldrei átt, að mér heilum og lifandi".  "Ert þú nú alveg viss um það" "ha" sagði Gunnlaugur og glotti út í annað munnvikið "ég er nú samt hræddur um að honum finnist annað".  "Já það er ég alveg viss um" sagði Beinteinn fast mæltur "hvað ætti það svo sem að vera".

            Gunnlaugur ók sér lítið eitt til í herðunum, leit aftur fyrir sig á Beintein sem var farinn að hallast óþarflega mikið fram á við og sagði, "ja hérna hem.  Nefnilega sko, hann álítur að þú hafir verið eitthvað að kúvendera til kerlinguna fyrir sér".

            "Kúvendera - ég -kerlinguna" Beinteinn tókst á loft af vonsku.  "Því lík andsk..... lygi.  Hver sagði þetta?  Ég heimta sögumann: Ég kæri".

            "Það hefur enginn haldið þessu fram nema Björn, Beinteinn minn, við sem þekkjum þig vitum að þetta er lygi.  En Birni dettur nú margt vitlaust í hug sem engin leggur trúnað á". "Já hann má vara sig sá þrjótur" sagði Beinteinn" ef hann ætlar að leggja það í vana sinn að ljúga upp á mig allslags óhroðasögum, þá skal ég einhvern tímann jafna svo um gúlan á honum að hann opni hann ekki í nokkra daga, að minnsta kosti ekki til þess að bera út óhroðasögur um mig.

            Þeir gengu þegjandi það sem eftir var upp í dalsminnið, án þess að verða varir við eina einustu rjúpu.  Þar tylltu þeir sér niður og réðu ráðum sínum, hvernig haga skildi veiðiferðinni.  Gunnlaugur lagði það til málanna að þeir skildi sleðann þarna eftir og skiptu sér.  Hann færi að austan en Beinteinn að vestan og svo mættust þeir fyrir miðjum botni, ef á annað borð þeir kæmust svo langt fyrir rjúpum.  En ef það yrði nú ekki, þá skildu þeir reyna að rogast með sem mest af herfanginu til sleðans aftur.  Hitt yrðu þeir svo að grafa í fönn og merkja vel staðinn, sækja það svo daginn eftir og hafa þá hest meðferðis.

            Þeir voru báðir prýðilega ánægðir með þessa skipulagningu, héldu af stað glaðir og reifir með óyggjandi sigurvissu í kollinum.

            Færið var erfitt og ferðin gekk seint.  Þeir skimuðu í allar áttir og hlustuðu, renndu haukfránum augunum yfir endalausa fannbreiðuna og urðu einskis varir.  Laust fyrir myrkur mættust þeir í botni dalsins, bæði slæptir og reiðir.

            "Þarna sér maður hvað mikið er að marka hann Björn" sagði Beinteinn og skimaði í allar áttir.  "Ég hef ekki svo mikið sem heyrt í einni einustu rjúpu auk heldur séð, ég er hræddur um að þér hefði verið nær Gunnlaugur karlinn að taka ekki allt trúanlegt sem hann laug í þig í gær".

            Það var farið að þykkna í Gunnlaugi, honum fannst satt að segja að hann væri búinn að fá nóg þennan daginn þó Beinteinn færi ekki að brýxla honum einum um það sem var þeim báðum að kenna.  "Hvers vegna varst þú að fara í þetta ferðalag fyrst þú vissir að þetta var allt saman lygi".  "Af því að þú" Beinteinn hætti skyndilega við setninguna, hann heyrði greinilega vængja þyt.  "Heyrirðu" sagði hann með öndina í hálsinum af spenningi og greip í handlegginn á Gunnlaugi.  Tvær rjúpur komu fljúgandi og tylltu sér framan í hólbarðið, skammt fyrir framan þá.

            "Ja svei mér þá" hvíslaði Gunnlaugur.  Þeir köstuðu sér báðir flötum og miðuðu byssunum.

            "Þú skýtur þessa en ég hina" hvíslaði Beinteinn.  "Já " Sagði Gunnlaugur "ertu til". "Já, einn tveir og þrír.  Þeir hleyptu báðir af í einu, önnur rjúpan flaug en hin lá eftir öll sundur tætt.

            "Mikill bölvaður klaufi ertu að hitta ekki maður" sagði Gunnlaugur.

            "Ég" sagði Beinteinn "þetta er rjúpa sem ég skaut, það ert þú sem ert bölvaður klaufi og hittir ekki".  "Ég held nú ekki" sagði Gunnlaugur "þú sagðir mér að skjóta þessa rjúpu".

            "Nei ég sagði þér að skjóta hina" sagði Beinteinn.

            "Ó nei" sagði Gunnlaugur "þú sagðir skjóttu þessa ég skal skjóta hina, það voru þín óbreyttu orð, nú og svo veit ég náttúrlega sjálfur best hvað ég skýt".  "Já ég sagði það" sagði Beinteinn "en þessi var hin og ég skaut á hana.

     "Hvernig heldurðu að þessi geti verið hin, þegar hin er flogin" sagði Gunnlaugur.  "Nei góði maður, þú þarft ekki að ímynda þér að þú fáir mig til þess að trúa svona bölvaðri vitleysu, því auðvita er þessi, þessi og hin, hin".

            "Heldur þú kannski að þú vitir betur en ég hvað ég meina" Hvæsti Beinteinn út úr sér.  "Ég meinti að þessi væri hin og hin væri þessi, þess vegna skaut ég á þessa en ekki á hina.  Þér hefði verið nær að reyna að skilja það betur sem ég sagði, þá hefðum við haft báðar rjúpurnar".

            Það var farið að síga í Gunnlaug, hann langaði mest af öllu til þess að hella yfir Beintein óbóta skömmum, en hann reyndi þó að stilla sig eftir megni og sagði:"Ég held að þér hefði verið nær að tala skírar, ef þú hefðir sagt mér að skjóta þá efri þá hefði ég gert það, en ekki þessa".

            "Það var ég sem skaut þessa" sagði Beinteinn og gekk að rjúpunni og tók hana upp.  Að því búnu hlóð hann byssuna aftur, lagði af stað niður dalinn og gekk rösklega.  Hann hélt á rjúpunni í annarri hendinni, hafði byssuna reidda um öxl og snéri hlaupinu aftur.

            Gunnlaugur hlóð líka sína byssu og gekk stutt á eftir honum, þegar þeir komu niður í miðjan dalinn var tekið að bregða birtu, þó en skotljós.  Beinteinn hélt enn sama hraða og æddi áfram án þess að líta til hægri eða vinstri.

            Allt í einu flugu nokkrar rjúpur upp rétt framan við tærnar á honum.  Honum varð svo mikið um þetta, að hann hrökk aftur á bak og datt á rassinn, en um leið hljóp skot úr byssunni rétt framhjá hausnum á Gunnlaugi.  Stóreflis rjúpu hópur flaug upp stutt fyrir framan þá og leið burtu eins og stórt ský fram dalinn.  Gunnlaugur stóð ringlaður og utan við sig og horfði löngunar augum á eftir rjúpunum, hann hafði ekki einu sinni haft sinnu á því að reyna að skjóta, þegar þær flugu framhjá.  Svo áttaði hann sig allt í einu, hann sá það í hendi sinni að ef hann hefði skotið á hópinn hefði hann hæft að minnsta kosti fjórar eða fimm, kannski fleiri.

            Þetta var allt saman Beinteini að kenna ef hann hefði ekki hleypt skotinu úr byssunni svo gott sem í hausinn á honum, þá hefði hann aldrei komist úr jafnvægi.  Hann hafði aldrei vitað aðra eins framkomu hjá nokkrum manni fyrr, fyrst að rífa af sér rjúpuna, sem hann skaut svo að sýna sér morðtilræði og svipta sig um leið því eina tækifæri sem hann hafði, til þess að ná sér í fleiri rjúpur.

            Gunnlaugi fannst í sannleika sagt varla vera hægt að ganga lengra í mannlegri ódyggð, hann æddi til Beinteins sem var að klöngrast á fætur.

            Þú dettur sjálfsagt ekki á þennan veginn þegar þú hittir kerlinguna hans Björns næst, skyldi maður ætla, þú ætlar náttúrlega að gefa henni rjúpuna þá arna í ómakslaun, þess vegna hefur þér verið svona mikið kappsmál að ná henni þó að þú ættir hana ekki, því það skaltu vita karlinn minn að það var ég sem skaut hana en ekki þú, og þetta er mín rjúpa en ekki þín.  Annars fyndist mér það eðlilegra að þú létir Björn hafa annan kött til að hengja, en værir ekki að stela rjúpum frá mér, því nú átt þú þó nóg af köttunum.

            Beinteinn varð svartur í framan af reiði, hann æddi að Gunnlaugi og reiddi upp rjúpuna.

            "Ég kæri þig fyrir meiðyrði og tilraun til að stela frá mér rjúpunni, því það var ég sem skaut hana".

            "Nei því lýgur þú eins og þú ert langur til" öskraði Gunnlaugur "þú hefur aldrei skotið neitt nema þessa einu kerlingu, eins og hún er þó líka geðsleg eða hitt þó heldur.  Að minnsta kosti hefur þú aldrei skotið á neitt sem hefur legið nema hana, það er eitt sem er ábyggilegt".

            "Þú skalt verða að standa við þetta fyrir sýslumanni" hvæsti Beinteinn út úr sér "og tukthúslimur skaltu verða áður en vorið gengur í garð því skal ég lofa þér.  Saman við þessa kerlingu, hef ég aldrei haft neitt að sælda, slíkt er bara lygi og uppspuni úr þér og þínum líkum, sem eruð svo óráðvandir að reyna að spilla mannorði annarra og gera það eins svart eins og ykkar eigið".  Beinteinn snéri sér við og bjóst til að halda heimleiðis.

            Gunnlaugur leit glottandi á hann og sagði. "Hvað voru þið að gera í hlöðunni á Gili fyrsta daginn í jólaföstu, þegar Björn var í kaupstaðnum? segðu mér það".

            "Ég var alls ekki í neinni hlöðu fyrsta daginn í jólaföstu lygalaupurinn þinn" svaraði Beinteinn.  "Ég var heima þá og alla daga um það leiti".  "Jæja einmitt það" sagði Gunnlaugur "ég er nú hræddur um að Grímsi í Gerði sé ekki alveg á sama máli, eftir því sem hann sagði mér að minnsta kosti".

            "Nú hvað sagði hann þér svo sem" hreytti Beinteinn út úr sér.  "O-o" sagði Gunnlaugur "það var nú lítið meira en ég vissi fyrr, ja- hann sagði að Siggi og hann hefðu læðst inn í húsið og skriðið inn í tóttardyrnar, því þar hefðu þeir bæði getað séð og heyrt það sem fram fór, en svo hefði Sigga orðið á að reka annan fótinn í garðstokkinn, svo í hefði hvinið all hátt, þá fór sú gamla að ókyrrast, því að þeir heyrðu þá að þú sagðir, Beinteinn karlinn.  "Vertu róleg Jóhanna, það er bara kötturinn að klóra".  Beinteinn hóf upp rjúpuna og henti henni beint framan í andlitið á Gunnlaugi, svo tók hann á rás áleiðis til byggða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband