24.2.2008 | 19:32
MEÐ VINSEMD OG VIRÐINGU
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
MEÐ VINSEMD OG VIRÐINGU
Snjólfur bóndi Meyvantsson á Snýtu, var að enda við að láta inn fénaðinn, þegar strákur sonur oddvitans í sveitinni kom gangandi heim að fjárhúsunum til hans og gekk rösklega eins og mikið lægi við.
"Komdu sæll Snjólfur" sagði hann og tók bréf upp úr vasa sínum og fékk honum, "pabbi vað mig að fá þér þetta bréf". "Komdu sæll drengur minn" urraði Snjólfur, "viltu ekki doka við meðan ég fleygi í ærnar, koma svo heim með mér og fá þér eitthvað í sarpinn á meðan ég stauta mig fram úr bréfsneplinum, svo að þú getir tekið svar með þér til baka".
"Nei þakka þér fyrir", sagði strákur, "ég þarf að flýta mér, vertu sæll". Svo tók hann á rás eins og hann ætti lífið að leysa, suður mýrarnar aftur. Orðin sem faðir hans hafði sagt við hann, áður en hann lagði af stað að heiman, hljómuðu fyrir eyrunum á honum eins og jarðarfara tónlist, þau gáfu honum liðugri fætur og sterkari vilja til þess að nota þær til hin ýtrasta.
Hann linnti ekki á sprettinum fyrr en bærinn var komin í hvarf, og hann var öruggur með það að sér væri ekki veitt eftirför, þá tyllti hann sér niður á þúfu og hafði orðin upp í hálfum hljóðum aftur og aftur. "Ef þú ferð ekki áður en karlinn les bréfið þá snýr hann þig úr hálsliðnum".
Snjólfur stóð á hlaðinu framan við fjárhúsin og horfði forviða á eftir stráksa, hann skildi ekkert í þessu bölvuðu írafári sem hefði gripið hann, það var engu líkara en hann hefði séð sjálfan myrkrahöfðingjann gægjast út um einhvern fjárhúsgluggann, "já svona var nú kastið á honum - puff -". Snjólfur hristi höfðið og labbaði inn í fjárhúsin, hann settist á garðastokkinn, reif upp bréfið og byrjaði að stafa sig fram úr því.
Honum sóttist verkið bæði seint og illa, því hann var ekki vanur að eyða tímanum í svoleiðis dedúi og dast, eins og lestur, það fannst honum ekki geta samrýmst búskapnum. En þrátt fyrir það, þekkti hann samt alla stafina og hafði meira að segja komist upp á það að skrifa nafnið sitt, einu sinni fyrir löngu síðan, jafnvel þó engin gæti lesið það nema hann sjálfur, hann stóð líka betur að vígi heldur en margir aðrir, hann þekkti höndina sína og vissi að það gat ekki verið annað en nafnið hans.
Þetta fannst Snjólfi næg menntun og meira en það, hann hafði komist vel af fram á þennan dag og það betur en margur annar, þeir voru ábyggilega færri sem áttu eins margar kringlóttar í kistu handraðanum. Snjólfur brosti með sjálfum sér, þegar honum varð hugsað til kistuhandraðans og skinnpokans með gullpeningunum.
Það var hans besta skemmtun, eftir erfiðan dag,þegar kerlingin var komin í fjósið með rollingana hangandi í pilsunum, að opna kistuna sína, taka upp úr henni pokann með gullpeningunum, hella þeim á borðið og telja þá vel og vandlega, velta þeim til og frá í lófa sínum og láta þá síðan renna milli fingranna niður í pokann aftur. Því lík sæla - því líkur unaður. Stundum bar hann síðasta peninginn upp að vörunum sér og kyssti hann að skilnaði áður en hann batt fyrir pokann aftur og lokaði kistunni. Eftir því sem Snjólfur las meira af bréfinu sigu brúnirnar neðar og svipurinn dökknaði, hendurnar skulfu og hann tók að berja til öðrum fætinum.
Bréfið hljóðaði eitthvað á þessa leið:
Samkvæmt margendurteknum aðvörunum, viljum vér enn taka það fram að ef þér, Snjólfur Meyvantsson bóndi á Snýtu, gerið ekki þegar að fullu skil á téðu útsvari að upphæð kr. 32,50-, þrjátíu og tveimur krónum og fimmtíu aurum, fyrir þrítugasta nóvember næst líðandi, neyðumst vér til að taka lögtak hjá yður, á yðar eigin hlaupandi peningi. Samkvæmt lögum hans hátignar, Danakonungs um innheimtu ógoldinna skatta.
Með vinsemd og virðingu
fyrir hönd hreppsnefndar
Oddviti
Snjólfur reif bréfið í tvennt og þeytti því frá sér, "jáhá með vinsemd og virðingu. Ekki vantar nú vinsemdina, að taka manns eigin hlaupandi pening upp í greiðslu á ólöglegu útsvari og virðingin væri líklega í þeirra augum að fá að borga sem mest, þeir hefðu átt að veita sjálfum sér þá virðingu, það hefði staðið þeim nær, heldur en að vera að troða henni upp á menn sem ekkert kærðu sig um hana. Nei, þeir pössuðu sig, þeir karlar, með að borga ekki of mikið sjálfir, en að pína aðra í rauðan dauðann, það væri nú svolítið annað, þá skorti nú ekki konungshollustan hjá þeim þokka piltunum".
"Tuttugu og fimm krónur, það hefði verið viðunandi, eins og þeir lögðu á Jón í Gröf, en þrjátíu og tvær og fimmtíu, það var hreinasta svínarí, sjö krónum og fimmtíu aurum meira en þeir höfðu nokkur leifi til að leggja á hann. Hvern fjandann vissu þeir hvort hann ætti nokkuð í kistuhandraðanum eða ekki? Nei ónei, ekki hafði hann fengið þá til að telja fyrir sig peningana og mundi seint gera".
"Ekki nema það þó, taka lögtaki eftir tvo daga. Það vantaði ekki bíræfinna í þessa bölvaða þrjóta, ne hey, og síst vægara að vænta úr þeirri átt".
"Hann mundi svo sem vel eftir því hvernig þeir fóru með hann Gísla garminn á Mýrarkoti um árið,tóku af honum einu kúna sem hann átti, bláfátækum ræflinum og skildu hann svo eftir bjargarlausan, með fullt hús af börnum, neituðu honum svo um sveitarstyrk, þó allt væri að drepast úr hungri". "Því líkir menn".
"Nei sveitarstyrk fær enginn,fyrr en hann er dauður, en þá verður hreppurinn að sjá fyrir kerlingunni og krökkunum".
"En krónu skyldu þeir ekki fá þeir djöflar, ekki eyri, fyrr skyldi hann hengja sig, - hja hengja sig það væri ekki svo vitlaust, það var eiginlega eina færa leiðin sem hægt var að fara". "grafa gullið og hengja sig", "þá sæju þeir það kannski að það þýddi lítið fyrir þá að vera að þverkallast við Snjólf Meyvantsson, Hann færi sínu fram hvað sem þeir segðu". "Þá fengju þeir líka kerlinguna og krakkana á hreppinn í staðin fyrir þrjátíu og tvær og fimmtíu".
"Tja það yrði ekkert rusl að sjá framan í smettin á þeim, þegar þeir kæmu að taka lögtakið og kerlingin sýndi þeim skrokkinn bláan og ný hengdan sem starði blóðhlaupnum augum, eins og hann vildi segja "takið þið nú þrjátíu og tvær og fimmtíu með vinsemd og virðingu". Snjólfur rak upp tryllingslegan hlátur það hlakkaði í honum yfir þeirri tilhugsun, hvernig hreppsnefndinni yrði við, þegar hún sæi hæsta gjaldanda hreppsins nýhengdan, vitandi það að þeir fengju kerlinguna og átta krakka á sveitina. Þarna væri leiðin til að velgja þeim einu sinni duglega undir rifjunum, hefnd sem þeir myndu þurfa að dúsa undir árum saman.
Hann stökk á fætur, hljóp heim og beint inn í baðstofu, konan og krakkarnir voru frammi í eldhúsi og urðu ekki vör við komu hans. Hann gekk að kistunni og opnaði hana, tók pokann með gullpeningunum og hélt aftur til fjárhúsanna og tyllti sér á garða stokkinn. Hann opnaði pokann og hellti úr honum í kjöltu sína og virti fyrir sér gullpeningana í síðasta sinn.
Það kom tár fram í augun á honum, við þá tilhugsun að fá aldrei að snerta framar þessa dásamlegu gullpeninga, sem höfðu svo oft hlýjað honum um hjartaræturnar á undan förnum árum, en það var strax bót í máli, að enginn annar myndi njóta þeirra eftir hans dag.
Hann fór að tína þá aftur upp í pokann, einn og einn, hann fór hægt og þuklaði þá vel og vandlega og bar þá upp að vörum sér að skilnaði.
Hann gat ekki hugsað sér að skilja við þá fyrir fullt og allt. Hann ætlaði að vaka yfir þeim eftir að hann væri dauður, passa þá´svo vel að enginn, enginn lifandi maður fengi að snerta þá.
Hann ætlaði að breyta sér í dreka eins og gömlu mennirnir gerðu áður fyrr, liggja á þeim og spúa eldi og brennisteini yfir þá sem dirfðust að reyna að leita að þeim.
Hann tók reku, gróf djúpa gryfju niður í króna og lét pokann síga gætilega niður í hana ásamt nokkrum skilnaðartárum. Síðan mokaði hann yfir og gekk svo vel frá að engin vegsummerki sáust eftir raskið.
Snjólfur þurrkaði sér um augun og litaðist um í fjárhúsunum. "Hvað í þreifandi, hann hafði gleymt að taka með sér reipisspotta, það var nú verri sagan að þurfa að fara heim aftur".
Hann gekk áleiðis til dyranna. Hrúturinn sem var innst inni í krónni rak bylmingshögg í garða stokkinn. Snjólfur leit við, það var alveg rétt, það var ekki annað en að leysa hrútinn og nota bandið af honum, þá þurfti hann ekki heim.
Nei það var annars ómögulegt, hann mundi mölva spilið og fara fram til gimbranna, það væri svo sem ekkert glæsilegt að fá lömb seinnipart vetrar og það undan gimbrum.
En hvern fjandann kom honum það við, var það ekki hreppsnefndarinnar að sjá um það? Jú áreiðanlega, ekki færi hann að skipta sér af því, þeir mættu víst gjarnan fá nokkrar snemmbæra gemlinga fyrir sér, ekki ætlaði hann að skipta sér af því, fyrst þeir endilega vildu það.
Snjólfur rak upp rokkna hlátur. Það yrði sannarlega gaman að sjá oddvitann, þetta akfeita svín vera að eltast við lambær seinnipartinn í vetur. Þá skyldi Snjólfur Meyvantsson hlæja - skellihlæja. Hann sneri sér við og labbaði inn til hrússa og fór að leysa af honum bandið.
"Nú skaltu fara framfyrir og skemmta hreppsnefndinni lagsmaður, þér verður víst ekki skota skuld úr því að mölva spilverkið það arna ef ég þekki þig rétt. Brjóttu það bara nógu smátt svo hreppsnefndin verði að kaupa við í nýtt spilverk, því ekki finna þeir næga rafta hér á Snýtu brúklega. Það er annars best að ég fái þennan hérna", Snjólfur losaði gamlan fúaraft úr spilverkinu og gekk upp í hlöðuna. Hann klifraði upp á heyið, rak annan endann á raftinum í vegginn yfir geilinni, en lét hinn hvíla á stabbanum. Svo batt hann öðrum reiptagls endanum utan um miðjan raftinn, gerði lykkju á hinn og smeygði um hálsinn á sér.
"Faðir vor þú sem er á himnum."
"Nei fjandinn hafið það, maður sem ætlar að fremja sjálfsmorð á ekki að biðja fyrir sér eða lesa faðirvorið, það er hreint ekki viðeigandi, það yrði aðeins til þess að spilla fyrir manni í hinum staðnum".
Snjólfur lagfærði lykkjuna um hálsinn á sér og lét sig falla fram af stabbanum.
"Æhjæj - hvílíkur andsk.....höfuðverkur, hvað hefur komið fyrir mig og hvar er ég?" Snjólfur opnaði augun og leit í kringum sig. "Myrkur - eintómt myrkur - ekkert nema kolbrúnt þreifandi helvítis myrkur - . Ég er þó líklega ekki dauður. Nei það getur varla verið ég þá ekki svona mikið til -. Úff - púff ég hlýt að vera stórslasaður, það blæðir úr hausnum á mér". Hann þreifaði með hendinni upp í hausinn og snéri honum lítið eitt til um leið og sárkenndi til í hálsinum. "Æ, æ, æ, ég er þó ekki hálsbrotinn líka?" kveinkaði hann og greip um hálsinn. "Hvað er nú þetta? Reiptagl, hvernig stendur á þessu öllu saman, hvað hefur komið fyrir mig"? Einhver ógreinilegur hávaði barst honum til eyrna, einna líkastur því að dans væri stiginn af mörgum fótum í órafjarðlægð. Snjólfur hlustaði. Traðkið magnaðist og nú heyrði hann það mjög greinilega. Hvað gat þetta verið? Enginn dansaði án þess að hafa músík. Nú hætti það aftur, þetta var undarlegt.
"Mehegg" þessi snöggi gimbrajarmur vakti hann til meðvitundar um hvað hafði gerst og hvað væri að gerast.
Sjálfsmorð -. Hrúturinn -. Gimbrarnar -. Útsvarið -. Hreppsnefndin, allt þetta hringsnerist í hausnum á honum hvað innan um annað.
Hann staulaðist á fætur, þetta dugði ekki, hrúturinn mátti ekki gera meira af sér en orðið var. Hann smeygði lykkjunni af hálsinum og þreifaði á spýtunni, hún var brotinn sundur. "Það er hún sem hefur bilað, bölvuð tófan" sagði hann og þreifaði upp hausinn á sér þar sem sprungan var eftir höggið. "Ég var heppnis maður að hún drap mig ekki, það hefur þá sannarlega legið nærri".
Hann tók reiptaglspottann og staulaðist fram í húsin. Hann kom alveg mátulega fram í tóttardyrnar, til þess að vera vitni af því þegar ein fallegasta gimbrin hans breyttist í lífsreynda á.
"Bölvaður hrappurinn, það verða þokkalegar afleiðingar af þessu athæfi þínu hrútsskömm", hann þreif í hornið á hrússa og dröslaði honum inn fyrir spilverkið, sem var alt mölvað.
Nú kom reiptaglið aftur í góðar þarfir, hann batt hrútinn við innstu stoðina, svo rammlega að hann gat alls ekki lagst.
"Þetta skaltu hafa þorparinn þinn fyrir öll þau óþægindi sem þú ert búinn að gera mér, þú hefðir verið hæfilegur í hreppsnefnd, með slíka artir og innræti - þokkapeyinn, þarna skaltu fá að dúsa til morguns og kannski lengur".
Snjólfur tók rekuna og gróf upp fjársjóðinn, hann hellti úr skinnpokanum og taldi peningana, jú þeir voru allir og það var þó fyrir mestu.
Hann hneppti frá sér, stakk pokanum inn á bera bringuna og hélt heim. Kerlingin þeytti rokkinn af miklu kappi þegar Snjólfur kom inn í baðstofuna. "Hvað er að sjá þig maður" sagði hún "þú er allur marinn og blóðugur".
"Ojá það datt spýta ofan í hausinn á mér" svaraði Snjólfur rólega.
"Varla hefur þú bólgnað svona á hálsinum af því" sagði kerlingin. "Ojú þetta var engin smáræðis spýta, hálsinn kíttaðist svo þrælslega saman við höggið að ég hélt lengi að ég væri hálsbrotinn, en svo upptvötaði ég það að ég hefði bara farið úr hálsliðnum". "Nú - hvernig gastu þá kipp honum í liðinn aftur"? "Aftur já" sagði Snjólfur og strauk hendinni yfir ennið. "O - ég stakk bara hausnum á milli plankanna í hrússa spilinu og spyrnti í með fótunum og höndunum, svo vatt ég mér til, þá hrökk ég í liðinn aftur, en spilið brotnaði, þetta voru ekki nein smáræðis átök skal ég segja þér kelli mín". Snjólfur gekk að koffortinu og opnaði það, hann lét pokann niður og tók hann svo upp aftur. "Ég verð víst að borga þetta bölvaða útsvar, það er ekki um annað að gera, en út úr mér skulu þeir aldrei fá meira en þrjátíu og tvær krónur
Bloggvinir
Eldri færslur
2020
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Og ekki var þessi síðri.
Hallgrímur Guðmundsson, 24.2.2008 kl. 20:30
Takk fyrir það
Hilmar Guðmundsson, 25.2.2008 kl. 00:00