Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
18.9.2007 | 12:30
59. Ljóð Vaðið
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.041976
VAÐIÐ
Ég held að þjóðin vakni til vitundar um það,
að vorið sé að halda innreið sína.
Við brotið fjærri álnum við eygjum vonarvað,
vörðum staðinn, látum blakkinn hvína.
En þó á bógnum brjóti og byltist klakahröngl,
Blakkurinn mun vaða í gegnum strauminn,
og flóttamannalýður hefji feigðarboðans söngl,
mun fjöldinn halda rétt og vel um tauminn.
Þótt landtakan sé erfið, er lausnin þarna samt,
og lífið okkar bíður hinu megin.
Þótt miði hægt með köflum og okkur skili skammt,
með skynsemi við finnum rétta veginn.
Hver, sem ekki finnur sitt rétta vonarvað,
mun veltast undan straumnum niður í hylinn.
Sumir missa tíman, sem fara seint af stað,
og sumir ríða beint í dýpstu gilin.
Sá einn mun taka landið, sem gegnum brimið brýst,
byltist móti straumnum nýja vegi.
Hann mun geta öðrum á leiðum sínum lýst,
uns ljóminn fer að skína af björtum degi.
18.9.2007 | 12:26
58. Ljóð Útigangar
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.041976
ÚTIGANGAR
Kvöldroðinn síðustu geislana gaf
okkar göfugu jörð þennan daginn,
gullbylgjan faðmaði himin og haf,
heillaði og ljómaði upp bæinn.
Fuglarnir sungu hinn síðasta óð
til sólar og friðsællar nætur,
þá rumskaðist fyrst okkar ruglaða þjóð
og rónarnir skriðu á fætur.
Í skítnum og slorinu ólust þeir upp,
iðandi gráir af lúsum,
rauðir í andliti, rýrir á hupp,
í rauninni líkastir músum,
með flóttaleg augu, falski á brá
og fólskulegir um trýnin.
En svo mátti tæplega á milli sjá
hvort þeir mannlegri væru en svínin.
Þeir höfðu ekki unnið um ára langt bil
og oftast nær sváfu á daginn,
en drukku sig fulla ef færi gafst til
og fóru þá snuðrandi um bæinn.
Þeir rændu úr forstofum fötum og skóm
og falt gáfu öllum sem vildu,
er birta var lítil og buddan tóm
og bognir þá skugganum fylgdu.
Körunar voru ekki krásirnar þó
sem þeir kyngdu með slefandi munnum,
af rotnuðum leifum var reyndar nóg
í rusla og ösku tunnum.
Ef bak bið hótel og höfðingjans vegg
var hent, eða losaður pottur,
um matinn þeir börðust með oddi og egg
við útlaga ketti og rottur.
Í hálfhrundum skúrræflum héldu þeir til,
(eða hímdu undir gömlum bátum,)
á sumum var tæplega þak eða þil
en þarna var sumblað með látum.
Í einhverju horninu hægðu menn sér
og höfðu það ekkert að dylja.
Misjöfn í viðbrögðum menningin er
og mannlegt að vilja ekki skilja.
Þangað komu oft þjóðfrægir menn
og þjóruðu stundum um nætur,
sagt er að einstaka sjáist þar enn
sitja við Bakkusar fætur.
Kvensniftir hænast herrunum að
því herfangið vilja þær hreppa,
þeir ríku fá næði og nætur stað,
en naumlega hinir að skreppa.
Sagt er að eitt sinn um sumar kvöld
síðbúinn mætti þar gestur,
maður sem hafði mikil völd
og mér var sagt ágætur prestur.
Hann ætlaði að hefja þar andlegt starf
og uppræta glæpi og lesti.
Menn vita að til þess meira þarf
en munninn á einum presti.
Hann sagði þeim um þetta siðalögmál
er sett var í gamla daga,
um karlmanns eðli og konu sál
og hvernig þau mættu sér haga.
Um aldingarða og Evu synd
og engla á himins tröðum,
svo dró hann upp heilmikla helgimynd
af helvíti og fleiri stöðum.
En þegar loftið er þungt og slæmt
þarf oft á hressingu að halda,
þarna bauðst staup sem hann þáði, en dræmt
og þurfti ekkert fyrir að gjalda.
En þrotlausar umræður þreyta menn fljótt
og þurrka svo raddböndin hlaupa,
því alltaf jókst presti orðagnótt
og oft var skammt milli staupa.
Lagið þeir tóku að söngmanna sið
og svo gerði einnig prestur.
Hann signdi og krossaði kvenfólkið
eins og kappsfullur stríðalinn hestur.
Mjaðarins naut og meira hjá þeim,
því manneðlið enginn heftir.
Kom síðan blindfullur kjagandi heim
um kvöldið þar næsta á eftir.
Ég veit ekki hvort þessi saga er sönn,
en svona hún gengur um bæinn.
Mitt í dýrðinni og dagsins önn
er drengurinn talinn laginn.
Hann drottins sauði að sölum ber
að sælli og fegurri landa,
til himinsins, þangað sem eilífðin er,
um eilífð sem hlýtur að standa.
18.9.2007 | 12:05
Úff
16.9.2007 | 00:52
Innherjasvik

![]() |
Starfsmaður Carnegie í gæsluvarðhald |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.9.2007 | 14:08
57. Ljóð Um nótt
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
UM - NÓTT
Vaki ég einn um vetrar nótt,
vindurinn hvín við gluggann.
Í vöggunni blunda börnin rótt,
bátarnir hafa á djúpið sótt,
og skotta er flúin í skuggann.
Uppi um hlíðar hjarnið kalt,
hylur gróður og mela.
Mörgum þykir á sjónum svalt,
sumir fiska og hirða allt,
en aðrir stundinni stela.
Brotnar á skerjum báran köld,
brotsjóir æða um höfin.
Togstreita er um tign og völd,
táknrænt mál fyrir þessa öld,
og gapandi bíður gröfin.
Víða er enn þá bröndum beitt,
og byssu kúlurnar fljúga,
mörgum bæjum er alveg eitt,
ekki þann djöfulgang stöðvar neitt,
því lubbarnir áfram ljúga.
Merlar nú jörðu mánans glóð,
mönnunum vill hann lýsa.
Mörg er í húmi meyjan rjóð,
margur leggur fram gildan sjóð,
því folarnir úti frýsa.
15.9.2007 | 14:03
56. Ljóð Tvær - Áttir
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
TVÆR - ÁTTIR
Þegar aðrir sofa og svífa um drauma löndin
og sorgum öllum gleyma við höfgans hlýja brjóst,
þá um lífsins einstigu líður mannsins öndin
sem liggur einn og hugsar um það sem kom og fórst.
Marga þreytta veru ei svefninn sigrað getur
er svalir vinda næða um þankans eiði lönd,
en það eru víst færri og því fer líka betur,
sem þannig fley sín brjóta við hamingjunnar strönd.
Og margir eru þeir sem markið reyna að vinna,
á miðri leið svo hrapa í duftsins gleymsku hyl,
oftast nær það verður fyrir veikan skilning hinna,
sem virðist aðeins það sem hefur áður verið til.
Þó eru til menn sem enn klifra upp kletta bandið
og kasta frá sér björgum sem verða á þeirra leið.
Þeir hugsa um líðan fólksins, hamingju og landið,
en halda ekki niður þó gatan virðist breið.
Þeir brjótast upp á tindinn og vísa öðrum veginn
sem villtir eru að ráfa og enga stefnu fá,
þó dýrmæt ráð og göfug séu ekki alltaf þeginn,
þá eru býsna margir sem réttu striki ná.
Þessir kappa eiga sér eilífðina að systur
og eilífðin er þeirra, skráð á tímans blað.
Hann lét ekki bugast sem þangað fór upp fyrstur
og freistarinn bauð jarðríki gull og nýjan stað.
Síðan komu margir sem brutu nýjar brautir
og burtu frá sér hentu öllum ráðum freistarans,
svo eru til aðrir sem læðast niður í lautir,
liggja þar í felum og bíta í hæla manns.
Þeir eiga hvorki tign, eða andlegt aðalsmerki
og ekkert til sem vermir þeirra nakta sálar hróf,
sem illa vandir hundar þeir haga sér í verki
og hafa að leiðarstjörnu, þann sem talentuna gróf.
15.9.2007 | 13:49
Heimsókn

![]() |
Andarnefjur í höfninni í Vestmannaeyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.9.2007 | 13:32
Til greina

![]() |
Má aftur reykja á lóðinni sinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.9.2007 | 17:41
55. Ljóð Svefn
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
SVEFN
Svefninn sigrað getur
sorgir allra manna,
enginn byggir betur
borgir hugsjónanna,
gamlir öðlast aftur
æsku drauma sína.
Vísdóms kynja kraftur
kveikir liðinn bríma.
Andinn frelsi finnur,
fagra vegi líður,
allt það vonda vinnur,
viljinn kraftinn býður.
Fjærri starfi og striti
stillir hörpu þýða,
bland af von og viti
vefur hugsjón blíða.
Þeim sem aldrei áður
öðlast gleði hefur
sem var harmi háður,
huggun svefninn gefur.
Allt á karl í kofa
hann konungsvald nær hljóta,
því er sælt að sofa
og svefnsins blíðu njóta.
12.9.2007 | 17:37
54. Ljóð Stúlkan á eyrinni
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
STÚLKAN Á EYRINNI
Á ég að segja ykkur sögu
sem ekki fæddist í gær,
af ungri stúlku sem átti
sér óskir fleiri en tvær.
Hún heima á eyrinni átti,
í uppvexti stundaði hún sjó
með föður sínum og frænda
og fékk af því meira en nóg.
Henni leiddist slorið og slabbið
og slangrið um kaldan sjá
alltaf í úlpu og buxum,
sem var alls ekki móðins þá.
Hún vildi lifa á landi,
langhelst afgreiða í búð,
gleyma öllum gráum buxum
en ganga í litklæða skrúð.
En faðir hennar og frændi
fordæmdu svoleiðis brölt,
þeim fannst að hún gæti um græðir
á gömlu fleytunni skrölt.
Svo var það einn sólbjartan morgunn,
í sumarsins helgasta frið,
að upp steig á eyrina gömlu
amerískt setulið.
Þeir voru allir svo ungir,
úrval úr liðinu þar,
laglegir brúnir á bjórinn
og blikkuðu stúlkurnar.
Svo kynntist hún eitt sinn einum
yndislegt sumar kvöld,
elígant Ameríkana
með orðu og mikil völd.
Hún skildi ekki neitt sem hann sagði,
en samt var hún glöð og kát,
hún fann svo vel hvað hann vildi
og var honum eftirlát.
Þau gengu upp í gamla bátinn
sem grafinn í fjöruna stóð.
Það var rómó að róa á landi
og raula undir hergöngu ljóð.
Það var allt svo ljómandi lekkert,
litla stúlkan hún hló,
og fór ekki framar í buxur,
fór ekki heldur á sjó.
Bloggvinir
Eldri færslur
2020
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar