Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012
Opið bréf ÖBÍ til stjórnvalda um kjör öryrkja í tilefni 1. maí.
30.4.2012
Í opnu bréfi formanns ÖBÍ, Guðmundar Magnússonar segir meðal annars
Tímabundin kjaraskerðing? Enn bólar ekki á leiðréttingu
Þann 1. júlí nk. verða liðin 3 ár frá því að sett voru lög sem skertu alvarlega tekjur og réttindi lífeyrisþega sem barist hafði verið fyrir tugi ára. Þegar skerðingarnar 1. júlí 2009 komu til tals um miðjan júní nefndi þáverandi félagsmálaráðherra að skerðingarnar væru tímabundnar til 3ja ára. Minnt er á að lífeyrisþegar urðu fyrstir fyrir skerðingum í upphafi kreppunnar og þá með sérstöku loforði um að kjör þeirra yrðu leiðrétt um leið og fjárhagsstaða ríkissjóðs batnaði. 3ja ára tímabilið er liðið og horfur í efnahagsmálum eru sagðar jákvæðar. Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar frá mars 2009 er hvergi minnst á almannatryggingakerfið né sett fram áætlun um hvernig áhrif niðurskurðar skuli ganga til baka. Engin skrifleg áætlun stjórnvalda er til um hvernig á að bæta lífeyrisþegum upp skerðingarnar.
Lífeyrirgreiðslur hafa ekki hækkað í samræmi við lög síðan 2008
Greiðslur almannatrygginga hafa ekki hækkað til samræmis við 69. gr. laga um almannatryggingar fjögur ár í röð, eða síðan fyrir efnahagshrunið. Lagagreinin var sett inn í lögin til að vernda afkomu lífeyrisþega. Lífeyrisgreiðslur ná hvorki að halda í við verðlagshækkanir né launaþróun síðustu ára. Árin fyrir efnahagshrunið fengust engar raunhækkanir eða réttindabætur og því borið við að slíkt myndi auka of mikið á þenslu í samfélaginu. Staða fjölda lífeyrisþega var því erfið þegar efnahagshrunið skall á og er í dag enn erfiðari.
Hækkun lífeyrisgreiðslna í kjölfar kjarasamninga í júní 2011 hefur engan veginn náð að halda í við eða bæta lífeyrisþegum það sem upp á vantar ef 69. gr. laganna hefði verið framfylgt. Hækkunin kemur engan veginn til móts við kröfur bandalagsins. Lægstu laun skv. kjarasamningum ASÍ og ríkisins hækkuðu árlega mun meira síðustu ár en lífeyrisgreiðslur almannatrygginga ár hvert.
Greiðslur almannatrygginga eru langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins
ÖBÍ hefur frá upphafi barist fyrir sjálfsögðum réttindum öryrkja til að lifa mannsæmandi lífi óháð því hvort fólk sé fatlað eða með skerta starfsorku vegna veikinda eða annarra ástæðna. Um sjálfsögð mannréttindi er að ræða enda kemur fram í 65. gr. stjórnarskrár Íslands að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda óháð efnahag. Þrátt fyrir það eru kjör öryrkja óásættanleg. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga eru langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins. Þetta á við um öll viðmiðin óháð því hvort um sé að ræða dæmigert viðmið, sem er leiðbeinandi um hóflega neyslu, grunnviðmið, er varðar lágmarksframfærslu, eða skammtímaviðmið, sem er framfærsla í hámark níu mánuði.
Til viðbótar skerðingum almannatrygginga hafa margir lífeyrissjóðir skert greiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega á bilinu 7-19% í kjölfar efnahagshrunsins.
Velferðarstjórn – hvað sagði forsætisráðherra?
Í viðtali við forsætisráðherra í júní 2009 kom fram að leitast verði við að verja viðkvæma málaflokka eins og málefni fatlaðra, lífeyrisþega með lægstu tekjur og tók hún sérstaklega fram að ekki yrði hreyft við þeim sem eru með heildarlaun undir 400.000 kr. á mánuði. Því kom það á óvart þegar bætur örorkulífeyrisþega voru skertar, þar sem tekjur flestra þeirra eru vel undir þessum mörkum.
Kröfur ÖBÍ um breytingar til að leiðrétta kjör lífeyrisþega
Í ljósi þróunar kjara lífeyrisþega sem að framan er rakin setur ÖBÍ fram kröfur um breytingar á stefnu stjórnvalda, sem miði að því að leiðrétta kjör lífeyrisþega nú þegar.
1. Skerðingar síðustu ára verði leiðréttar sem fyrst.
Stjórnvöld skili lífeyrisþegum sem allra fyrst því sem þeim ber skv. 69. laga um almannatryggingar. Stjórnvöld leiðrétti frítekjumörk og tekjuviðmið og dragi til baka þær skerðingar sem settar voru um mitt ár 2009. Frítekjumörk og viðmiðunartekjur hækki árlega samkvæmt vísitöluhækkun. Uppbót vegna reksturs bifreiða verði aftur tengd eldsneytisverði og hækki í takt við verðlagsbreytingar hverju sinni.
Kjararáð afturkallaði í desember 2011 ákvörðun um lækkun launa alþingismanna, ráðherra og annarra æðstu stjórnenda ríkisins sem tekin var í kjölfar hrunsins haustið 2008 og var það „leiðrétt“ afturvirkt. Ekkert bólar hins vegar á leiðréttingum á þeim miklu kjaraskerðingum sem lífeyrisþegar hafa orðið fyrir á síðustu árum.
2. Réttindakerfi í stað ölmusu.
Reglur um tekjutengingar einkenna íslenska almannatryggingakerfið. „Tekjutengingarnar draga úr virkni kerfisins sem borgararéttindakerfi fyrir alla og færa það nær ölmusukerfi fyrir minnihlutahóp„[1] Reglur tekjutengingarinnar og þá sérstaklega reglurnar um sérstaka framfærsluuppbót með 100% jaðaráhrifum festa lífeyrisþega í fátæktargildru, því auka tekjur og flestar greiðslur félagslegrar aðstoðar s.s. mæðralaun skerða bótaflokkinn krónu á móti krónu. Í grein sinni frá 2003 skrifar Stefán Ólafsson um tekjutengingar almannatrygginga á þeim tíma: „Til að geta rifið sig lausan úr kviksyndi tekjutengingarinnar þurfa aukatekjur hans að vera umtalsverðar. Þetta er fyrirkomulag sem gerir fátæklingum erfiðara fyrir í lífsbaráttunni þegar markmiðið ætti að vera að hjálpa þeim til sjálfshjálpar út úr fátæktinni. Öryrkjar sem hafa litla eða enga vinnugetu til umfangsmikillar tekjuöflunar eiga oft litla möguleika á að sleppa úr kviksyndi fátæktarinnar í slíku kerfi.“ Lýsingar Stefáns á áhrifum tekjutenginga í íslenska almannatryggingakerfinu á árinu 2003 eiga við enn í dag árið 2012.
3. Aldurstengd örorkuuppbót greidd áfram eftir 67 ára aldur.
Þegar aldurtengd örorkuupbót var komið á var það stórt framfaraspor sem viðurkenndi vanda þeirra sem vegna fötlunar sinnar komust seint eða aldrei á hinn almenna vinnumarkað. Það voru því mikil vonbrigði þegar stjórnvöld ákváðu að ekki skyldi greiða bótaflokkinn eftir 67 ára aldur. Að auki er bótaflokkurinn í raun eyðilagður, þar sem hann skerðir framfærsluuppbótina krónu á móti krónu og kemur því ekki að því gangi sem honum var ætlað.
4. Kostnaður vegna fötlunar og sjúkdóma aðskilinn frá greiðslum almannatrygginga.
Öryrkjar hafa þurft að taka á sig miklar hækkanir á kostnaði við heilbrigðisþjónustu, lyf, hjálpartæki og sjúkra-, iðju- og talþjálfun, vegna sinna veikinda/fötlunar. Þessi kostnaður sligar mörg heimili en almennt er talið að öryrkjar þurfi hærri tekjur til að framfleyta sér til að njóta sömu lífskjara og aðrir þar sem ýmis aðkeypt þjónusta og heilbrigðiskostnaður er hár. Hefur það verið staðfest með könnunum.
5. Húsaleigubætur vísitölutengdar og jafnræði í greiðslum sérstakra húsaleigubóta á milli leigutaka óháð því hjá hverjum þeir leigja.
Sveitarfélögum er skylt, skv. lögum um húsaleigubætur nr. 138/1997, að greiða húsaleigubætur og eru þær greiddar tekjulágum leigjendum til að lækka húsnæðiskostnað þeirra. Grunnfjárhæðir húsaleigubóta hafa verið óbreyttar frá árinu 2008. Tekjumörkin héldust enn fremur óbreytt frá 2005 til ársbyrjunar 2012, en þá voru tekjumörkin hækkuð lítillega. Húsaleiga hefur hins vegar hækkað umtalsvert síðustu ár, meðal annars með hækkun vísitölu, en almennt er húsaleiga vísitölutengd. Sérstakar húsaleigubætur eru ekki greiddar af öllum sveitarfélögum og er þegnunum þannig mismunað eftir búsetu. Auk þess sem t.d. Reykjavíkurborg mismunar eftir eigendum húsnæðis.
Öryrkjabandalag Íslands telur að nú sé mál að linni og verði stjórnvöld að sýna það í verki að á Íslandi skuli ríkja velferðarsamfélag með jafnrétti þegnana að leiðarljósi.
Það er afdráttarlaus krafa ÖBÍ að nú þegar verði þær skerðingar sem orðið hafa á undanförunum árum dregnar til baka nú þegar og samfélagslegum launum lyft svo þau dugi til mannsæmandi lífs, en þvingi ekki fólk í kviksyndi fátæktar.
Ekkert um okkur án okkar
Guðmundur Magnússon,
formaður Öryrkjabandalag Íslands
Bloggvinir
Eldri færslur
2020
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar