Færsluflokkur: Bloggar

4. mánuðir

Þann 23 voru liðnir 4 mánuðir frá því ég hætti að reykja.

Reykleysið hefur gengið vel og nú fer maður að hugsa af hverju maður var að reykja í 40 ár fyrst það er ekki erfiðra en þetta að hætta.

Ég ætla að taka það fram að ég notaði Zyban í 2 mánuði og kom það mér örugglega yfir erfiðasta tíman.

Ég er innan um reykingar á hverjum degi en það virðist ekki skipta neinu máli, því ég er alveg ákveðin í því að falla ekki.

Þá er bara spurning hverju maður getur hætt næst?Sleeping


13. Ljóð

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

Guðjóns drápa Grímseyings

Mannsöngur

Sléttubönd

 

Sumar blíðan vekur völd

völlur skrýðist fagur,

gumar bíða kyrrlát kvöld,

kemur blíður dagur.

 

Degi hallar okkur á,

alltaf kalla fljóðin.

Vegi alla fegra þá

finna snjalla óðinn.

 

Tveggja áttaþungur þeyr

þreytir sláttu takið.

Beggja nátta greypur geir

geta háttinn vakið.

II

 

Norður í hafi eyja er

sem enginn maður þekkir hér

þar býr fólk sem betur fer

borðar fugla egg og smér.

 

Herrans fyrir hálfri öld

hráslagalegt vetrar kvöld

þegar báran byltist köld

og barði nakinn eyjar skjöld.

 

Fæddist stór og feitur sveinn

fagur mjög og vaxta beinn

aldrei hafði áður neinn

annar sést jafn brúna hreinn.

 

Strax í æsku efldur var

öðrum fljótt af sveinum bar.

Sigldi út um saltan mar

sinni fleytu hér og þar.

 

Fiskaði vel og fjörugt dró

fyllti bátinn söng og hló

jafnvel allir aðrir þó

ekki fengu bein úr sjó.

 

Stundum fékk hann storm og byl

strák það ekkert gerði til

því eftir á gekk alt í vil

yndis fljóð með ljós og il.

 

Björgin kleyf hann brött og há

bein sem veggur stóðu frá.

Hinum djúpa salta sjá

sótti lunda fýl og má.

 

Þegar landið lá hann við

lítið mat hann siðferðið

kelaði og söng við kvenfólkið

kvöldin löng í ró og frið.

 

Þegar húmið leið um lönd

flakkaði sýn um haf og strönd.

Oft í rúmi brustu bönd

sem bundu fastast meyjar hönd.

 

Æskan leið sem vor um völl

vakti gleði og meyjar köll.

Fimleg voru fangbrögð öll

fasið stillt en orðin snjöll.

III

 

Eitt sinn rauk á rokna hvell

riðlaðist eyjan fékk og skell

renndi af stað með römmum smell

ráku á eftir sjávar fell.

 

Velti og hjó svo virtist grand

válegt skráð á sjávar band

kenndi grunns og keyrði í strand

í kafaldals byl fyrir sunnan land.

 

Guðjón bjóst þá brátt af stað

brá úr vör og treysti vað.

Batt svo eyjar endum að

og aftan í bátinn festi það.

 

Rykkti og söng í reipunum

rumdi og sauð á keipunum

svignaði og skalf í sveipunum

sárnaði skinn í greipunum.

 

Eftir harðan langan leik

er ljómaði sól á himni bleik

áður en nokkur komst á kreik

knarrar brýndi Guðjón eik.

 

Kappinn sigldi á sömu mið

setti fast og sperrti við

svo að eyjan ekki á hlið

ylti strax og spillti frið.

 

Þá á landið létt hann steig

losnar andinn starfs við beyg

en frá sandi augað hneig

um ægis branda hranna teig.

 

Heim í bæinn beint hann gekk

burt frá æi fýsti rekk

vika laginn vafði hlekk

vordags braginn meyjar fékk.

 

Einn hann skundar alla stund

áls í lund og gleði fund

engri bundin auðar grund

oft þó hundi hleypti á sund.

 

Kringum lendur leikur mar

logum brenndur alstaðar

nú mun enda áður þar

út við strendur Grímseyjar.

 

 


Meðalaldur

Meðalaldur karlmann sem teknir eru réttindalausir hlýtur að hækka töluvert við það að ná þessum á níræðisaldri.Devil
mbl.is Réttindalaus ökumaður á níræðisaldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

12. Ljóð

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

FÓSTRA

 

Þú gamla land sem girðist bláum sæ,

þín göfuga tign í eigin svip er bundin.

Hér hraustir kappar fyrst sér byggðu bæ,

þú birtist þeim í draumi yfir sundin.

Þeir vildu ekki sterkan beygja barm

og búa líkt og þrælar, öðrum háðir,

þeir bjuggu skip og fóru með sinn fram

í faðminn þinn, og nýjar hetjudáðir.

 

Þeir fóru strax að yrkja eigið land,

með uxum plægðu frjóa jörð og sáðu.

Við hjarta hennar tryggðar bundu band,

á brjósti hennar sínar dáðir skráðu.

Þeim fæddust börn sem fósturjörðin á

og fengu brátt að kynnast dagsins önnum,

iðkuðu leiki, beittu benja ljá

og býsna snemma urðu að hraustum mönnum.

 

Kappi var mikið, kjörorðið var hefnd,

kappleikir háðir, glíma sund og fleira.

Hraustir drengin geta allt það efnt,

sem ungir þeir heita og stundum langtum meira.

Því listin var þeim léð í vöggu gjöf,

líkamsburði, kjarkur til að reyna,

þeir lögðu í víking, fóru um fjarlæg höf,

frægð sér unnu gull og eðalsteina.

 

Þó sumir færu víða um lög og láð

og lyftu mörgum stórum Grettis tökum.

Ortu ljóð sem aldrei voru skráð,

aðeins kóngum flutt á löngum vökum.

Ynnu sér frægð, sem aldrei hefur gleymst

um alda raðir frá þeim gömlu dögum,

en hafði á vörum fólksins fests og geymst

og flust á milli kynslóða í sögum.

 

En þá var allaf gamla landi geymt

greypt í huga, nyrst í köldum sjónum,

þar sem þá hafði æsku drauma dreymt,

dafnað og slitið fyrstu bernsku skónum.

Frá konungs hirðum, gull og gleði hreim,

gjafmildum snótum víni og fögrum sölum,

var þerra kærust ósk að komast heim

til kotanna sinna heima í Íslands dölum.

 

En loks var þeirra skamma saga skráð

á skinn með fjaðrapenna roðið blóði.

Snillings verk sem verða aldrei smáð

en vegin og geymd í minninganna sjóði.

Lýsis kolan daufa birtu bar,

um bæjar skálann fáir geislar runnu,

þegar smáum ljóra lokað var

og langeldar á miðju gólfi brunnu.

 


Lúkas kominn heim

Getum við þá haldið áfram að tala um Fröken Hilton í friði?W00t
mbl.is Lúkas kominn heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strand 3

eða 4.

Eitthvað er í gangi, hvort það er smit eða eitthvað annað, þá er svolítið mikið að fá fjögur strönd sama sólahringinn, eða er það ekki?Cool


mbl.is Bátur strandaði við Rekavík á Ströndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

11. Ljóð

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

FLÓTTINN

I

 

Loftsins gígjur ljóðin syngja

laugast jörð af sólar il.

Vorsins bjöllur kátar klingja

kveða niður stormsins byl,

vonir frjálsum vængjum blaka,

vaknar löngun hjartans prúð,

fuglar loftsins léttir kvaka,

ljómar hlíð í grænum skrúð.

 

Lömb sér eftir leika grundum,

lífið stígur töfra dans,

í skjóli inni í skógar - lundum

skrautleg blómin flétta krans.

Fiskar eftir sjónum synda,

sveimar þeyr um loftið dátt,

allir sama bandið binda,

búa starf í líka átt.

 

Allir leita að ljúfum vini

þá lífsins þeir hefja starfið fyrst,

sálir tengja í sama skyni

suðræn heimsins börn og nyrst.

Svo lengi sem hér líf skal haldast,

þarf lögmál slíkt að stjórna því.

Það á hver einstök vera að valdast

ef visnar ein svo komi ný.

 

II

Sveitirnar byggðust innst í Íslands dali

og ýmsir reistu bæi upp á heiðum,

þar sem næddi næðingurinn svali

og norðan stórhríð huldi merki á leiðum.

Þar dafnaði menning í moldarkofum lágum

og mótaðist fólk með skapgerð harða og trausta.

Það gafst sjaldan upp þó fyndist fátt af stráum

og fengurinn lítill er tekið var að hausta.

 

Með lélegt áhöld barist var í bökkum,

birtan var látin ráða vinnutíma,

heyið var flutt á hestum upp á stökkum

hengt á klakka, það var erfið glíma.

Það var saman reitt í rökum sundum,

reyndist víða baggi í stað og minna.

Flestir máttu eyða fleiri stundum,

að fara á milli bæja og slægna sinna.

 

En þetta var fólk sem trúði og treysti á landið

og talaði fagur mál með hrinum hljómi.

erfiðleika stríðið ótta blandið

var aðalsmerki þess og hetju sómi.

Kjörorð þess var að kvarta ekki og vola,

því kjarkurinn var stærsta óska barnið,

þó að stundum næddi nöpur gola

og nokkuð lengi stæði vetrar hjarnið.

 

Bændur urðu að búa vel að sínu

og búpening sinn ekki láta falla,

annars mundi allt úr hungri og pínu

enda sitt líf, þá vetri tók að halla.

Reynslan þeim kenndi að spara allt við alla,

alltaf á beit þeir ráku fé í haga,

margir fóru með sitt hátt til fjalla

og mokuðu af kappi snjónum alla daga.

 

Á vökunni oftast rímur karlar kváðu,

en konur gerðu skó og spunnu á rokka,

sumar kembdu ull en aðrar táðu,

sem átti að fara í peisur eða sokka.

vefur sleginn var og tíðum unnið

vaðmál er seinna notað átti í klæði,

svo var líka af sumum hrosshár spunnið

og sumir húðir rökuðu í skæði.

 

Lýsis kolan lengi var það eina

ljós sem notað var er dimmdi á kveldin,

hlýju fengu menn við hlóðasteina

og hlífðar fötin þurrkuðu við eldinn.

En þessir tímar löngu liðnir eru

og ljósin núna kveikt með einum rofa,

samt þreytast menn á sinni vistar veru

og virðast þurfa langtum meira að sofa.

III

 

Nú er hin gamla bænda menning brotin,

böðlarnir veifa Axlar - Bjarnar sveðju.

Launvígum fjölgar, andans auðlegð þrotin,

örkumla heilar mynda sóknar keðju.

Niðurrifs stefna öllu góðu grandar,

gróðabralls flokkar svíða lendur jarðar,

fólkið hrökklast sem flóð - bylgja til strandar

flýjandi niðjar Júdasar og Marðar.

 

Straumarnir öfugt streyma nú með hraða,

stormsveipir lífsins mörgum flötum kasta.

Stjórnlausir hópar áfram villu vaða,

vonglaðir halda til spillingar og lasta.

Átthaga fjötrar ekki geta bundið

andlausa menn né bjargað þeim frá grandi.

Börnin flytja í borgina við sundið,

en bæirnir standa tómir inni í landi.

IV

 

Stansaðu maður, hver er köllun þín

og hver hefur sagt þér að ganga þessa braut?

Þó hún virðist fær við fyrstu sýn,

finnur þú aðeins það sem annar hlaut.

Þessa götu halda margir menn,

í moldviðri lífsins, og þeir fá kaupið greitt,

kaupið sem er að koma og fara í senn,

kaupið sem er verra en ekki neitt.

 

Hvert á að fara hver hin rétta leið,

kanna og sigla vítt um ókunn höf?

Nei!  Þú hefur grafið undir grænum meið

gullið sem þú fékkst í vöggu gjöf.

Snúðu við heim og grafðu upp gullið allt

og gefðu þeim sem lítið hafa í skut,

þá munt þú fá það borgað þúsundfalt

en þrjátíu dali annars réttan hlut.

 


Spilling

Er ekki þar kominn skýring á því hvað hann hefur sloppið legni við réttvísina að hann er í vináttum tengslum við stjórnmálamenn?

Þeir eru víða spilltir.Ninja


mbl.is Alræmdur glæpamaður felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband