Færsluflokkur: Bloggar

Þessi dagur

Þessi dagur fór eitthvað illa af stað.

Banaslys á mótorhjóli, morð í Reykjavík.

Maður verður eitthvað svo tómur undir svona fréttum og sú hugsum læðist að manni að sá sem var drepin hefði hugsanleg getað verið hver sem er.

Maður veit ekki hvort þetta var ákveðin maður sem var myrtur eða hvort  þetta (saklaus) vegfarandi, ekki það að ég sé að segja að sá látni hafi ekki verið saklaus.

En ef maður hugsar út í það að þessir menn séu kannski að skjóta bara á einhver til að drepa, bara vegna þess að þá langaði til að drepa einhvern, það hefur gerst áður og á eftir að gerast aftur, Því miður.

En svona er mannskepnan.

Bara grimmt villidýr.


19. Ljóð

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

EITT HUNDRAÐ ÞÚSUND OG EITTHVAÐ

 

Eitt hundrað þúsund og eitthvað,

er þú kominn í bæinn.

Til þess að láta þér leiðast,

líða inn í tómið og daginn.

 

Tínast í fjöldans flaumi,

falla í skuggans veldi.

Lifa sem nafnlaust númer,

nakinn að ævi kveldi.

 

Er kannski best að blunda,

og berast í öldurótið.

Vera steinn meðal steina,

steyptur í sama mótið.

 

Þó mun að enduðum öldum,

um útbrunnar tímans nætur,

útburðar vælið óma

sem einmanna bugast lætur.


18. Ljóð

 Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976

BAKKASEL

 

Hér áður var bóndi í Bakkaseli

og búið víðar á norðurhveli,

alstaðar held ég þar sem þeli

þraukaði og af sér kuldann stóð.

En nú er það komið allt í eyði,

enda langt milli bæja á heiði

og því ekki lengur gerður greiði

gestum sem halda þessa slóð.

 

Margur gesturinn kom að Kotum,

kominn alveg að niður lotum,

kjarkurinn líka þá að þrotum

og þrautagangan á endum stóð.

En þegar blessuð bæjar þilin

birtust í gegnum hríðar skilin

og klakaður maður komst í ilin,

kviknaði aftur lífsins glóð.

 

En þó hafa margir orðið úti

og endað sitt líf í kvöl og súti,

sem lögðu af stað með lögg í kúti

léttir í spori snemma dags.

Í slóðir er líka fljótt að fenna

og fæstir mega að sköpum renna,

þó upp komi stundum einhver glenna

er oftast styttra til sólaslags.

 

Oft mátti Bakkasels bóndinn fara

og brjótast áfram í hríðar skara,

orkuna og kjarkinn ekki spara

ef úti varð maður á heiðum þar.

stundum fann hann þá grafna í gaddinn

og glytti þá aðeins rétt á Haddinn,

sem karlmennið heim á öxlum bar.

 

Nú þarf ekki bóndinn í bakkaseli

að brjótast áfram á næturþeli,

því norður á þessu nakta hveli

er nástrandar hljóð sem eyrum sker.

Þar flugvélar stundum farist hafa,

frostið og hríðin lífið grafa,

því nú sést þar enginn seggur kafa

með særða og þreytta á baki sér.

 

Leiðangrar oft er lengi að búa

til leitar, og stundum þeir aftur snúa,

því ófærðin skrokk og andann þrúga

áfram að brjótast við storm og él.

Þeir hefðu eflaust færri farist,

ef fengist maður sem gæti barist,

hríðum og stormum vaskur varist

og vildi flytja í Bakkasel.

 

Vel mættu þeir sem við völdin lafa

villu ráfandi snjóinn kafa,

þá mundu þeir kannski meiri hafa

mannlegan skilning á öllu hér.

bakkasel þarf að byggja að nýju

og búa þar mönnum skjól og hlýju,

þegar frá kuldans kólgu gígju

klakaða tóna að eyrum ber.

 

 


17. Ljóð

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

AFTUR HVARF

 

Vafurloga vefjast drauma löndin,

vonin lifnar sem þó áður dó.

Rís í fjarska fyrir stafni ströndin

og styrkur þess sem löngu veitti fró.

Áfram hægt um ljóssins vegi líður

lítill nökkvi vorri bernsku frá,

lífsins öldugangi birginn býður,

búinn til að reyna allt og sjá.

 

Við oss hlíðar blasa blómum vafðar

báturinn þá landi kemur að,

þær óskir sem í haldi voru hafðar

hefja sig til flugs á nýjan stað.

Byggja það upp sem áður féll af grunni,

aftur græða lífsins dýpstu sár,

það besta sem þá, mannsins andi unni,

en eftir skildi kvíða sorg og tár.

 

Drauma veldið veglegt gengi skapar,

þessa verndardísir fegra lífsins baug.

Maðurinn sem yndi og öllu tapar,

aftur finnur líf í hverri taug,

og með krafti æskuþrungins vilja

andinn teygar horfnar ævi lind.

Þeir elskendur, sem skapað var að skilja,

skrúðann finna sinn í nýrri mynd.

 

En veruleikin valdið aftur tekur,

vaknar þá á ný hið gamla strit.

Svefninn bjartur dagur burtu rekur,

þá birtast mannsins kjör í dekkri lit.

Lífið er ei lengur blómum vafið,

ljómans full á ný er burtu streymt,

líkt og fagurt skip sem fer á hafið,

ferst í djúpið, verður öllum gleymt.

 

Af mörgu sniði mótast lífsins straumur,

mannsins svið er takmark stutt og langt.

Hægt og stillt er sveigður tímans taumur,

tryggt og blítt, en stundum hart og rangt.

Hver stund er vald og afl þess æðri máttar,

sem einn fær stutt og ráðið tímans baug.

Hvert svif er stillt af ómi hærri háttar

sem himinstjarnan fær úr sinni laug.

 


16. Ljóð

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

ENDURMINNING ÚR SKÓLA:.

 

Á kvenna ganginum lasinn ég lá

og líðanin hreint ekki góð,

það var enginn lúxus að lifa þá,

því læt nú fljúga minn óð.

Segi þó einungis sannleikann einn,

en því svartasta sleppi ég úr.

Ég get ekki sagt að ég svæfi þar neinn

sætan né rólegan dúr.

 

Því ef ég nú sofnaði augnablik vært

við öskur ég hrökk upp á ný,

þau geta meir en hvern meðal mann ært

þessi misleitu ungmeyjar kví.

Þær ýldu og skræktu og orguðu hátt

emjuðu og blésu á víxl.

Töfrandi söngurinn tendraðist dátt

og tónlistin skammir og brigsl.

 

En svo þegar mollan og myrkrið fór burt

og morguninn ljómaði í hönd,

þá fyrst á ganginum góða varð kjurt.

Svo gliðnuðu svefnsins bönd

þá koma þær þrammandi þrútnar á brá

og þrjóskulegar á svip,

snöktandi og volandi, valtar sem strá,

og vagga eins og sliguð skip

 

 


Jafnrétti

Spurningin er hvort eitthvert réttlæti sé í þessu.

Pilturinn tekinn á 110 km og missir prófið og stúlkan (bara) á 64 km og missir líka prófið.

Hvar er jafnréttið?

Væri ekki rétt að leifa henni að keyra aðeins hraðar áður hún er tekinn?Police


mbl.is Sviptur eftir að hafa verið stöðvaður tvö kvöld í röð fyrir hraðakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15. Ljóð

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d:17.04.1976 

GYÐJAN

 

Okkar var gyðjan, hún gaf okkur ungum

gleðinnar fyrstu spor.

Við saman flugum um sólarlönd

og sundur losuðum hversdags böndin,

um eilífð og eintómt vor.

 

Gígjan með sínum gullnu strengjum,

gladdist með nýjum hljóm.

Hugdjarfar vonir vakti í hjörtum

varpaði geislum loga björtum,

og seið með svæfandi róm.

 

Hamingjan okkur hertók bæði,

því hamingjan okkar beið.

við svífum á öldum æðri heima,

áfram létum við tímann streyma

endalaust ókomna leið.

 

Við gígjunnar tóna við gleymdum öllu

og gleðinnar mjúku sem fyrr.

við reistum upp dagsins drauma borgir,

drukkum frá okkur leiða og sorgir.

En stóð ekki eilífðin kyrr?

 

Var ekki okkar vordagur risinn

og veröldin svona öll?

til hvers átti að tendra eldinn,

til þess aðeins að slökkva hann á kveldin

við brimgný og boða föll.

 

Víst mun eldurinn alltaf loga,

því á hann við bætum glóð.

En einhvern tíman mun eldsneytið þrjóta

og ekkert til sem er hægt að brjóta,

niður á nakta slóð.

 

Ég vakna einn um vetrar morgunn

og er lengi áttum að ná.

Það er stundum ekki gott við að glíma,

eða ganga í veg fyrir horfin tíma,

sem löngu er liðinn hjá.

 

Gyðjan er horfinn ég græt í hljóði

við gígjunnar undir spil.

Álútur stend undir straumum lífsins

við stálgráar eggjar beitta hnífsins,

um eilífð sem ekki er til.


14. Ljóð

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923 d: 17.04.1976 

GAMALT

SÍLDAR - KVÆÐI

 

Við siglum í austur á síldveiði geim

að sækja okkur farm í búið.

Á húmdökkum kvöldum við hafgolu hreim,

er hafskipið áfram knúið.

En því miður er veiðin

svo vafasöm stundum,

við Vopnafjörð, Núpinn

og á Grímseyjar sundum.

Með slatta í lestinni höldum við heim,

með hugann hjá víni og sprundum.

 

Við göngum á landið með gleði og spaug,

það gengur svo illa að spara.

Aurunum söfnum við sjaldan í haug,

við sjáum þá koma og fara.

En stúlkurnar sýna okkur

sólbjarta geima

sið sætleikans njótum

og byrjum að sveima,

hjá smávöxtu kjarri í lítilli laug,

þar sem leyndarmáli á heima.

 


Lóðir

Þeir dönsku sem búa á Skáni í Svíþjóð og vina í Danmörk ættu nú að geta flutt heim aftur þegar framboð á húsnæði eykst.


mbl.is Hafnarbakki Kaupmannahafnar á niðurleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband