35. Ljóð Litla ljóðið

Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson

Auðbrekku

f: 11.11.1923  d: 17.04.1976 

LITLA LJÓÐIÐ

 

Hver er það sem kyndir lífsins bál?

Hver er það sem skilur fugla mál?

Hver er það sem kreppir þreytta hönd?

Hver var það sem bjó til okkar lönd?

 

Hver var það sem hafði tíu tær

og til hvers átti hún að nota þær?

Hver var það sem geymdi grautinn sinn

uns gamli Jökull kom í bæinn inn?

 

Hver var það sem kom oft blautur inn?

Hver var það sem bjó til himininn?

Hver var það sem hvíldi lúin bein

og kodda fyrri hafði lítinn stein?

 

Hver var það sem kom inn stundum þyrst?

Hver hafði alltaf góða matarlist?

Hver var það sem brúðurúm um bjó

og bjó til margar kerlingar úr snjó?

 

Hver var það sem kveikti nýja glóð?

Hver var það sem forarpolla óð?

Hver var það sem orti ævintýr

um ótal hross og mikið fleiri kýr?

 

Hver var það sem kom svo oft til mín?

Hver var það sem beit í gullin sín?

Hver var það sem kunni á hestum tak

en komst þó aldrei hjálparlaust á bak?

 

Hver var það sem valt af vondum klár

og var þá stundum bæði reið og sár?

Kom þá inn og kvartaði við mig

og karlinn bað að hugga og passa sig.

 

Hver var það sem kom í háttinn seint?

Hver er það sem engu getur leynt?

Hver var það sem lék við lömbin sín

og litlum höndum strauk um augu mín?

 

Hver var það sem út um engi og tún

alltaf hljóp svo létt og hýr á brún?

Hver var það sem fuglahreiður fann

og flýtti sér að hitta næsta mann?

 

Hver var það sem kom með falleg blóm?

Hver var það er söng með þýðum róm?

Hver var það sem kyssti þreyttan mann?

Hver hefur stundum raulað fyrir hann?

 

Hver er það sem kyssir aldrei meir?

Hver mun ver til sem ekki deyr?

Hver á valdið - veginn - okkar land?

Hver velur okkur lífsins talnaband?

 

Hver var það sem kvaddi allof fljótt

en kemur oft og býður góða nótt?

Hver er nú hjá læk við litla tjörn

að leika sér við falleg engla börn?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Guðmundsson

Þetta ljóð er ort til dóttur hans Þóreyjar sem drukknaði í sundlaug Akureyrar 1964.

Hilmar Guðmundsson, 1.9.2007 kl. 17:35

2 Smámynd: Hilmar Guðmundsson

Annað ljóð Vorflug orti hann líka til hennar og verður það birt hér síðar.

Hilmar Guðmundsson, 1.9.2007 kl. 17:37

Höfundur

Hilmar Guðmundsson
Hilmar Guðmundsson
Málefni fatlaðra og aldraðra er mér ofarlega í huga.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband