Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
16.11.2007 | 01:00
En
hvort heitir konan Hilde Pedersen eða Hilde Petersen?
Því ef hún er Pedersen gætum við kannski rekið saman ættir.
Hún hlýtur að vera Pedersen því púkinn samþykkir ekki hitt nafnið.
Sambýliskonan lenti í 3. gráðu yfirheyrslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2007 | 15:11
Átti hálkan sinn þátt í óhappinu
Hvað var um það að aka eftir aðstæðum, er það ekki inn í dag?
Allt of algengt að menn kenni hálku um eða einhverju öðru.
Bíll valt niður í grýtta fjöru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.11.2007 | 15:04
Jólaljósin
Er þetta ekki full seint?
Ég bara spyr?
Jólaljósin sett upp í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.11.2007 | 14:59
84 ára
Í tilefni af því að pabbi Guðmundur Árni Valgeirsson hefði orðið 84 ára í dag ætla ég að birta það sem hann orti um hluta barna sinna. Þetta er án heitis.
Anna er að naga bein
nagar það eins og hún væri með s(S)tein,
Valgeir öskrar hér alla stund
svo ómurinn berst yfir hæð og sund,
Kolla hún liggur á kvöldin og raular
um ketti, hunda, beljur og hross,
en Brósi hann argar og bullar og gaular
þá bið ég hann Zírak að vermda oss.
Svona er lífið á sveitar bæ
og svona er það líka um bláan sæ,
að börnin þau frýsa og fljúgast á
eins og folar í stóði og grenja þá.
9.11.2007 | 16:29
Grund
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
Grund
Alltaf pissar Drottinn þegar mann langar til, sagði Sólveig gamla um leið og hún skrúfaði frá krananum og sá vatnið renna í balann. Já það má nú segja, þeir eru aðrir tímarnir nú en á meðan hann Ólafur minn var og hét, þá kom nú ekki vatnið rennandi upp í hendurnar á manni, frekar en annað, ó nei sei sei. Þá dugði nú ekki að rétta aðeins út hendurnar eftir hlutunum, þeir komu ekki fyrir það nei ónei, það skildi nú þurfa meira til eftir því sem ég man best, ójá þessi svo kallaða menning færir manni allt upp í hendurnar nú þarf ekki lengur að slá með orfi, það þykir víst ekki nógu fínt fyrir ungu mennina nú til dags, það þykir víst fínna að vera heylaus á hverju vori. En ég er hrædd um að honum Ólafi mínum hefði ekki líkað þessi vinnubrögð, ja ef vinnubrögð skal kalla, ég get ekki séð að þetta fólk nú til dags vinni mikið, því líkt og annað eins að hugsa sér það yfir hábjargræðistímann að fara á fætur klukkan átta á morgnana, drekka þá kaffi, fara út og hringla eitthvað koma svo inn aftur klukkan hálf tíu og sitja þá inni alltaf í hálftíma, hringla svo eitthvað fram til klukkan tólf koma þá heim og liggja svo inni á annan klukkutíma, hvílík vinnubrögð, matur og kaffi og aftur matur og kaffi en ekkert gert. Ég væri ekki hissa á því þó hann Ólafur minn snéri sér við í gröfinni ef hann sæi allt þetta háttalag. Nei það skildi ég ekki lá honum blessuðum. Það var annað í hans búskapar tíð, þá var komist á fætur á morgnana en ekki sofið undir hádegi eins og nú er gert, þá var öldin önnur. Ekki man ég nú til þess að honum Ólafi mínum fyndist taka því að setjast niður þó hann slafraði í sig einhvern matarbita, ekki svona yfir hábjargræðistímann að minnsta kosti. Nei ónei slíkt lét hann ekki um sig spyrjast hann Ólafur minn á meðan hann gat eitthvað. Ja það má með sanni segja að það voru aðrir tímar, þá var nú líka talin höfuðdyggð allra manna að skulda ekki neinum neitt og vera bjargálna. En nú virðist það öfugt, allir reyna að skulda sem mest og vera sem mest upp á aðra komnir. Ég er hrædd um að honum Ólafi mínum hefði fundist lítið til koma að fá þessa déskotans bréfasnepla fyrir sauðina sína eða aðrar búsafurðir eins og þeir fá nú til dags, já ó já hann vildi hafa það beinharða gullpeninga hann Ólafur minn, ja því segi ég það sem ég segi mannskepnan er á hraðri leið niður á við þrátt fyrir allt þetta brölt sem þeir kalla menningu. Nú lifir unga fólkið ekki nema stutt fram eftir ævinni en við þessi gömlu hró hjörum alveg fram í andlátið, ja því segi ég það sem ég segi. Nú er klukkan farin að ganga átta og engin komin á fætur enn, þó að ég þetta gamla skar, sem bráðum er komin fjögur ár á hundraðasta tuginn, sé búinn að hökta á löppunum í rúma tvo tíma, því segi ég það að heimur versnandi fer, ekki held ég að honum Ólafi mínum hefði líkað þetta.
Góðan daginn amma sagði Ólafur bóndi Ólafsson, sona sonur Sólveigar gömlu sem kom geispandi inn í eldhúsið, þú ert nokkuð tímanlega á fótum eins og fyrri daginn. Ægi ég
held að það sé skemmtilegra að allir sofi ekki fram að hádegi hérna á Grund ég er hrædd um að honum Ólafi mínum hefði nú ekki líkað það.
Já en það eru aðrir tímar núna enn þá og starfshættir manna öðruvísi það verður þú að athuga amma sæl.
Ég held maður kannist við þessa breyttu tíma, því nú má helst enginn maður reyna neitt á sig það þykir víst ekki nógu fínt lengur að vinna heiðarlega og þá allra fínast að vaka á næturnar en sofa á daginn, hjá þessu unga fólki minnsta kosti. Ég er hrædd um hann Ólafur minn hefði ekki látið slíkt viðgangast á sínu heimili.
Jæja amma mín, sem betur fer er vinnuharkan ekki eins mikil og áður var, Þegar fólkið mátti ekki einu sinni setjast niður meðan það að borða, eða svo var það hjá honum afa mínum, yfir sláttinn að minnsta kosti. En hvað ætlarðu að fara að gera við þetta vatn, þú ætlar þó ekki að fara að þvo, ég ætla að biðja þig að láta slíkt vera, þær eru víst ekki of góðar til þess stelpurnar.
Nei ónei ég ætla ekki að fara að þvo þær hugsa víst um það stelpurnar, það er ábyggilegt minnsta kosti þvo þær af sér brækurnar, ég taldi nú hvorki meira né minna en átján úti á snúru í gær, af þeim tveimur, eftir eina einustu viku, ja það má nú segja að þær ganga ekki brókarlausar stúlkurnar hérna á Grund að minnsta kosti ekki of lengi í þeirri sömu, svo er þetta gisið eins og silunganet, það getur hver sem séð í gegn um þær. Nei það er af sem áður var nú er ullin ekki lengur nógu góð í klofið á ungu stúlkunum, ég er hrædd um að honum Ólafi mínum hefði ekki líkað þetta.
Já þú varst að tala um hvað ég ætlaði að gera við vatnið að tarna veistu það ekki að það á að ganga á morgunn og einhver þarf líklega að reyna að lina undir piltunum varla fara þeir með þá beinharða í göngur frekar nú en venjulega.
Já en veistu ekki amma að það eru allir hættir að ganga í leðurskóm. Ja því læt ég svona þessir nýju tímar og Þessi nýja menning sem alla ætlar að gera vitlausa, hvað skyldi hann Ólafur minn segja núna. Það er víst best fyrir mig að grípa prjónana, það er víst það eina sem ég get haft fyrir stafni héðan af. Sólveig gamla gekk út úr eldhúsinu og lokaði á eftir sér.
Ja hún amma gamla hún lætur ekki að sér hæða frekar en venjulega, já hún er öll í gamla tímanum blessuð kerlingin, það er ekki að furða þó hún sé farin að ganga í barndóm níutíu og fjögra ára gömul, eins og hún er líka búin að vinna um dagana kerling sú. Ólafur reis á fætur teygði úr sé og geispaði, hann var stór og myndarlegur maður og talinn hraustastur manna þar um slóðir. Hann var ókvæntur, þó hann væri þrjátíu og tveggja ára og búinn að reka búskap í fjórtán ár á eigin spýtur.
Þó Ólafur væri vel efnum búinn og hefði tekið við góðu búi eftir lát foreldra sinna, vanhagaði hann samt um marga hluti sem honum fannst hann þurfa að eignast til þess að geta rekið búskapinn af fullum krafti og myndarskap eins og hann langaði til, þá var það eitt sem hann vanhagaði aldrei um það var kvenfólk, af því gat hann alltaf fengið nóg og meira en það, því venjulega buðust honum sex til átta stúlkur til kaupavinnu á hverju vori, þó hann þyrfti ekki nema á tveimur að halda.
Ólafur fór að ýta við kaupafólkinu og segja því fyrir verkum, því sjálfur ætlaði hann að fara í kaupstaðinn til þess að ná sér í eitthvað gott í nesti fyrir morgundaginn. Það er góðra manna siður eins og allir vita þegar göngur eru annars vegar að hrista af sé rykið og drungann sem hversdagsleikinn hefur hlaðið utan um mann, vikum og mánuðum saman, að hefja jarðbundinn andann til flugs á töfravögnum gullna veiga og láta hann svífa um sólvarða heima, sælu og ævintýra.
Fólkið hópaðist að úr öllum áttum. Allir sem vettlinginn gátu valdið bæði ungir og gamlir, reyndu að láta sig ekki vanta á réttina þennan hátíðlega dag, þegar fjárhópi þriggja sveita var smalað til rúnings í eina rétt.
Stúlkurnar voru vel klæddar fötum, sem túlkuðu hin kvenlegu vött þeirra í eins ríku mæli og siðferðislegt almenningsáliti yfirstandandi tíma leyfði. Fas þeirra og yfirbragð túlkaði skírast þann ákveðna ásetning þeirra að vinna sér mestra hylli hinna vösku manna sem komu ríðandi ofan hæðirnar með stóran fjárhóp á undan sér, hóandi og öskrandi, veifandi pískum og jafnvel brennivínsflösku.
Féð var rekið til réttar, gangnamennirnir stigu af baki, bundu hesta sína, settust undir réttarvegginn og fengu sér matarbita og vættu kverkarnar með ljúffengum vökva, sem ríkisstjórnin miðlar þegnum sínum til andlegrar uppbyggingar og heilsubótar.
Að lokinni máltíð söfnuðust mennirnir í smá hópa, skáluðu og ræddu um göngunnar, skáluðu aftur og fóru svo að draga.
Sumir voru orðnir valtir á fótunum og sóttist því illa drátturinn, þeim gekk illa að þekkja markið sitt og enn ver að handsama féð.
Einn bóndinn elti svarkollóttan hrút aftur og fram um réttina sótbölvandi og sagðist aldrei hafa átt bölvaðri skepnu á ævi sinni, hann hét hrússa því að ef hann ætlaði að halda áfram að hlaupa svona á undan sér, skyldi hann ábyggilega ekki lifa lengur en til haustsins. En hrússi lét ekki segjast hann hélt áfram að hlaupa aftur og fram um réttina á undan húsbónda sínum og skeytti engum hótunum, fyrr en Ólafur bóndi á Grund þreif með annarri hendinni í hálsinn á honum og hélt honum föstum. Steingrímur, bóndinn sem átti hrútinn kom nú slagandi til Ólafs og þakkaði honum greiðan gaf honum snafs og fékk sér náttúrlega einn um leið þó varla væri á bætandi.
Steingrímur var lítill maður og klofstuttur en surtur stór og fóta hár svo að þeir pössuðu ekki rétt vel saman. Þegar Steingrímur var búinn að stinga miður fleygnum, þreif Ólafur í öxlina á honum setti hann á bak á þann svarkollótta og sló í. Steingrímur náði varla niður með fæturna, svo honum gekk illa að hafa stjórn á þeim svarta, þeir tóku í fyrstunni stefnu á dilk Steingríms en brátt beygði surtur af réttri leið og Steingrímur hóf gandreið á hrútnum um réttina þvera og endi langa og hélt sér dauða haldi til þess að detta ekki af baki. Engin veit hver endirinn verður í upphafi ferðar. Steingrímur hefði mátt spara hótanirnar við þann svarkollótta, því nú varð það hrússi sem hafði yfir tökin. Eftir nokkrar hringferðir um réttina missti Steingrímur jafnvægið og hvarf í iðandi fjárhafið sem gekk í bylgjum aftur og fram um réttina. Vökin sem hann féll ofan um lokaðist og Steingrímur fann volga strauma líða yfir andlitið á sér honum svelgist á um leið og einn bóndinn reisti hann á fætur.
Ungu stúlkunum varð tíð litið til Ólafs bónda á Grund þar sem hann óð um réttina eins og hvalur með eina kind í hvorri hendi. Þó að Ólafur væri orðinn töluvert kenndur var hann stöðugur á fótunum og hálfur fyrir ferðameiri en venjulega, enda var hann langt kominn að draga þegar flestir voru tæplega hálfnaðir.
Ólafi vantaði ómarkað lamb undir eina ána sína, reyndar var hann búinn að sjá það uppi á afréttinni, svo hann þekkti það, það var grár hrútur en hvernig sem Ólafur leitaði fann hvergi hrútinn. Fyrst hélt hann að þetta væri fyrir það að hann sæi svo illa vegna þess að hann var orðinn vel hálfur,en eftir langa og ítarlega rannsókn komst hann að þeirri niðurstöðu að annað hvort hefði einhver dregið hrútinn eða hann hefði orðið uppnuminn en það þótti Ólafi frekar ósennilegt.
Ólafur ákvað að ganga á milli dilkana og leita að hrússa, honum þótti slæmt að tapa eina gráa lambinu sem hann hafði fengið í mörg ár, sér í lagi vegna þess að hrússi var af góðu kyni og þess vegna tilvalin lífshrútur.
Ólafur bekk á röðina á dilkunum og spurðist fyrir um hrútinn og leit yfir hópinn um leið, því hann treysti ekki öllum bændunum of vel vegna þess að þeir voru þekktir að því sumir hverjir að vera djarfir til fjár, ekki síður en kvenna, þó að Ólafur væri ef til vill í hópi þeirra síðarnefndu var hann alveg laus við að hirða fleira fé en hann með réttu átti. Þegar Ólafur var búinn að ganga á rösklega helminginn af dilkunum sá hann mann innan við grindurnar á einum dilkinum með gráa hrútinn í klofinu og hníf í hendinni. Maður þessi var bóndi úr næstu sveit stór og sterkur og talin ófyrirleitinn fram úr hófi, ásælni í ómerkinga og sumir vildu halda því fram að hann tæki fleira til handargagns sem yrði á vegi hans.
Ólafur snaraðist inn í dilkinn og gekk til bóndans. Ég ætla að biðja þig fyrir að láta það ógert að marka fyrir mig hrútinn undir þitt mark lagsmaður sagði hann og lagði höndina á öxl bóndanum, bóndinn sem var orðin vel kenndur, hleypti brúnum vatt sér til og mundar hnífinn til þess að staðfesta eignarrétt sinn á þeim gráa, þú átt ekkert í þessum hrúti, hann er þrílembingur undan þeirri grákollóttu minni og mér finnst það helvíti hart þegar ókunnugir menn koma vaðandi til manns og bera upp á mann sauðaþjófnað slíkt getur komið hverjum meðal manni úr jafnvægi. Það getur líka komið hverjum meðal manni úr jafnvægi að horfa upp á sinn einasta gráa hrút markaðan undir annars manns marki sagði Ólafur um leið og hann hratt bóndanum til og greip hrútinn áður en hann gat gert alvöru úr því að skella á hann markinu og henti honum fram í almenninginn. Rífurðu af mér hrútinn helvítis hundsstyrkinn öskraði bóndinn, henti frá sér hnífnum og réðst að Ólafi og ætlaði að sparka í hann, Ólafur var við þessu búinn, hann brá sér undan og greip í löppina á bóndanum svo hann aftur yfir sig flatur í drulluna, bóndinn stökk á fætur og réðst á Ólaf, þeir tókust fangbrögðum og sviptust fram og aftur um dilkinn svo vart mátti á milli sjá, bóndinn hafði náð hálstaki á Ólafi og hallaði því frekar á hann ef nokkuð var, leikurinn harðnaði smátt og smátt þeir reyndu að bregða hver öðrum og neyttu allra bragða til þess að keyra hvorn annan undir. Ólafur var farinn að blána í framan honum lá við köfnun, bóndinn herti hálstakið eins og hann gat svo Ólafi fannst hann vera að snúast úr hálsliðnum skyndilega datt honum gamalt bragð í hug sem hann hafði lært fyrir mörgum árum, hann tók á öllu sem hann átti og keyrði þumalfingurinn á milli rifjanna á bóndanum, bóndinn rak upp öskur og linaði hálstakið svo Ólafur gat slitið sig lausan. Ólafur tók nokkur andtök og blés eins og stórhveli því næst þreif hann með annarri hendi í öxlina á bóndanum og hinni í lærið hóf hann á loft og henti honum á grindurnar, bóndinn þeyttist inn í almenning með veltandi spýtna brak allt í kringum sig, en þegar ærnar hann sem voru orðnar hræddar af öllum þessum látum sáu að það var greiður gangur fram í almenninginn tóku þær á rás og tróðu ofan á húsbónda sínum sem byltist um bölvandi á fjórum fótum frami í almenningnum. Ólafur gekk má eftir fjárhópnum leitaði uppi gráa hrútinn sinn og kom honum í réttan dilk. Jæja sagði hann, við eigum ábyggilega báðir skilið hrússi minn að þú lifir og verðir fallegur hrútur sem rollunum líst vel á þú verður að fyrirgefa þó ég meiði þig svolítið, mér er afskaplega vel við þig þó að vinarhótin komi svona út í þetta skiptið.
Ólafur tók upp hnífinn og markaði hrútinn. Hann barðist um og jarmaði, en þegar Ólafur sleppi honum hoppaði hann upp í loftið, hljóp til móður sinnar og byrjaði að sjúga úr henni volga mjólkina, dillaði ákaft rófunni og gaf til kynna með því að hann væri ánægður með sitt hlutskipti ekki síður en Ólafur.
Þegar Ólafur var búinn að rýja sendi hann annan vinnumanninn og báðar stúlkurnar heim með ullina en lét hinn reka með sér féð til afréttar. Þegar þeir voru búnir að ganga frá fénu skáluðu þeir fyrir sér og fénu stigu á bak á hesta sína og riðu léttan heim dalinn. Ýmsir aðrir bændur sem styttra ráku slógust í förina með þeim á heimleiðinni. Þegar þeir voru komnir miðja vegu heimleiðis hittu þeir unga stúlku sem var að reyna að festa hnakkinn á hestinn sinn. Þeir stoppuðu hjá henni Ólafur stökk af baki, bauð henni hjálp sína og sagði hinum að þeir mættu halda áfram. Stúlkan sagði honum sínar farir ekki sléttar hún hafði verið að elta hest, en þegar hún var rétt búinn að komast fyrir hann, datt hesturinn sem hún reið á svo hastarlega að hún flaug af með hnakkinn í klofinu langt út í móa. Ólafur tjaslaði saman gjörðina og reiðanum sem hvort tveggja hafði slitnað og lagði hnakkinn á hestinn. Hann virti fyrir sér stúlkuna, hún var í meðallagi há, lagleg í andliti með hvelfda bringu ögrandi mjaðmir og fallega fætur. Það lá við að Ólafur tækist allur á loft eftir niður stöðum á þessari athugun, hann mundi ekki eftir að hafa séð þessa stúlku fyrr, hún hlaut að vera einhversstaðar langt að. Hvað er orðið af hestinum sagði hann og horfði rannsakandi í allar áttir. Hann hljóp fram allan dal sagði stúlkan. Ekki mættum við honum á leiðinni. Nei hann fór hinu megin í hlíðinni sagði stúlkan og horfði raunamædd fram dalinn, ég líklega næ honum ekki hann er alveg vitlaus í stroki. Ertu búin að elta hann lengi spurði Ólafur. Já ég er búin að elta hann síðan eldsnemma í morgun og hesturinn minn er að verða alveg uppgefin.
Þú hlýtur að vera komin langt að. Já ég er búinn að fara yfir hundrað kílómetra í dag nærri því hvíldarlaust, ég kem frá Stað í Sléttudal. Hvað heitir þú spurði Ólafur, ég heiti Ólafur og er frá Grund. Ég heiti Sigrún sagði stúlkan. Eigum við ekki að halda á stað á eftir hestinum klukkan er að verða tvö. Ætlarðu að koma með mér sagði Sigrún, og það hýrnaði heldur yfir henni. Já auðvitað sagði Ólafur ég er á góðum hesti og óþreyttum, svo okkur ætti ekki að verða skotaskuld úr því að handsama hann.
Þau lögðu á stað og riðu fram dalinn, þau sáu hilla undir hestinn á leiti framarlega í dalnum hann var stoppaður við gil og skimaði í allar áttir. Þau hertu reiðina og komust að gilinu nokkru neðan við hestinn.
Ólafur sagði Sigrúnu að bíða en reið upp að hestinum, hesturinn tók á sprett og hljóp niður gilið fram hjá Ólafi, Ólafur snéri hestinum við og hleypti á eftir honum eins hratt og hesturinn komst, eftir stuttan sprett komst hann fram með hliðinni á stroku hestinum henti sér af baki á hálsinn á honum og stöðvaði hann eftir stutta viðureign. Sigrún horfði á þessar karlmannlegu aðfarir og aðdáunin skein út úr hverjum andlitsdrætti á henni. Ólafur beislaði hestinn og þau héldu heim á leið.
Klukkan var orðin fimm þegar þau komu heim að Grund. Sólveig gamla mætti þeim í dyrunum og virti Sigrúnu gaumgæfilega fyrir sér. Þau stigu af baki og heilsuðu gömlu konunni.
Mér þykir þú ekki koma tómhentur heim Ólafur litli, það er heitt á könnunni ef þið viljið fá ykkur svolítinn sopa sagði Sólveig gamla og gekk inn í eldhúsið og fór að taka til kaffið. Sigrún og Ólafur gengu inn á eftir henni og fengu sér sæti við borðið, gamla konan fór að virða Sigrúnu enn betur fyrir sér, eftir nákvæma athugun fór hún að tauta við sjálfa sig í hálfum hljóðum. Ég er hálf hrædd um að svona lagað hefði nú átt við hann Ólaf minn blessaðan þegar hann var ungur, hún kom með kaffið á borðið og fór síðan út. Sigrún og Ólafur drukku kaffið töluðu fátt, en litu öðru hvoru hvort á annað þegar þau héldu að hitt tæki ekki eftir því.
Sólveig gamla kom inn eftir svo litla stund og sagði, ég er búinn að búa um stúlkuna í stofunni ef hún getur gert sér það að góðu að sofa þar.
Það er best að fara að koma sér í rúmið sagði Ólafur og reis á fætur. Sigrún reis einnig á fætur og þakkaði fyrir sig, ó það er ekkert að þakka hróið mitt sagði Sólveig gamla, þú getur fylgt stúlkunni og sýnt henni hvar hún á að sofa Ólafur. Sigrún og Ólafur gengu fram og stoppuðu fyrir framan stofu hurðina, Sólveig gamla læddist í humátt á eftir þeim.
Hér átt þú að sofa Sigrún sagði Ólafur og rétti höndina, góða nótt - góða nótt sagði hún og tók í framrétta hönd hans. Þau horfðust í augu og hvorugt sleppti, þannig stóðu þau nokkur augnablik, en þá stóðst ekki Ólafur lengur mátið hann tók um herðar Sigrúnar og kyssti hana beint á munninn, hún vafði handleggjunum utan um hálsinn á honum og þrýsti sér að honum, blóð rjóð í kinnum titrandi af feimni og spenningi. Ólafur beygði sig niður og tók hana í fangið eins og barn, gekk nokkur skref eftir ganginum og opnaði hurðina, það var ekki hurðin að stofunni. Þetta gæti ég trúað að hefði átt við hann Ólaf minn sagði Sólveig gamla um leið og hún skaust fram í forstofuna.
9.11.2007 | 15:46
GAMBRAVÍKUR JÓN
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
GAMBRAVÍKUR JÓN
Gambravíkur Jón gekk niður eftir aðalgötunni í Gambravík með byssu reidda um öxl, hann var að fara á sjóinn. Það var ekki hægt að segja að Jóni miðaði vel áfram, sem varla var von, því hann var haltur á hægri fæti og átti heldur erfitt um gang. Hann var oft búinn að sjá eftir því að hann skyldi stökkva fram af húsinu forðum daga þegar hann var ungur. Já það var nú ljóta óhappið.
Svoleiðis var mál með vexti að þegar Jón var ungur var hann á gangi einn dag með félögum sínum niður í fjörunni, þeir gengu fram hjá fiskhjalli sem var um fjórir metrar á hæð, öðrumegin við hjallinn var dálítill skafl, einn strákurinn hafði orð á því að það mundi engin þeirra félaga þor að fara upp á skúrinn og stökkva niður í skaflinn. Jón hélt að það væri ekki mikill vandi að stökkva niður af hjallinum þeim arna ef eitthvað væri í boði, en hann sagðist ekki sjá ástæðu til þess að gera það ekki fyrri neitt.
Það varð að samkomulagi að Jón stykki niður af hjallinum morguninn eftir klukkan níu, félagar hans ætluðu að auglýsa skemmtun þessa vel um allt þorpið og aðgangur átti að vera einn þorskhaus eða eitthvað annað sem hefði álíka mikið verðgildi. Morguninn eftir klukkan níu var kominn mikill fjöldi niður að hjallinum og allir greiddu aðgangseyri möglunarlaust, það var komin álitlegur stafli af þorskhausum og ýmsu öðru fleiru, allt upp í laglegustu vettlinga. Gambravíkur Jóni leist vel á þennan fjársjóð sem beið hans þarna á götunni. Hann snaraðist upp á hjallinn og gekk eftir mæninum virðulegur og ákveðinn og stökk fram af.
Honum fannst innyflin lyftast upp í munn, hann kenndi mikils sársauka í hægra lærinu þegar hann kom niður, svo mikils sársauka að hann valt útaf, hann hljóðaði og nuddaði lærið, það var brotið, í örvæntingu sinni leit hann á fólkið, einn kunningi hans gekk til hans, þú hefðir átt að gera þetta í gær sagði hann ósköp rólegur. Jón leit í kringum sig. Nú skildi hann hvernig í öllu lá, það hafði hlánað um nóttina og skaflinn var farinn.
Gambravíkur Jón ýtti frá landi og reri út á miðin. Hann kastaði færinu út og byrjaði að skaka í djöfli, eins og það var kallað á sjómanna máli. En það var sama hvernig Jón skók hann varð ekki var, hann færði sig til en allt kom fyrir ekki.
Það var farið að líða á kvöldið þegar Jón dró færið inn fyrir full og allt og réri til lands, á leiðinni í land sá hann æðarkollu sem vaggaði sér á öldnum í mestu rólegheitum örugg og lífsglöð, rétt eins og hún væri búinn að mæla sér mót með einhverjum myndarlegum blika sem myndi koma á hverri stundu. Gambravíkur Jón damlaði hægt og rólega í áttina til kollunnar þangað til honum fannst færið orðið hæfilegt, þá lyfti hann byssunni, miðaði vandlega og skaut ----- kollunni skelk í bringu.
Bloggvinir
Eldri færslur
2020
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar