23.7.2007 | 11:15
11. Ljóð
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
FLÓTTINN
I
Loftsins gígjur ljóðin syngja
laugast jörð af sólar il.
Vorsins bjöllur kátar klingja
kveða niður stormsins byl,
vonir frjálsum vængjum blaka,
vaknar löngun hjartans prúð,
fuglar loftsins léttir kvaka,
ljómar hlíð í grænum skrúð.
Lömb sér eftir leika grundum,
lífið stígur töfra dans,
í skjóli inni í skógar - lundum
skrautleg blómin flétta krans.
Fiskar eftir sjónum synda,
sveimar þeyr um loftið dátt,
allir sama bandið binda,
búa starf í líka átt.
Allir leita að ljúfum vini
þá lífsins þeir hefja starfið fyrst,
sálir tengja í sama skyni
suðræn heimsins börn og nyrst.
Svo lengi sem hér líf skal haldast,
þarf lögmál slíkt að stjórna því.
Það á hver einstök vera að valdast
ef visnar ein svo komi ný.
II
Sveitirnar byggðust innst í Íslands dali
og ýmsir reistu bæi upp á heiðum,
þar sem næddi næðingurinn svali
og norðan stórhríð huldi merki á leiðum.
Þar dafnaði menning í moldarkofum lágum
og mótaðist fólk með skapgerð harða og trausta.
Það gafst sjaldan upp þó fyndist fátt af stráum
og fengurinn lítill er tekið var að hausta.
Með lélegt áhöld barist var í bökkum,
birtan var látin ráða vinnutíma,
heyið var flutt á hestum upp á stökkum
hengt á klakka, það var erfið glíma.
Það var saman reitt í rökum sundum,
reyndist víða baggi í stað og minna.
Flestir máttu eyða fleiri stundum,
að fara á milli bæja og slægna sinna.
En þetta var fólk sem trúði og treysti á landið
og talaði fagur mál með hrinum hljómi.
erfiðleika stríðið ótta blandið
var aðalsmerki þess og hetju sómi.
Kjörorð þess var að kvarta ekki og vola,
því kjarkurinn var stærsta óska barnið,
þó að stundum næddi nöpur gola
og nokkuð lengi stæði vetrar hjarnið.
Bændur urðu að búa vel að sínu
og búpening sinn ekki láta falla,
annars mundi allt úr hungri og pínu
enda sitt líf, þá vetri tók að halla.
Reynslan þeim kenndi að spara allt við alla,
alltaf á beit þeir ráku fé í haga,
margir fóru með sitt hátt til fjalla
og mokuðu af kappi snjónum alla daga.
Á vökunni oftast rímur karlar kváðu,
en konur gerðu skó og spunnu á rokka,
sumar kembdu ull en aðrar táðu,
sem átti að fara í peisur eða sokka.
vefur sleginn var og tíðum unnið
vaðmál er seinna notað átti í klæði,
svo var líka af sumum hrosshár spunnið
og sumir húðir rökuðu í skæði.
Lýsis kolan lengi var það eina
ljós sem notað var er dimmdi á kveldin,
hlýju fengu menn við hlóðasteina
og hlífðar fötin þurrkuðu við eldinn.
En þessir tímar löngu liðnir eru
og ljósin núna kveikt með einum rofa,
samt þreytast menn á sinni vistar veru
og virðast þurfa langtum meira að sofa.
III
Nú er hin gamla bænda menning brotin,
böðlarnir veifa Axlar - Bjarnar sveðju.
Launvígum fjölgar, andans auðlegð þrotin,
örkumla heilar mynda sóknar keðju.
Niðurrifs stefna öllu góðu grandar,
gróðabralls flokkar svíða lendur jarðar,
fólkið hrökklast sem flóð - bylgja til strandar
flýjandi niðjar Júdasar og Marðar.
Straumarnir öfugt streyma nú með hraða,
stormsveipir lífsins mörgum flötum kasta.
Stjórnlausir hópar áfram villu vaða,
vonglaðir halda til spillingar og lasta.
Átthaga fjötrar ekki geta bundið
andlausa menn né bjargað þeim frá grandi.
Börnin flytja í borgina við sundið,
en bæirnir standa tómir inni í landi.
IV
Stansaðu maður, hver er köllun þín
og hver hefur sagt þér að ganga þessa braut?
Þó hún virðist fær við fyrstu sýn,
finnur þú aðeins það sem annar hlaut.
Þessa götu halda margir menn,
í moldviðri lífsins, og þeir fá kaupið greitt,
kaupið sem er að koma og fara í senn,
kaupið sem er verra en ekki neitt.
Hvert á að fara hver hin rétta leið,
kanna og sigla vítt um ókunn höf?
Nei! Þú hefur grafið undir grænum meið
gullið sem þú fékkst í vöggu gjöf.
Snúðu við heim og grafðu upp gullið allt
og gefðu þeim sem lítið hafa í skut,
þá munt þú fá það borgað þúsundfalt
en þrjátíu dali annars réttan hlut.
23.7.2007 | 10:49
Spilling
Er ekki þar kominn skýring á því hvað hann hefur sloppið legni við réttvísina að hann er í vináttum tengslum við stjórnmálamenn?
Þeir eru víða spilltir.
![]() |
Alræmdur glæpamaður felldur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.7.2007 | 10:39
Strand
23.7.2007 | 10:36
Úps!!!!!!
Beygði á vitlausum stað????
![]() |
Bátur strandar við Skagaströnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.7.2007 | 17:34
10. Ljóð
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
DÓMAR
Í Rússlandi var upp réttur hafinn,
af réttlæti eins og vera ber.
Tvö sagnaskáld voru sagna krafin
og sett undir flokksins mæliker.
Því valdhöfum finnst ekki viðunandi
að vaða þar uppi kjaftaskar
og séu með fleipur frá sínu landi,
um sovéskt réttlæti og stjórnarfar.
Þar má enginn segja meiningu sína,
ef mótuð hún er í skakka átt,
né dæma menningu drykkju svína
eða drullusokka á nokkurn hátt,
tala um þjófa eða þá sem á sníkjum
þrífast og ganga flokksins veg.
Þar sem fasisminn ræður ríkjum
er reynslan döpur og svakaleg.
Bræðralagið því best þeir móta,
með böðuls hendi og köldum múr.
Háttsetta menn þeir hengja eða skjóta,
en hina setja í fanga búr,
og senda í þrælkun til Síberíu,
við sult og kulda þeir höggva skó.
Því aftur skal þræða nú að nýju
nástrikið, það sem Stalín dró.
Sovétskar stjórnir siðfræði kenning,
er svipuhögg fyrir menntaðan heim.
Hver trúir að ríki það raunhæf menning
og réttlætið finnist aðeins hjá þeim.
Þó ýmislegt þyki að okkar landi,
illa sé stjórnað og framtakið slappt.
Þá höngum við ekki eins og hundar í bandi
harðlega mýldir með lokaðan kjaft.
19.7.2007 | 21:21
9. Ljóð
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
EKKI NEITT
Skálin vil stólinn stundi lágt
og starði út í loftið drauma blátt.
Hún sagði við krukkuna,
hvað ert þú að gera?
Komdu ekki nálægt mér
láttu mig vera.
En krukkan sagði,
er ég nokkuð öðruvísi en þú?
Jú - ofurlítið stærri
og myndarlegri frú.
Oftast getur stóllinn
einhverja seitt
enda er kvæðið búið
og heitir
- ekki neitt.
19.7.2007 | 21:10
Bylting
Bylting í Íran?
Hver trúr því að Bandaríkin eigi aðild að því að reina að veikja stjórnina til þess að koma af stað byltingu?
Eru Bandaríkjamenn vanir að skipta sér að annarra landa málefnum?
Getur einhver bent á dæmi?
![]() |
Íransk-bandarískir fræðimenn í haldi tjá sig í sjónvarpi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.7.2007 | 21:04
Bush
Ef Bush hefði ráðfært sig við sömu aðila í sambandi við Írak þá væri mannfall þar kannski innan við 200.000.
En greinilega voru einhverjir aðrir sem fóru með ráðgjöf þá, því allir vita hverjar afleiðingar af þeim afskiptum hafa verið.
![]() |
Bush íhugaði að senda herlið til Darfur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.7.2007 | 00:55
8. Ljóð
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d: 17.04.1976
FUGLARNIR HANS
Hann byrjað sitt líf við bjartan sjó
og bjó til fugla úr tré og smiðju mó
hann gat líka sungið í þá sál
hann sjálfur skildi heimsins fuglamál.
Sá einn er skáld sem talar lífsins tungur
talar fagurt mál og byrjar ungur.
Með hörpu sinni fann hann þeirra flug
og fylltist nýjum þrótti og hetjudug
hann lét þá alla svífa í sólar átt
með sigur för um loftið drauma blátt.
Sá einn er skáld sem andans flugið finnur
flýgur móti sól og heiminn vinnur.
Fuglarnir hans fljúga vítt um geim
fljúga um liðnar aldir koma heim
og syngja okkur litlum mönnum ljóð
til lífsins aftur vekja kalda glóð.
Sá einn er skáld sem engin getur gleymt
í gullunum hans, sjálfan endur heimt.
Hörpunnar við skynjum helgi dóm
því heilladísir sungu í hana hljóm
og gáfu henni vorsins helgu vé
sem vöktu líf í smiðju mó og tré.
Sá einn er skáld sem stillir hörpu strengi,
strengi sem geta hljómað hátt og lengi.
Sá einn er skáld sem skilur heimsins mál
skáld sem hefur ódauðlega sál
því gaf hann sínum litlu fuglum flug
og flugið var með reisn og stórum hug.
Þeir svífa hátt hjá sólarströndum björtum
og syngja ljóðin hans í okkar hjörtum.
17.7.2007 | 00:48
7. Ljóð
Höfundur: Guðmundur Árni Valgeirsson
Auðbrekku
f: 11.11.1923 d:17.04.1976
GÖMUL SAGA
Mildur ómur berst til bæja,
bítur gola, ekki hvasst.
Undir hófum hlíðar hlæja
hljóms við hamra endur kast.
Fölvi sést á fjalla brúnum,
fyrir ofan stjörnu glóð.
Liprir fætur rista rúnum
raka moldar götu slóð.
Selið langt að baki blundar,
bíður morguns lágt og hljótt.
Burt frá mjúkri hvílu kenndar,
halur ríður þessa nótt.
Dimmt er fyrir dökkum augum,
dapurt yfir ungum hug.
Eldur brennur ört í taugum
með örvæntingar neista flug.
Hann var saklaus, sekur dæmdur,
sagður hafa vegið mann.
Eignum sínum rúinn, rændur
af rekk sem lyga vefinn spann.
Sviptur öllum sóma og æru
sekur gengur skógar leið
til unnustunnar ungu og kæru
upp í selið strax hann reið.
II
Ljómar jörð á lygnu kveldi
lindir streyma hljótt við ból
himins hvelfing, unaðs eldi
aftan roða, merlar sól.
Endurskin frá ám og flóum,
eykur heimsins lita val.
Ilmur berst frá birki skógum,
allt bíður þess er koma skal.
Hún bíður hans á bæjar hólnum,
brosmild eins og fögur rós.
Engilhrein í hvítum kjólnum,
hvarma dökk en hörunds ljós.
Geislar fæðast glæstra vona,
gleðin heimtar styrk og vörn.
Varir mætast - maður - kona,
mestu lífsins óska börn.
Vafin mjúkum meyjar armi,
margur gleymir tímans raun.
ástar ljómans ljúfi varmi,
lífsins græðir dýpstu kaun.
Unaðsstundir allra nátta,
endur vekur blærinn hreinn,
þegar tónar tveggja átta,
tengjast sama - verða einn.
Djúpin fyllast dýrðar ljóma
dulins máttar - innstu lög
alheims gígjur undir óma,
ástar valsins töfra slög.
Óska drauma elfin rennur,
ósinn kembir ljúfur þeyr.
Vafurloginn varmi brennur
vermdar það sem aldrei deyr.
Helg er nóttin, helg er stundin,
heilagt sérhvert augna blik.
Eðlis hneigðin átta bundin,
aftur þræðir vonlaust strik.
Leitar uppi leið en eygir
lokuð hlið og brostna grein.
Allt er glatað, eigir vegir,
undan koma tæpast nein.
Myrkvast sál að morgni ungum,
merkjast sundur tveggja spor.
Steypist fyrir straumi þungum
strýs við arma, nýfætt vor.
böndin falla, böndin þrengjast,
blæðir hjartans djúpa und.
brotnar sálir, sundur engjast,
sorgin þjakar veika lund.
III
Feigðar boðans forni hljómur,
fyllir hjartans innstu laug.
Náklukkunnar neyðar ómur
næðir gegnum hverja taug.
Inni í dimmum litlum lundi
liggur sverð og rennur blóð.
Mærin unga bregður blundi,
bleik sem nár, við morgunglóð.
Hratt en stillt hún reis úr ranni,
rekja augun sundin græn.
Þessi fagri fjalla svanni,
fellir tár í hljóðri bæn.
Yfir sig kufli stuttum steypir
stöðug gengur beina leið.
Söðlar hest og síðan hleypir
sömu átt og knapinn reið.
Morgun sólar söngvar rymja,
sveimar fugl um skógar rein.
Í fjarska vopnin glampa, glymja,
gjalla raddir, stunur, vein.
Átta á móti einum berjast,
aðrir liggja í valnum fimm.
Hún sér hann móðan, sáran verjast,
svipur harður augun dimm.
Hægt sig einn úr hópnum dregur,
hefur sverði í slíður sökkt.
Spjót í hendi vel hann vegur,
varpar síðan leiftur snöggt,
það gegnum manninn miðjan smýgur,
marrar hold, sem kramið lauf.
Meðan hann til moldar hnígur
mann í herðar niður klauf.
Við hlið hans, stillt á kné hún krýpur,
kyssir mjúkt á augun hörð.
Úr bana sári blóðið drýpur,
breiðist út um gljúpan svörð.
Sem ástarjátning æðri hljómi,
með engla röddum kærleikans,
hún hvíslar lágt með ljúfum rómi
líknar söng í eyra hans.
Drjúp mildur höfði að móður barmi,
moldin þreyttum veitir fró.
Gleymdu öllu hatri - harmi,
haltu göfgi og sálarró.
Fyrir gef þú fölskum mönnum
fólskuverk, með bljúgri lund.
Gakk þú heill, með huga sönnum
hinstu leið á drottins fund.
Hann lyftir höfði hinsta sinni,
horfir djúpt í augun blíð,
þar sem brennur bálið inni,
en brostin von um ævi tíð.
Hann skynjar afl og styrk þess sterka,
stund þess mikla - æðsta mál.
Hann skynjar kærleik kraftaverka
konu ást af lífi og sál.
IV
Myrkvast jörð og moldin grætur,
máninn speglar haustsins rann.
ferðamenn við fjallsins rætur
fundu dána konu og mann.
Í faðmlögum þar líkin lágu,
ljómi í gegnum fölvann sást,
eins og börn er saman sváfu.
Sigur tákn um hreina ást.
Bloggvinir
Eldri færslur
2020
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar